26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í D-deild Alþingistíðinda. (6093)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki þreyta hæstv. forseta og aðra með langri ræðu, þar sem nú er komið fram yfir miðnætti, en ég kemst ekki hjá því að svara hv. þm. V.-Sk.

Hv. þm. sagði, að ég eða allshn. hafi ekki þurft að hugsa um að vera forsjón stj. Mjólkursamsölunnar eða taka fram fyrir hendurnar á henni, því að hún hefði aldrei ákveðið að leggja fram fé til þessa fyrirtækis, eins og ég hefði sagt í framsöguræðu minni. Ég held, að ég hafi aldrei sagt beinum orðum, að stj. samsölunnar ætlaði að leggja fram fé, en ég sagði, að samsalan hefði heitið málinu stuðningi, en hvort það er gert beinum orðum eða ekki í þessu svari, skiptir ekki máli. En ef við lesum grg. þessarar till. og berum hana saman við svar samsölunnar, þá verður okkur ljóst, að með því að lýsa sig samþykka till., þá er ekki annað hægt en að draga þar af þá ályktun, að stj. samsölunnar sé reiðubúin til að ljá málinu stuðning með fjárframlagi, því að eins og getið er um í grg., þá er lagt til að leita til einstakra manna, ekki sízt manna, sem framarlega standa í rekstri gistihúsa, og enn fremur margra stofnana og fyrirtækja, sem þar eru nefnd. Bæjarráð Reykjavíkur tjáði sig fúst til að leggja fram fé, Mjólkursamsalan tjáði sig till. samþykka, en hún er í grg. talin sjálfsagður aðili, og um leið og hún lýsir sig till. samþykka, gefur hún í skyn, að hún sé reiðubúin til að styðja fyrirtækið með fjárframlögum, hún getur ekki stutt það á annan hátt.

Annars er óþarfi fyrir mig og hv. þm. V.-Sk. að skiptast á orðum út af þessu atriði, því að hér ber ekki mikið á milli, enda lýsti hann því yfir sjálfur sem sinni persónulegu skoðun, sem er form. samsölunnar, að það væri sín persónulega skoðun, að það væri rétt af samsölunni jafnvel að leggja fé fram til þessara hluta. Ég held þess vegna, að ég hafi alveg farið með rétt mál í minni framsöguræðu og ekki hafi borið neina nauðsyn til fyrir hv. þm. V.-Sk. að standa hér upp til að mæla gegn því.

Hv. þm. S-Þ. og hv. þm. V-Sk. telja báðir, að till., eins og allshn. hefur breytt henni, sé gagnsminni en till. eins og hv. þm. S-Þ. ber hana fram. Hv. flm. skorar á stj. að beita sér fyrir að koma á stofn félagi til að reisa gistihús í Reykjavík. Þessi áskorun er bundin við hæstv. ríkisstj. Ég hef ekki fyrr heyrt, að þessir hv. þm. bæru svo ótakmarkað traust til núv. ríkisstj., að þeir teldu málinu betur borgið með því að vísa því til hennar en fela henni að leysa það. Mér hefur a. m. k. heyrzt, þegar þeir hafa verið að tala um nýsköpun stj., að þeir gerðu ekki mikið úr því. En það breytist stundum veður í lofti á skömmum tíma, og það má vel vera, að þessir tveir hv. þm. séu allt í einu orðnir stuðningsmenn hæstv. stj. og telji málinu bezt borgið að fela henni að framkvæma það. Það er kannske af því, að ég er ekki stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., að ég tel málinu miklu betur borgið eins og n. leggur til, að till.samþ., en eins og hv. flm. ber hana fram, því að þar er stj. falið að láta fara fram athugun á því í samráði við Reykjavíkurbæ, hvernig sé hagkvæmast að koma upp almenningsgistihúsi í Reykjavík. Till. er því miklu heppilegri og betri frá hendi allshn., og þar er vísað til bæjarráðs Reykjavíkur, af því að það liggur skjalfest fyrir frá bæjarráði, að þeir séu reiðubúnir að leggja þessu máli lið með fjárframlagi. Það er eini aðilinn, sem hefur svarað fyrirspurn n. á þann hátt, að hann sé reiðubúinn að leggja fram fé í þessu skyni, og það er því sjálfsagt og eðlilegt, að betra sé að vísa málinu til þess aðila, sem lýsir sig reiðubúinn til þess, en að skjóta áhyggjum sínum eingöngu upp á hæstv. ríkisstj.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. En þar sem hv. 2. þm. Eyf. segir, að hann telji óviðeigandi, að skjölin frá þessum aðilum, sem ég nefndi, séu ekki birt með nál., þá vil ég segja honum það, að ég hef sagt viðvíkjandi þessum svörum það, sem rétt er, og eins og hv. þm. S-Þ. sagði áðan, þá þörfnumst við ekki að sjá þessi nei skrifuð á pappír, því að það er nægilegt að vita, að þau eru komin, og eins og stendur, þá er ekki stuðnings að vænta frá þessum aðilum. (JJ: Þetta er eins og ung heimasæta, sem játar ekki í fyrsta skiptið.) Þess vegna held ég, að það sé enginn skaði skeður, þó að þessi svör séu ekki birt hér. Skal ég svo láta mínu máli lokið að svo stöddu.