05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

143. mál, fjárlög 1945

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég sé ekki annað en stjórnarliðið hafi bókstaflega gefizt upp við það að gera grein fyrir stefnu ríkisstj. og treysti sér ekki heldur til að svara gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga. Svo endar stjórnarliðið þessa umr. hér með hálfgerðri prédikun hæstv. dómsmrh., þar sem það á að vera aðalmottóið, að menn ættu að ætla andstæðingum sínum allt það bezta. Og stjórnarliðar segja: Eigum við ekki að bíða í nokkrar vikur og sjá, hvað stj. gerir? — Hver hefur talað um, að við viljum ekki bíða nokkrar vikur til þess?

Ég er hissa á því, sem stjórnarliðið hefur látið hér til sín heyra. Hæstv. forsrh. talaði hér áðan það, sem virtist sanna, að hann álíti, að það velti á ákaflega litlu, hvort hann segir satt eða ekki. Hann sagði, að Hermanni Jónassyni, Jakobi Möller, mér eða öðrum hefði engum dottið í hug, að það kæmi til greina, að mynduð yrði stj., sem aðeins Sjálfstfl. og Framsfl. tækju þátt í. Svo sagði hann, að Hermann hefði gengið á milli manna og sagt, að menn gætu valið á milli þess að hafa hann í forsæti annars vegar, en hins vegar hruns. — Ég veit ekki, hvað gengur að hæstv. forsrh. Ég held, að hann þurfi að láta athuga það. Hæstv. forsrh. datt ekki í hug, fremur en hinum, að verja stefnu ríkisstj., en hann sneri sér að því, sem hann kallaði svo, að Framsfl. hefði fallizt á allar helztu ávirðingar ríkisstj. M.a. nefndi hann launalfrv. og sagði, að þm. úr Framsfl. hefði flutt annað frv. um það efni. En það frv. var flutt með þeim fyrirvara, að hver einasti þm. gæti gert breyt. við það, sem réttlátar væru og sanngjarnar.

Hæstv. forsrh. sagði, að sér væri ekki vant um að vinna með sósíalistum, og kvaddi þar til vitnis „Ófeig“ nokkurn. En þær missmíðar voru þó á yfirklóri þessu hjá hæstv. ráðh., að Framsfl. hefur ekki myndað stj. með sósíalistum, þar sem hann telur stefnu þess flokks að ýmsu leyti hættulega. En hér skilur með feigum og ófeigum. Það er kannske gott, að hæstv. forsrh. hefur veg og vanda af „Ófeigi“ þessum, enda mun honum ekki af veita öllu liði sínu. En þeim hæstv. forsrh. og „Ófeigi“ hefur ekki tekizt að fara rétt með viðskipti Framsfl., þó að baðir þykist vita nokkuð. Á sama hátt mun þeim ganga illa að fá menn til að trúa því, að Framsfl. muni taka upp stjórnarstefnu núv. ríkisstj.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér alldigurbarkalega og spurði, hvað Framsfl. hefði gert fyrir sjávarútveginn. Því er þar til að svara, að það voru framsóknarmenn, sem áttu frumkvæðið að því, að Síldarverksmiðjur ríkisins voru reistar, svo og að söluskipulagi á ýmsum sjávarafurðum. Það voru framsóknarmenn, sem áttu aðalþátt í því að taka upp hraðfrystingu á fiski og einnig hinu að styrkja þá starfsemi á þann hátt, sem dugði, svo að upp kæmust hraðfrystihús, þegar saltfiskmarkaðurinn brást. Og framsóknarmenn höfðu forystu í landhelgismálum landsins og rifu þau upp úr því ófremdarástandi, sem þau voru í í höndum sjálfstæðismanna. Og framsóknarmenn beittu sér fyrst og fremst af öllum flokkum fyrir nýjungum í sjávarútvegsmálum. Þeir hafa beitt sér fyrir lausn olíumálanna og eflingu Fiskimálasjóðs og fjöldamörgu öðru fyrir sjávarútveginn. — Það er sami órökstuddi rógurinn, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) var nú með, sem bæði hann og aðrir kommúnistar hafa sí og æ tuggið áður, að á tímabilinu frá 1934 til 1937 hafi verið staðið gegn innflutningi fiskiskipa. Það var þá gert allt, sem í mannlegu valdi stóð, til þess að flytja þau inn og útflutningur skorinn niður á öðrum hlutum vegna þess. Því hefur verið haldið fram af hv. 2. þm. Reykv., að einn maður hafi verið sektaður um 100 kr. fyrir að hafa flutt inn fiskiskip. Þessi maður fór fram hjá gjaldeyrisyfirvöldunum með það að flytja inn skipið, og þessi sekt var aðeins til málamynda til þess að halda uppi formi laga, en ekki vegna þess, að það kæmi til mála, að hann hefði ekki fengið innflutningsleyfi fyrir skipinu. Hitt held ég, að hv. 2. þm. Reykv. ætti að líta á, að starfsemi kommúnista hefur valdið því, að margir af þeim, sem leggja í mesta áhættu og starfa mest að framleiðslumálum þjóðarinnar, eru ekki nema hálfdrættingar á við aðra, sem í landi eru, og að mokafli þarf að vera til þess að sjávarútvegurinn geti borið sig.

Því er haldið fram af stjórnarliðum, að Framsfl. sé á móti nýsköpun atvinnuveganna. — Hverjir hafa flutt hér á þingi nýjar áætlanir um átök í jarðræktarmalum í landinu? Það eru framsóknarmenn. Hverjir hafa haft forgöngu í ræktun, svo og því, að áburðarverksmiðja yrði reist, í skipulagningu flugmála í landinu og í því að skipuleggja á ný póstmálin í landinu? Og hverjir eru þeir, sem flytja yfirleitt öll mál á þingi, sem horfa fram á við? Það eru framsóknarmenn. En stjórnarliðar hafa oft látið sér nægja að tefja þessi mál, þvælast fyrir málum framsóknarmanna.

Hv. 6. þm. Reykv. gaf í skyn, að staðið hefði á Framsfl. um samvinnu um stjórnarmyndun. Ég held, að hann hafi mælt um hug sér um þetta. Í júní 1944 var sá hv. þm. ekki myrkur í máli um það, á hverjum stóð um stjórnarmyndun, og það voru kommúnistar, sem sá hv. þm. lýsti þá skelegglega yfir, að hefðu komið því til leiðar, að ekki hefði þá tekizt stjórnarmyndun. Hann sagði, að ekki hefði tekizt hér stjórnarmyndun á síðustu árum vegna þess, að kommúnistar hefðu ekki viljað ganga í stj. Og svo sagði hann, að sá hluti Sjálfstfl., sem réð honum, hefði ekki viljað ganga í stj., nema kommúnistar væru með.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að stjórnarandstæðingar vildu koma í veg fyrir, að landinu yrði stjórnað. Mætti draga af því, að Sjálfstfl. og þeir í þeim flokki, sem grimmilegastir voru stjórnarandstæðingar á hinum erfiðustu tímum, sem yfir þetta land hafa komið; hafi viljað hrun og að landinu væri ekki stjórnað. — Ég held, að það hafi verið helzt til þykkt smurt hjá þessum hv. þm. að halda þessu fram.

Þá lýsti hv. 6. þm. Reykv. yfir hér og hv. 2. þm. Reykv:, að hér hefði verið eymd og volæði í landi, þegar Framsfl. hefði stjórnað, og framfaraleysi. Heyra engir menn til mín nú, sem heyrt hafa þessa sömu menn, er þessu halda fram, halda tækifærisræður, þar sem talað hefur verið um, hversu mikil bylting hafi orðið í atvinnuvegum landsins á örskömmum tíma? Er ekki ofur lítið annað hljóð í þeim þá en þegar þeir töluðu hér áðan um eymdina og volæðið á stjórnarárum Framsfl.? Ég held, að þá hafi verið ofur lítið annað hljóð í strokknum.

Þessar eldhúsumr. hafa nú staðið tvö kvöld. Þær hafa verið ójafn leikur að því leyti, að stjórnarliðið hefur haft hvorki meira né minna en þrefaldan ræðutíma á við stjórnarandstæðinga, og það væri synd að segja, að stjórnarliðið hafi skirrzt við að notfæra sér út í æsar þessi sérréttindi.

Þrátt fyrir allt það moldveður, sem þeir hafa þyrlað upp, á að vera unnt fyrir menn að festa sjónir á nokkrum aðalatriðum. — Ríkisstj. mun koma útgjöldum ríkisins á næsta ári upp í 150 millj. kr. eða meira en sjöfalt á við það, sem var fyrir stríð, og nærfellt 70% af útflutningsverðmætinu, eins og það var í fyrra, og var þá framleitt eins og hægt var og allt selt með stríðsverði. Það vantar nú a.m.k. 40 millj. kr., til þess að fjárl. fái staðizt, þótt á næsta ári verði sama peningaflóðið og verið hefur, hvað þá, ef út af ber í þeim efnum, sem líklegast er. Á fjárl. er þó enginn eyrir ætlaður til nýsköpunar, og öll þessi óheyrilega fúlga fer til þess að greiða laun og annan rekstrarkostnað, verklegar framkvæmdir álíka miklar og áttu sér stað fyrir stríð, og síðast, en ekki sízt, til þess að borga niður dýrtíðina og kaupgjaldið í landinu, svo að útflutningsframleiðslan geti skriðið enn um skeið.

Sterkar líkur, að ekki sé meira sagt, benda til þess, að hæstv. ríkisstj. ætli að gefast algerlega upp við afgreiðslu tekjuhallalausra fjárl. og muni stofna til eyðsluskuldasöfnunar þegar á næsta ári — og það þótt peningaflóðið haldist.

Allar ráðstafanir ríkisstj. og allt, sem kunnugt er, að hún hafi í hyggju, stefnir að því að íþyngja framleiðslustarfseminni í landinu og draga úr líkunum fyrir því, að nauðsynleg nýsköpun i atvinnulífi þjóðarinnar eigi sér stað. Og svo eru stjórnarliðar svo ósvífnir að halda því fram, eins og hv. 2. þm. Reykv., að stjórnarandstæðingar séu á móti nýsköpun atvinnuveganna.

Ofan á allt þetta fremur hæstv. ríkisstj. þá óhæfu að bregða þeim mönnum um illvilja og ábyrgðarleysi, sem með rökum benda hógværlega á það, hve ástandið er varhugavert, og gagnrýna stefnuleysi ríkisstj.

Það er nú svo komið, að hver maður, sem nokkurt skyn ber á fjárhags- og atvinnumál, hlýtur að viðurkenna með sjálfum sér, að í öngþveiti stefnir. Þetta sjá margir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. nú orðið. Sumir glotta, en aðrir eru alvarlegir. Það einkennir vel afstöðuna og hvað inni fyrir býr.

Stuðningslið stj. er þegar farið að búa sig undir það, sem koma hlýtur, — búa sig undir það að yfirgefa skipið. Kommúnistarnir tala um, að ekki verði störf þessarar stj. prófsteinn á þeirra stefnu, og um vopnahlé, sem samið hafi verið. — Alþýðuflokksmenn tala um, að þeir hafi. orðið að vera með, þeim hafi verið boðin svo góð boð um einstök mál, sem eigi að ganga fyrir öðru, — nýsköpunin komi svo á eftir.

Hæstv. forsrh. og blað hans, Morgunblaðið, hafa sýnt einna minnsta fyrirhyggju í þessum efnum, en þó er byrjað að ,votta fyrir nokkrum fyrirvara í boðskapnum um allsherjarforsjá ríkisstj. Og í þessum umr. hefur hæstv. forsrh. undirstrikað kröftuglega, að það geti ekki orðið talinn ósigur ríkisstj., þótt svo reynist, að hún hafi rangt fyrri sér um stefnuna í atvinnu- og fjármálum, en stjórnarandstæðingar rétt.

Það er mikið ólán fyrir þjóðina að fá þessa ríkisstj. einmitt nú í stríðslokin. Nú þurfti þjóðin á ríkisstj. að halda, sem hún gæti treyst, sem ekki lofaði meira en hún gat staðið við, ríkisstj., sem leyndi þjóðina ekki neinu. Það þurfti á ríkisstj. að halda, sem sagði þjóðinni þann sannleika, að ekki er hægt að sjá atvinnumálum hennar né fjármálum borgið, hvað þá heldur stofna til stórfelldrar nýsköpunar, nema með því, að allir leggi fram nokkurn skerf til þess að stöðva dýrtíðina. Með því móti einu er hægt að bjarga fjárhag ríkisins og skapa þá bjartsýni, sem er nauðsynleg undirstaða nýsköpunar atvinnulífsins og allsherjarframfara. — Það þurfti og þarf ríkisstj., sem markar ákveðna stefnu um framfarir þjóðarinnar, ákveður þátttöku ríkisins í þeirri viðreisn og stuðning þess við atvinnuvegina og lætur landsmenn jafnhliða vita, hvert hlutverk þeim er ætlað að vinna, og gerir þeim mögulegt að vinna það hlutverk, — ríkisstj., sem gerir ráðstafanir til réttlátrar hagnýtingar stríðsgróðans og grefur fyrir skattsvik, spillingu og klíkuhátt í verzlunarmálum.

Hver sú stj., sem framkvæmir ekki þessi meginatriði, er dæmd til þess að verða bráðabirgðastj., sem situr og bíður þess, að reki í strand. Þetta verður hlutskipti núv. hæstv. ríkisstj., ef hún gerbreytir ekki um stefnu.

Hæstv. ríkisstj. er ráðin í að framkvæma margt, sem auka mun öfugþróun þá, sem fyrir var, og er það háskalegt. En jafnvel enn háskalegra er þó hitt, að hún viðurkennir ekki, hvert stefnir, og þykist hafa ráð undir hverju rifi, þótt hún sýnilega viti tæpast sitt rjúkandi ráð. — Það er enn hörmulegra en ella, að nú skyldi svo til takast um stjórnarmyndun sem varð, vegna þess að aldrei hafa Íslendingar haft jafngott tækifæri og nú, þrátt fyrir allt, til þess að sjá framfaramálum sínum borgið, ef framsýni og fyrirhyggju væri beitt og þjóðin. hvött til þess að standa saman um nauðsynlegar ráðstafanir út af þeim erfiðleikum, sem á veginum verða.

Ekki er gott að segja, hversu lengi þessi stj.. situr, en óhóf eru sjaldan langæ, segir í fornum fræðum, og mun svo reynast. En hvað sem því. líður, þá ríður nú á því umfram allt fyrir þá, sem á þessu sjá missmíðin, að búa sem öflugast undir framkvæmd nýrrar stjórnarstefnu, stefnu framfara, sem byggðar eru á traustum grunni. Og enginn vafi leikur á því, að Framsfl. hefur forystuhlutverki að gegna í því sambandi nú á næstu missirum og árum. — Góða nótt.