26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í D-deild Alþingistíðinda. (6096)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Út af áskorunum til allshn. um að láta birta þau svör, sem borizt hafa við bréfi hennar, vil ég segja, að ég sé ekki ástæðu til þess, þar sem þau liggja frammi á lestrarsal og hver þm., sem vill, getur kynnt sér þau. Ég vil einnig benda á, að n. taldi till. á þskj. 661 alls ekki þinglega orðaða, þar sem lagt er til, að Alþ. skori á ríkisstj. að koma á fót hlutafélagi eða samvinnufélagi, — miklu heldur mætti beint skora á hana að láta byggja gistihús, ef framkvæmanlegt þætti, — það væri þinglegra form en að segja ríkisstj. fyrir verkum eins og í till., þegar óvíst er, hvort hún gæti fengið nokkra til að mynda slíkt félag. Ég er hissa á eins þingvönum manni og hv. þm. S-Þ. að orða till. svo. Breyt. n. færir till. í það horf, að vel má samþ. Þá er lagt fyrir ríkisstj. að láta athuga í samráði við bæjarráð Reykjavíkur, hvernig koma megi gistihúsinu upp. Það hefði verið hægt að skora á hv. þm. Seyðf. eða hv. 2. þm. Eyf. að koma svona félagsskap upp, þeir stæðu vel að vígi til þess sakir atvinnu sinnar og dugnaðar. Verði till. allshn. samþ., gæti ríkisstj. kosið þá aðferð að snúa sér til þeirra með málið og fá þá til að gangast fyrir félagsstofnun, slíkri sem hv. flm. gerir ráð fyrir. En hún gæti einnig kosið aðra leið.

Ég vildi segja við hv. þm. V-Sk., að það er ekki glæsilegt að leggja eigur sínar í félagsskap til að hrinda fram þjóðnytjamáli, ef þeir, sem það gera, mega síðan búast við öðrum eins góðvilja og þeir framsóknarmenn hafa síðustu daga sýnt öðrum slíkum félagsskap, Eimskipafélaginu. Jafnskjótt og von er um, að fyrirtæki vaxi fiskur um hrygg, svo að það geti ráðizt í auknar þjóðnýtar framkvæmdir, skal taka ráðin af hluthöfum, svo að umboðsmaður ríkisins þurfi ekki annað en koma á fund, eins og er í Útvegsbankanum h/f, og tilkynna hluthöfum vilja sinn, atkvæði þeirra séu að engu metin. Það er ekki von, að menn langi til að afhenda fyrirtæki sín þannig eða gangi fúsir í fjárfrek samtök með von um þetta fram undan.