05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

143. mál, fjárlög 1945

Einar Olgeirsson:

Hv. þm. V.-Sk. (SvbH) hélt því fram í ræðu sinni hér, að stjórnarflokkarnir ætluðu að setja landbúnaðinn hjá í nýsköpunarstarfi sínu, þar ætti að byrja svikin. Svo mæla börn sem vilja. Í málefnasamningnum um stjórnarmyndunina segir þvert á móti, að um 50 millj. kr. skuli vera til nýsköpunar í landbúnaði og raforkumálum. — Í grein, sem ég skrifaði 20. sept. s.l. í Þjóðviljann um, hvað kaupa mætti fyrir erlendar innstæður þjóðarinnar, kasta ég því fram, að keyptar væru t.d. eftirtaldar vörur: 150 dráttarvélar með herfi, plóg og tilheyrandi, 50 skurðgröfur, 400 plógar, 2000 sláttuvélar, 2000 rakstrarvélar og 2000 snúningsvélar, þá mundu þessar vörur — eftir upplýsingum, sem ég fékk hjá Búnaðarfélagi Íslands, — kosta til samans 14 millj. kr. í erlendri höfn. — Frá upphafi hefur sannarlega verið reiknað með því, að landbúnaðurinn væri þar með, þegar unnið væri að nýsköpun atvinnuveganna. Og ríkisstj. hefur byggt á því, að bændur fáist til samstarfs um nýsköpun landbúnaðarins, eins og hinu, að fiskimenn fáist til samstarfs um nýsköpun sjávarútvegsins. Framsfl. er að reyna að æsa bændur upp gegn þessari nýsköpun, reyna að fá því áorkað, að bændur taki ekki þátt í þessu samstarfi. Hv. þm. V.-Sk. reyndi hér áðan slíkan æsing með því að snúa út úr orðum hæstv. atvmrh. (ÁkJ). Það, sem ráðh. sagði, var: „Uppbygging landbúnaðarins og nýsköpun; verður ekki framkvæmd í trássi við bændur sjálfa eða samtök þeirra og fulltrúa.“ — Þetta er rétt. Það á ekki að beita bændur þvingun. Og ég hef þá trú, að ekki muni standa á íslenzkum bændum til samstarfs, hvað sem Framsfl. segir og gerir. Og ég vil í því sambandi undirstrika það, sem hæstv. atvmrh. (ÁkJ) sagði í lok ræðu sinnar í gær: „Það er þó öllum kunnugt, að atvinnuleg nýsköpun er óhjákvæmileg nauðsyn fyrir íslenzkan landbúnað, ef ekki á að stefna til hruns.“ Og sú stj., sem nú hefur verið sett á stofn, miðar einmitt að því að afstýra því hruni, sem Hermann Jónasson, hv. þm. Str., er að boða. Og Framsfl. vonast eftir hruni, sem mundi ekki síður koma niður á landbúnaðinum en öðrum. Bændur muna, hvað hrunið þýddi fyrir þá hér á árunum undir stj. Framsfl. 1933 var svo komið, að skuldir bænda voru 33 millj. kr., en allar eignir þeirra 68 millj. kr. Þriðjungur bændastéttarinnar átti þá ekki fyrir skuldum. Bændur vilja ekki fá hrunið aftur. Þess vegna munu þeir taka þátt í nýsköpun þeirri, sem ríkisstj. gengst fyrir. Og bændur eiga stuðning allrar þjóðarinnar vísan við nýsköpunina í landbúnaðinum, því að hún er líka óhjákvæmileg nauðsyn fyrir íslenzkt atvinnulíf.

Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) minntist á í ræðu sinni áðan, að illa væri farið með hlutarsjómenn, og hann hampar því hér á Alþ., að hann og Framsfl. aðeins beri hag þeirra fyrir brjósti. — Það lætur heldur illa í eyrum íslenzkra sjómanna að heyra Eystein Jónsson og aðra framsóknarmenn kveinka sér yfir vexti dýrtíðarinnar af sérstakri umhyggju þeirra fyrir sjómannastéttinni. Það hljómar eins og fölsk nóta að heyra Eystein Jónsson tala um launakjör sjómanna. Hverjir vilja vinna að bættum launakjörum fiskimanna? Eru það þeir, sem berjast gegn því, að ný skip verði keypt, að nýjar og afkastameiri verksmiðjur verði reistar? Eru það þeir, sem standa gegn þeirri nýsköpun sjávarútvegsins, sem núv. ríkisstj. hefur sett sér?

Fyrstu og áhrifaríkustu ráðin til þess að bæta launakjör íslenzkra fiskimanna eru þau að fá ný skip í stað gamalla, að fá stærri fiskiskip í stað hinna smáu. Þær tvær þús. fiskimanna, sem nú stunda veiðar á trillubátum og litlum vélbátum, vita vel, að stærri og betri bátar mundu stórhækka laun þeirra. Þeir sjómenn, sem ár eftir ár hafa fundið það, að þeir hafa aðeins hálft kaup á við stéttarbræður þeirra á hinum stærri og betri skipum, sem geta notfært sér beztu veiðitækni, þeir óska eftir því að geta sem allra fyrst komizt á stærri og betri skip. Síldveiðisjómennirnir vita, að ein tíu þús. mála síldarverksmiðja mundi geta aukið afla hvers síldarskips um ca. 4–5 þús. mál eða hækkað laun hvers háseta um ca. 2000 kr. Sjómennirnir vita, að öruggasta og kraftmesta ráðstöfunin til þess að auka kaup þeirra er að hraða nýsköpun útgerðarinnar. Þeir vita, að Framsókn, sem stendur í gegn eflingu sjávarútvegsins, hún er þeim jafnvel hættulegri en dýrtíðin.

Sjómenn! Nýsköpunin í íslenzkum sjávarútvegi er einmitt fyrst og fremst gerð til þess að bæta ykkar hag. Með því að margfalda afköst fiskiskipanna batnar hagur ykkar. Árið 1903 unnu 7590 sjómenn á 1910 róðrarbátum og um 2000 sjómenn á 137 skútum. Þeir framleiddu samtals um 36 þús. tonn af fiski eða rúmlega 31/2 tonn á mann á ári. Nú framleiðir hver sjómaður að meðaltali 66 tonn af fiski og síld á ári. Og með fullkomnustu tækjunum, togurunum, getur sjómaðurinn komizt upp í að framleiða hátt á annað hundrað tonn af fiski og síld á ári. Slíka gerbreytingu skapar fullkomin tækni á afköstum og kjörum sjómanna. Það eru einmitt nýir togarar, ný skip, sem skapa grundvöllinn að bættri afkomu ykkar. Og Framsókn vill hindra útvegun þessara nýju tækja, alveg eins og henni tókst að hindra hana á áratugunum fyrir stríð. En nú hefur hún ekki valdið til þess að hindra hana lengur. Og ég vona, að ekki komi til þess, að hún fái það vald aftur.

Hæstv. dómsmrh. (FJ) minntist á það, að Sósfl. hefði tekið að sér stjórn Alþýðusambandsins. Sósíalistar gerðu það ásamt ýmsum öðrum fulltrúum verkamanna, þegar vissir Alþfl.-menn neituðu að gefa kost á sér. — Hæstv. dómsmrh. minntist á, að mjótt hefði verið á milli um atkvæðamun á því þingi. Það var líka mjótt á milli, þegar Alþfl. ákvað að taka þátt í ríkisstj. Það mun hafa verið samþ. að ganga að málefnasamningi stjórnarflokkanna í miðstjórn Alþfl. með 11 atkv. gegn 10, en 4 sátu hjá. Og Alþfl. myndaði stj., þótt mjóu munaði. En vitað er, að stjórnarandstæðingarnir í Alþfl., sem undir urðu, berjast allt hvað þeir mega til þess að spilla stjórnarsamstarfinu, og það voru þeir, sem réðu gerðum minni hlutans á Alþýðusambandsþinginu, er tilboði sósíalista um svipaða samsetningu Alþýðusambandsstjórnarinnar og áður var hafnað. Föðurlegum áminningum sínum um ábyrgt starf er hæstv. dómsmrh. því bezt að beina til þessara flokksbræðra sinna, stjórnarandstöðunnar í Alþfl. Sósfl. mun gæta þess hlutverks, sem hann hefur, og standa á verði gegn því, hvar sem er, að andstæðingum stj. takist að spilla samstarfinu.

Þegar ég talaði hér í útvarpið síðast á undan þessum umr., lýsti ég yfir því fyrir hönd Sósfl., að nú væri tækifæri til þess fyrir Íslendinga að taka höndum saman til þess að framkvæma þá stórfelldustu nýsköpun, sem möguleiki væri á. Við álitum, að verkamenn, atvinnurekendur og aðrar stéttir þyrftu að taka höndum saman um myndun ríkisstj. til þess að framkvæma þessa stefnu. — Þetta tókst. Ég álít það mikla gæfu fyrir þjóð vora, að það tókst, og ég vona, að allir, sem að þessari stjórnarsamvinnu standa, beri gæfu til þess að leysa það mikla hlutverk, sem þeir hafa tekizt á hendur, — leysa það, þótt það taki fleiri en eitt og fleiri en tvö kjörtímabil að leysa það til fulls.

Hv. þm. V.-Sk. var að láta þá von í ljós hér áðan, að það mundi ganga seint og illa að fá tæki, sem við þurfum frá útlöndum. Um kaup á þeim mundi verða samkeppni frá öðrum þjóðum, sem líka þyrftu að fá þessi tæki. Hann hefur víst ætlað að bæta úr þeim vandræðum með því að draga lengur að afla tækjanna, stofna til innanlands styrjaldar, áður en ráðlegt þætti að kaupa tækin. — Hv. þm. V.-Sk. var að láta í ljós, að menn vildu ekki kaupa báta nú, heldur selja þá. Þessi hrakspá rætist ekki. Allir Svíþjóðarbátarnir munu nú vera seldir, þó að svo stæði, er ríkisstj. tók við, að aðeins væri samið um sölu þriggja.

Ég vona, að ósk Framsfl., að „Íslands óhamingju verði allt að vopni“, — rætist ekki. Þjóð vor hefur nógu lengi orðið að þola erlenda áþján, nógu lengi orðið að sitja í landi mikilla möguleika við sult og seyru. Það er tími til þess kominn, að þessir möguleikar verði hagnýttir til þess að mynda grundvöll að öruggri og góðri afkomu þjóðarinnar. Um það hefur þjóðin tekið höndum saman, þjóðin, sem alltaf hefur verið brýnd á sundrunginni, — sundrunginni, sem Framsfl. er að reyna að ala á. Þessa þjóðareiningu skal ekki takast að rjúfa. Þessi þjóðareining skal flytja þá efnhagslegu sjálfstæðisbaráttu, sem Íslendingar nú hafa hafið, fram til sigurs — þrátt fyrir allar hrakspár afturhaldsins. — Góða nótt.