24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í D-deild Alþingistíðinda. (6086)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Það hefur um nokkur ár verið tilfinnanleg vöntun á gistihúsum hér í Reykjavík, og þarf ekki að lýsa því fyrir þm., með því að þeir, sem eru utanbæjar, hafa fengið reynslu fyrir því. Nú má gera ráð fyrir, að þegar stríðinu lýkur, verði hér enn meiri gestastraumur, og enn er ekki sýnilegt, að einstök félög eða einstakir menn ráðist í að byggja hér gistihús.

Þess vegna er það, að ég hef leyft mér að hreyfa þeirri hugmynd hér, að ríkisstj. fallist á að fá ýmis félög, sem gera mætti ráð fyrir, að hefðu áhuga fyrir þessu, til þess að vinna saman um þetta mál, en ekkert einstakt félag hefur treyst sér til að leggja út í slíka stórbyggingu. Ég skal játa það, að gera má ráð fyrir því, eftir reynslu Hótel Borg á mögru árunum, að þetta fyrirtæki yrði ekki gróðafyrirtæki, en það yrði stórfyrirtæki. Það þarf að bæta úr þeim erfiðleikum, sem nú eru, og mér sýnist, að með því móti, að nokkuð mörg félög tækju þátt í þessu, stæðu að því styrkar stoðir. Og væri líka ekki svo ákaflega tilfinnanlegt fyrir hvert þeirra, þótt það hefði ekki alltaf fulla vexti af því fé, sem það hefur lagt fram.

Mér hefur borizt mikið af bréfum frá mönnum víðs vegar af landinu, sem hafa látið í ljós ánægju yfir því, að reynt er að bæta úr þessum málum. Ég mælist til þess, að þegar þetta mál hefur verið rættt nægjanlega hér, verði því vísað til allshn.