30.11.1944
Sameinað þing: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (6056)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Meðan á þessum umr. hefur staðið hér, hef ég verið að litast um hér á hæstv. Alþ. og veita því gætur, hvort yfirmaður útvarpsins, hæstv. menntmrh., mundi ekki vera viðstaddur þessar umr., og það með sérstöku tilliti til þess, að mig langaði til að bera upp fyrir hann eina fyrirspurn. Nú sé ég það, að sú eftirgrennslan, sem ég hef haft um þetta, hefur leitt til þess, að ég veit nú, að hann muni ekki vera hér. Og það er þá næst hendi að biðja hæstv. forsrh., sem virðist vera hér einn staddur af hæstv. ráðh., að flytja þessa fyrirspurn mína til hæstv. menntmrh. (Forsrh.: Hæstv. menntmrh, er forfallaður af lögmætum ástæðum, sem við erum vanir að telja, hv. þm. Borgf. og ég). Þessi fyrirspurn er á þá leið, að með bréfi dags. 18. okt. skrifuðum við fimm þm., sem nefndir höfum verið hér, hæstv. menntmrh. og óskuðum eftir, að hann felldi úrskurð eða yfirdóm yfir þeim úrskurði, sem útvarpsráð felldi, er það vísaði yfirlýsingu okkar frá. Nú hefur form. útvarpsráðs viljað koma af sér eða útvarpsráði, að það hafi endanlega ráðið um, að þessari yfirlýsingu var vísað frá, því að það sé útvarpsstjóri, sem beri ábyrgð á þessu, og það sé hann, sem sé í sökinni, ef um sök er að ræða. En hvað, sem um þetta er sagt, þá höfum við óskað eftir, að yfirmaður útvarpsins, hæstv. menntmrh., skæri úr um það mál, og það er fyrirspurn um, hvað því líður, sem ég vildi biðja hæstv. forsrh. að koma á framfæri. Ég tel þessa frávísun hafa verið gersamlega óréttmæta, og því höfum við óskað eftir úrskurði um það frá yfirmanni stofnunarinnar. Ég vil spyrja: Var ekki eðlilegt og sjálfsagt, að slík stofnun sem útvarpið kæmi á framfæri fyrir okkur yfirlýsingu um, að við ættum ekki hlut að þeirri stj., sem mynduð hafði verið og yfirlýst hafði verið, að Sjálfstfl. stæði að, án þess að nokkur skilgreining kæmi um þennan nefnda flokk. Því hlutu allir landsmenn, sem á þetta hlustuðu, að líta svo á, að Sjálfstfl. stæði allur að myndun stj. með þeim flokkum, sem um var að ræða. En þar sem við höfðum þá afstöðu til þessarar stjórnarmyndunar, sem fram kom síðar á Alþingi í okkar yfirlýsingum, þá vildum við og töldum sjálfsagt, að okkur gæfist færi á í gegnum útvarpið, sem byrjað var á að flytja yfirlýsingar um þetta mál, að gefa okkur tækifæri, eins og öllum öðrum hafði verið gefið, sem við þetta mál voru riðnir, til að lýsa okkar afstöðu. Hvers vegna þurfti landsfólkið að vera í vafa um þessa fimm þm., eina allra alþm., þar til þetta kæmi fram í fréttum frá Alþ.? Höfðum við ekki sams konar rétt og aðrir alþm. til að koma á framfæri gegnum útvarpið okkar afstöðu eins og þeir flokkar, sem að stjórnarmynduninni stóðu? Nei, útvarpið, hvort sem það er útvarpsráð eða útvarpsstjóri, hefur brotið svo freklega rétt á okkur, þessum fimm mönnum, eins og hægt er, og því óskuðum við eftir þeim úrskurði, sem við bíðum nú eftir að fá frá hæstv. menntmrh.

En þegar útvarpsstjóri fer að gefa okkur leiðbeiningu um, hvernig við eigum að haga okkur, þá vil ég bara segja, að mér þykir moldin vera farin að rjúka í logninu, ef útvarpsstjórinn ætlar að fara að leiðbeina okkur. Það er búið að neita okkur, og þar með er hans hlutverki lokið, og við þurfum enga handleiðslu frá honum um þetta mál.

Þessu til viðbótar vil ég taka fram, af því að ég er tímabundinn og þarf að fara héðan kl. 4 og hef leyfi til þess, út af því sem hæstv. forsrh. sagði, að yfirlýsing okkar hefði síðar komið í útvarpinu, þá er það að vísu rétt, en það var ekki fyrir náð útvarpsstjóra, heldur kom þessi yfirlýsing í útvarpinu með fregnum frá Alþ., og þeim er svo háttað, að forsetar Alþ. ráða til þess sérstakan mann að flytja þær fregnir í útvarpinu, og það er ekki á valdi útvarpsstjóra eða útvarpsráðs að skerast í leikinn um, hvert sé efni eða orðfæri þeirra frásagna. Okkur hefði því sjálfsagt ekki gefizt enn kostur á að koma yfirlýsingu okkar í útvarpið, ef við hefðum orðið að eiga það undir útvarpsstjóra eða útvarpsráði. Þannig er þetta mál.