26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í D-deild Alþingistíðinda. (6092)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. — Vegna þess að hv. frsm. allshn. sagði, að n. hefði sent þessa þáltill. til ýmissa aðila eins og hann taldi upp, þá hefði verið eðlilegt, að þessi svör hefðu verið birt sem fskj. með nál. Eftir því sem ég veit bezt, hefur það alltaf verið siður, að svör frá stofnunum, sem frv. eða þáltill. eru send til umsagnar og gefa svör við þeim, eru birt sem fskj. með nál. En nú hefur hv. frsm. aðeins sagt, að af þessum aðilum, sem þarna hafa verið spurðir um álit sitt um þáltill. þessa, hafi tveir gefið jákvætt svar, en hinir aðilarnir allir frekar neitandi, eftir því sem mér skildist. Það hefði verið ákaflega æskilegt, að þessi svör hefðu verið birt. Ég get t. d. hugsað mér, að Eimskipafélag Íslands og Reykjavíkurbær hefðu svarað játandi, en hinir kannske neitandi. Og ég verð að segja svona almennt, að ég get ekki séð í fljótu bragði, hvers vegna Búnaðarbanki Íslands, Landsbankinn eða Útvegsbankinn, Fiskifélagið, S. Í. S., Verzlunarráðið, Landssamband útvegsmanna, Sláturfélagið og jafnvel Mjólkursamsalan eru til tekin í þessu sambandi í grg., hvaða hagsmuni þessar stofnanir geti af því haft að reisa gistihús í Reykjavík.

Ég mundi gjarnan vilja heyra þau rök, sem þessir aðilar hefðu fyrir því. Ég hélt, að samsalan hefði, þó að hún sé þessu máli meðmælt, annan tilgang samkvæmt sínum l. en leggja fé í gistihússbyggingu í Reykjavík. Ég get ekki heldur hugsað mér, að Sláturfélag Suðurlands, Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn hafi samkv. sínum samþykktum nokkra heimild til að leggja fram fé í þessu skyni. Sá eini aðili, sem mér vitanlega hefur gert samþykkt um þetta, er Eimskipafélagið, vegna þess að nýafstaðinn aukaaðalfundur gerði þá samþykkt, að félagsstj. gæti með samþ. félagsfundar ákveðið að félagið reisi og reki gistihús eða gerist þátttakandi í slíku fyrirtæki. Eimskipafélagið er því að mínu viti eini aðilinn, sem samkv. sínum samþykktum hefur leyfi til að leggja fram fé í þessu skyni, því að allir aðrir þessir aðilar eru opinberar stofnanir, sem hafa ekki sínum samþ. samkv. heimild til að leggja fram fé til slíkra aðgerða.

Í sambandi við till. sjálfa er það að segja, að þar er ekkert tekið fram, hvort það félag, sem þar er gert ráð fyrir, að verði stofnað, verði prívatfélag eða stofnað af opinberum aðilum, og í till., sem hv. allshn. ber fram, er ekki heldur neitt um þetta sagt. Hún nær styttra, þar sem hún vill aðeins láta fara fram athugun á því, á hvern hátt yrði hagkvæmast að koma upp gistihúsi.

Annars stóð ég aðeins upp til að segja, að mér finnst, að þar sem allshn. vitnar til svo og svo margra opinberra aðila, þá hefði hún átt að birta þau bréf, þar sem ég verð að draga í efa, að nokkur þessara aðila nema Eimskipafélagið hafi heimild samkv. sínum samþ. til að leggja fé til slíks, ég vil a. m. k. sjá, að svo geti verið. Annars gæti hv. þm. V.-Sk. sagt um það, hvort samsalan hafi samkv. sínum samþykktum heimild til að leggja fé fram í þessu skyni, eða Sláturfélag Suðurlands, sem hv. þm. Borgf. gæti sagt um, eða Útvegsbankinn og Landsbankinn, sem hæstv. ríkisstj. gæti sagt um, en ég efast um, að þessir aðilar hafi nokkurt leyfi til þess samkv. sínum samþ., heldur sé fé þeirra bundið vissum tilgangi og meira ekki. En það væri mjög vel til fallið, að þau svör, sem þessir aðilar hafa gefið n., væru birt. (JJ: Ef það er ekki nema nei, þá er ekki þörf á að birta það.) Já, en það getur verið rökstuðningur fyrir því. (JJ: Okkur vantar ekki nei, heldur já.) Það fékkst já, þegar Hótel Borg var byggt, og þá hefði ef til vill verið betra, að komið hefði nei. (JJ: Áttum við að liggja eins og hundar úti á götu?) Já, ef við erum hundar.