30.11.1944
Sameinað þing: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í D-deild Alþingistíðinda. (6058)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Ég sé ástæðu til að svara nokkru af því, sem fram hefur komið hjá hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Reykv. Skal ég þá fyrst víkja að hæstv. forsrh.

Hæstv. ráðh. lýsti því með mörgum orðum, hversu útvarpið hefði gengið eftir, að hann tilkynnti horfur um stjórnarmyndun, þegar hann hafði í undirbúningi myndun stj. Ég skal ekki draga í efa, að hæstv. ráðh. hafi verið inntur eftir, hvernig það mál stæði, enda deildi ég aldrei á hæstv. ráðh. fyrir, að hann hefði látið þess getið í útvarpinu, að hann hefði í þann veg lokið við að mynda stj. En hann sagði, að það væri rangt, að hann hefði gert sig sekan um rangar fregnir með því að segja, að Sjálfstfl. og tveir aðrir flokkar stæðu að myndun ríkisstj. Færði hann þar fram rök, sem voru svo lík honum sem mest má vera, en það hefði kannske tæplega nokkur annar maður borið þau fram. Hann sagðist bara hafa sagt Sjálfstfl., en ekki allur Sjálfstfl. M. ö. o. þegar sagt er, að Sjálfstfl., Alþfl. og Sósfl. hafi komið sér saman um stjórnarmyndun, þá getur það að dómi hæstv. forsrh. þýtt, að aðeins nokkur hluti af þessum flokkum standi að þessari stjórnarmyndun. Þetta er ákaflega líkt hæstv. forsrh. Þetta er ákaflega líkt því, ef menn væru t. d. að gera samninga um sölu á einhverjum hópi, og seljandinn segði: Ég skal selja hér hópinn, — og svo segði hann á eftir: Það var aldrei allur hópurinn, sem ég var að selja. (Forsrh.: Sjálfstæðismenn eru aldrei seldir í hópum). Það skyldi nú ekki vera, að þessi samlíking væri ekki vel viðeigandi við það, sem hæstv. forsrh. hefur gert við Sjálfstfl. í sambandi við stjórnarmyndunina, en það skiptir ekki máli hér. Þessi rök eru ákaflega lík hæstv. forsrh., og enginn annar þm. mundi geta borið sér þau í munn en hann.

Þá segir hæstv. ráðh., að ég hafi ekki yfir neinu að kvarta í sambandi við flutning útvarpsins á ræðu hans á plötunni. Hann viðurkenndi, að hann hefði beðið útvarpið að flytja ræðuna af grammófónplötu, og var gaman að heyra, að hæstv. forsrh. skyldi hafa beðið útvarpið, en útvarpið ekki beðið hann, og sýnir það, að hann hefur ætlað sér að nota útvarpið með sérstökum hætti. Hann segir, að ég megi vel við una, því að kjarninn úr því, sem ég hafi sagt, hafi komið í útvarpinu. Hann er nú enginn hæstiréttur um það, en það hefði kannske verið hægt að segja kjarnann úr hans ræðu á plötunni með færri orðum. Þetta er ekkert annað en útúrsnúningur hjá hæstv. ráðh., en hitt skiptir mestu máli, að ekki má fara eins með allt það, sem gerðist á þingi í þetta sinn, og mátti þó telja það allt með tíðindum, fyrst útvarpið taldi það samrýmast hlutleysi sínu að skýra frá því, sem hæstv. forsrh. sagði. Annars hefur hæstv. ráðh. aldrei svarað þessu neinu nema útúrsnúningi, og er það ekki nema í samræmi við annað, sem komið hefur fram af hans hendi í þessu máli.

Þá segir hann það ósatt, að hann hafi falazt eftir því trausti, sem kom fram af hálfu ýmissa félagasamtaka og birt var í útvarpinu. Hæstv. ráðh. ræður, hvort hann vill, að menn brosi að honum. Það vita allir, enda var það tilkynnt, að sumir ráðh. mættu á þessum fundum til að túlka fyrir mönnum stefnu stj., vitanlega til þess að sækja þessar yfirlýsingar. Við, sem þekkjum túlkun hæstv. forsrh., förum nær um, hversu hlutlaust málin hafa verið lögð fyrir á þeim samkomum, og sama má engu að síður segja um suma starfsbræður hæstv. forsrh. Við förum nær um, hvaða erindi þessir hæstv. ráðh. hafa haft á þessar samkomur. Við, sem þekkjum vinnubrögð þeirra, sem hér eiga hlut að máli, erum í engum vafa um, að gerðar hafa verið skipulegar ráðstafanir til að kalla þessar yfirlýsingar fram til þess að geta síðan troðið þeim í útvarpið.

Hæstv. forsrh. gerði enga minnstu tilraun til að ræða það, sem er aðalatriðið í þessu máli, en aðalatriðið er það, að með því að setja þessar yfirlýsingar í útvarpið hafa verið brotnar allar reglur, sem settar hafa verið um hlutleysi útvarpsins og fylgt hefur verið fram að þessu. Ég hef bent á það, að þessar yfirlýsingar allar eru hlutsamar um menn og málefni, í þeim eru sleggjudómar um andstæðinga hæstv. stj., en væmið lof um hæstv. stj. Þetta er í stuttu máli innihald þessara tilkynninga, og ég fullyrði, að allt þetta brýtur í bága við reglur útvarpsins um flutning landsmálafrétta, og slík notkun á útvarpinu hefur aldrei átt sér stað, þangað til sú breyting varð um útvarpið, sem kom með valdatöku hæstv. ríkisstj. Ég fullyrði, að starfsmenn útvarpsins hafa ekki tekið upp hjá sjálfum sér að breyta þannig um stefnu, heldur hefur það orðið fyrir þrýsting frá hæstv. forsrh. og sumum starfsbræðrum hans, sem byrjaði með því, að hæstv. forsrh. tróð upp á útvarpið grammófónplötunni, sem var spiluð fyrir landsmenn og hans ræða var á.

Hæstv. ráðh. gerði enga tilraun til að hrekja rök mín um hinar hlutsömu og villandi yfirlýsingar, en reyndi aðeins að snúa út úr eftir því, sem hann gat, til þess að leiða athyglina frá þessu atriði; annað gerði hann ekki. Hann segir, að það eigi að styrkja sjávarútveginn með því að leggja fram 300 milljónir kr. í erlendum gjaldeyri, sem menn gætu fengið keyptan til að fá ný skip og báta. Það er alveg nýr skilningur á orðinu styrkur, ef það er styrkur, að menn fái að kaupa hluti fullu verði. Það er nýr skilningur, sem ekki hefur myndazt fyrr en með tilkomu hæstv. stj. Ég benti á, að í stefnuskrá hæstv. stj. væri margt, sem gengi í þá átt að íþyngja útgerðinni. Því svaraði hæstv. ráðh. engu öðru en því, að ég hefði verið reiðubúinn til að ganga inn á vissar kauphækkanir. Hvað kom það þessu máli við, þó að svo hefði verið? Hvað kom það því við, sem hér er um að ræða, sem sé því, hvort hér hefðu verið hlutsamar og villandi umsagnir um stefnu stj. tilkynntar í útvarpinu? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég benti á, að í þessum tilkynningum hefði verið skætingur um stjórnarandstæðinga, og hæstv. forsrh. svaraði því líka á þá lund, sem var ákaflega líkt honum: Þeir hirði sneið, sem eiga. Hann treysti sér ekki til að mæla á móti, að í þeim tilkynningum, sem fluttar, voru í útvarpinu og komu frá skrifstofu hans, væru dylgjur um þá, sem styddu ekki stj. Hann segir, að þetta geri ekkert til, þeir hirði sneið, sem eiga. Á þennan hátt flytur hann rök sín, og þetta finnst honum vera að gæta hlutleysis útvarpsins.

Hæstv. ráðh. segir, að ég vissi vel, að það mundi svo fara, að það hefði alls ekki verið látið undan neinu húsbóndavaldi í þessu efni; það, sem gert hafi verið, sé algerlega á ábyrgð þeirra, sem stjórni útvarpinu. Ég átti fullkomlega von á því, að hæstv. ráðh. hefði ekki karlmennsku til að kannast við, að það, sem gerzt hafi í málinu, hafi gerzt fyrir þrýsting frá honum. Dettur honum í hug, að útvarpið hefði farið að taka þessar yfirlýsingar til greina, ef þær hefðu verið sendar beina leið frá hlutaðeigandi stofnunum? Dettur honum í hug, að farið hefði verið með þær svona, ef sú aðferð hefði verið viðhöfð? Getur hann ekki kannazt við, að þessi nýja stefna hafi verið upp tekin, vegna þess að þessar tilkynningar komu frá skrifstofu hans sem tilkynningar frá forsrh.? Veit hann ekki, að útvarpið hefur fram að þessu lagt mikið á sig að athuga vandlega tilkynningar frá fundarhöldum og fundarsamþykktir til að reyna að fyrirbyggja það, sem brýtur í bága við hlutleysi útvarpsins? Veit hann ekki, að aðalstarf útvarpsins hefur verið að flytja tíðindi, en ekki skæting af því tagi, sem hann hefur fyrst útvegað og síðan sent útvarpinu til birtingar? Ætlast hæstv. forsrh. til, að við trúum, að þessi breyt. sé til komin, án þess að milliganga hans hafi haft þar áhrif? Það er tæplega hægt að fara fram á, að við lítum svo á, enda munu fæstir gera það. Ég held, að hann verði að taka á sig ábyrgðina af því, sem hér hefur verið gert. Það er ekki hægt að koma því á starfsmenn útvarpsins. Að hinu leytinu má segja, að útvarpið hafi ábyrgð á því, að það skyldi ekki mótmæla þessum tilkynningum frá hæstv. forsrh., og ég efast ekki um, eins og ég er búinn að færa glögg rök fyrir, svo að ekki verður mótmælt, að það hefur alveg riðið baggamuninn, hvaðan þessar tilkynningar komu. Það er ekki hægt að deila um það með neinum rökum, það er ekki hægt að klóra í bakkann, það er ekki hægt að snúa sig út úr málinu með því að slá út í aðra sálma, því að hver og einn, sem með sanngirni lítur á þetta mál, hlýtur að sjá, að þessar tilkynningar eru ekki í samræmi við hlutleysisreglur Ríkisútvarpsins. Þær eru hlutdrægar, og allar eru þær tilkomnar á þann hátt, að stórlega er vítavert.

Hann segir, að það sé undarlegt, að ég skuli finna að því, sem hann hafi gert í þessu efni, því að ég hafi staðið að því með honum, þegar við vorum í þjóðstjórninni, að flytja ræður í Ríkisútvarpið um dýrtíðarmálin í janúar 1942, án þess að þriðji ráðh., Stefán Jóh. Stefánsson, hafi þar haft aðstöðu til að koma fram með sínar aths. Hann hélt langa og hjartnæma ræðu um, að það væri einkennilegt, að ég, sem stóð að þessum framkvæmdum, skyldi leyfa mér að finna að þessu. Fyrst vil ég benda á, að í janúar 1942 stóð svo á, að þá var prentaraverkfall, en þrátt fyrir það kom eitt blað út, og það var blað Stefáns Jóhanns Stefánssonar, þáv. ráðh. Hann var sá eini, sem gat flutt sitt mál fyrir landsmenn, við hinir gátum það ekki. Þetta átti sinn ríka þátt í, að þessi grg. var flutt í útvarpið. En það, sem sætir enn þá meiri furðu, að hæstv. forsrh. skuli núa mér því um nasir, er það, að hann veit, að sá, sem skar úr um, að þetta var haft svona, var einmitt hann. Ég vildi, að Stefán Jóhann Stefánsson fengi að tala í útvarpið, en það var þessi forsrh., sem sagðist ekki tala í útvarpið, nema Stefán Jóhann Stefánsson væri útilokaður, af því að hann hefði Alþýðublaðið. Það situr því ekki á þessum hæstv. ráðh. að deila á mína afstöðu og ósamræmi í þessum málum. En ég skal taka fram, að ég álít þann ræðuflutning okkar í útvarpið árið 1942 alls ekki sambærilegan við þessi hlutleysisbrot, sem nú hafa verið framin með birtingu yfirlýsinga frá þessum félagasamtökum, hann er meira í samræmi við ræðu hæstv. ráðh. Ég ræðst ekki á útvarpið fyrir að flytja ræðu hæstv. ráðh., en ég deili á, að ekki skyldi jafnframt hafa verið birt annað, sem þarna fór fram, en það var það, sem átti að gera, því að þá var þess enginn kostur að gefa út blöð og því ekki hægt á neinn hátt að koma til almennings nema í gegnum útvarpið vitneskju um það, sem þá var að gerast.

Til þess að flýta fyrir skal ég láta útrætt um það, sem hæstv. forsrh. sagði af sinni hálfu. Vil ég þá víkja að hv. 1. þm. Reykv., sem er form. útvarpsráðs. Það er ekki von á góðu, þegar form. útvarpsráðs hefur aðrar eins skoðanir og komu fram hjá hv. 1. þm. Reykv. Ég vil vona, að sumt af því, sem hann sagði, hafi hann sagt að lítt athuguðu máli og það hafi ekki verið hans endanlega skoðun. Hann byrjaði á að segja, að þetta væri nauðaómerkilegt mál, en hann hafði ekki lokið setningunni, þegar hann sagði, að þetta væri nú talsvert merkilegt mál. Hann sagði, að það væri fundið að því, að hlutleysi útvarpsins væri of mikið, og það væri fundið að því, að það væri of lítið. Og það, sem hann sagði að þætti of lítið hlutleysi, var þetta, þegar ég hefði verið að deila á útvarpið fyrir að flytja ekki tilkynningu fimmmenninganna um afstöðu þeirra til stj. Hann sagði, að af þessu væri augljóst, að mér væri ekki ljóst, hvað heyrði undir útvarpsráð og hvað undir útvarpsstjóra. Eftir þessum orðum hans, þá virðist það heyra undir útvarpsstjóra að stöðva það, að tilkynningar, sem gætu komið sér illa fyrir stj., kæmu í útvarpinu, en undir útvarpsráð að láta birta það, sem gæti orðið til ávinnings fyrir stj. Eftir ræðu hans varð maður að álíta, að verkaskiptingin væri þessi, því að hann sagði, að það hefði verið skylda útvarpsins að stöðva tilkynningu fimmmenninganna og það kæmi útvarpsráði ekkert við, þó að eitthvað komi fram, sem bryti hlutleysi útvarpsins.

Þá voru ástæðurnar hjá þm. fyrir því, að ekki mætti birta tilkynninguna frá fimmmenningunum um, að þeir styddu ekki ríkisstj., þær, að í henni hafi getað talizt fólginn pólitískur áróður. Þó að efni tilkynningarinnar væri ekki annað en það var og sagt alveg blátt áfram, mátti það ekki heyrast. En síðan mátti birta hverja tilkynninguna eftir aðra um stuðning félaga og fyrirtækja við ríkisstj. og í þeim tilkynningum nóga sleggjudóma, rangfærslur og skæting til stjórnarandstæðinga.

Hv. 1. þm. Reykv. var ekki fyrr búinn að lýsa hlutleysisáhuga sínum en hann tók að verja það, að þetta væri birt. Það er ekki von á góðu, þegar þessi hv. þm., formaður útvarpsráðs, hefur þennan skilning á því, hvað sé hlutleysi í útvarpinu. Vill hann ekki reyna að gera tilraun til að verja þetta ósamræmi, sem fram kom í ræðu hans? (MJ: Það er vandalaust.). Hann sagði, að það gæti skapað ákaflega hættulegt fordæmi að lesa upp í útvarpi tilkynningu frá einstökum þm. um, að þeir styddu ekki ríkisstj., — þá gætu menn farið að heimta birtar yfirlýsingar um afstöðu sína innan flokka. En er þetta ekki tilkynning um afstöðu í Alþ. og opinbert mál? — Það er allt annað en deila innan flokks. Þetta varðar alla þjóðina, hvernig sem á það er litið. Það er alveg sama, hvernig hann reynir að verja þetta mál. Það hefur komið í ljós, að núv. meiri hl. útvarpsráðs ætlaði að bolast í þessu máli. — Þm. taldi villandi hjá mér að vísa í l. gr. í reglum um flutning innlendra frétta Ríkisútvarpsins frá 17. jan. 1939 og veik að 8. gr. En hún er um annað, um fregnir af félögum, þingum og samkomum ýmsum. Ríkisútvarpið fær fregnir frá viðkomandi aðilum, en vinnur úr þeim á eigin ábyrgð. Og hvað yrði úr hlutleysi útvarpsins, ef það ætti að birta án eigin gagnrýni allt það óbreytt, sem koma kann frá einhverjum aðila í ríkisstj. eða opinberri skrifstofu?

Yfirstjórn útvarpsins hefur sett sér reglur. En þær hafa verið brotnar fyrir þrýsting frá núv. ríkisstj. Ég hef ekkert á móti, að till. verði vísað til n.

En það, sem er aðalatriðið, hefur þegar komið skýrt í ljós. Það var framið brot gegn fimmmenningunum með því að meina þeim að koma tilkynningu sinni fram í útvarpinu. Síðan var farið að flytja í útvarpi tilkynningar, sem fóru í bága við hlutleysi útvarpsins. Ég veit, að starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem hafa reynt að sigla milli skers og báru, vilja ekki láta það koma oftar fyrir, að hlutleysið víki fyrir þrýstingi frá ríkisstj., og ég vona, að almenningsálitið beinist svo sterkt gegn slíku í framtíðinni, að það geti ekki endurtekizt.