26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í D-deild Alþingistíðinda. (6097)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Það er komið á daginn, að varla hefur verið skýrt rétt frá einu einasta plaggi, sem n. hefur borizt í þessu máli. Hv. þm. hafa hlotið að taka eftir því, að bæjarráð, sem lofar fyrirgreiðslu, heitir ekki beinum fjárstuðningi sínum. (IngJ: Hvað er fyrirgreiðsla, ef ekki fælist neitt í því um fjárhagslegan stuðning?) Þar segir ekkert um, hvers konar stuðnings vænta megi. Hægt er að greiða fyrir framgangi margra mála án þess að greiða fé, og það veit ég að hv. þm. hefur oft gert. Þá segir þessi hv. þm. um allar hinar umsagnirnar nema Mjólkursamsölunnar, að þær séu neitandi. Þetta er alrangt, og skal ég með leyfi hv. forseta lesa kafla úr þeim. Í bréfi frá Landsbanka Íslands segir, að bankinn hafi eigi tekið afstöðu og framkvæmdastjórn hans treysti sér ekki til þess nú, „enda þótt hún telji mikla þörf á því, að komið sé upp gistihúsi hér í bæ.“

Í bréfi Eimskipafélagsins er málið rætt á vissan hátt og tekið fram í lokin: „getum vér því eigi að svo stöddu sagt um, hver verður afstaða félags vors til þátttöku í gistihússbyggingu þeirri, er ræðir um í tillögunni.“ — Þetta er alls ekki neitandi svar.

Þá kemur umsögn frá Útvegsbanka Íslands. Ég skal lesa bréfið allt, eða samþykkt bankans:

„Samkv. ósk allshn. Sþ. í bréfi dags. 2. febr. þ. á. viljum vér hér með láta í ljós þá skoðun vora, að till. til þál. um gistihússbyggingu í Reykjavík sé mjög þarfleg og nauðsynleg, eins og nú standa sakir, en oss virðist, að frekari undirbúningur og rannsókn séu nauðsynleg, áður en slíku máli er ráðið til lykta. Vér viljum taka það fram, að vér erum málefninu hlynntir, en teljum oss ekki fært, á þessu stigi málsins, að taka neinar fjárhagslegar ákvarðanir því áhrærandi að svo stöddu.“ — Þetta er alls ekki neitandi, gefur miklu fremur undir fótinn.

Þá segir í bréfi frá S.Í.S., að sambandið hafi nýlega eignazt lóð þá, sem bent sé á í grg. till. fyrir gistihús, og þurfi það á henni að halda til annars. Síðan segir: „Um þátttöku vora í þar um ræddu gistihúsmáli getum vér ekki sagt á þessu stigi málsins.“ — Þetta er ekki neitandi.

Landssamband ísl. útvegsmanna „telur brýna nauðsyn á því, að máli þessu verði hrint í framkvæmd sem fyrst.“ Í bréfi Búnaðarbankans segir, „að engum getur dulizt hin mikla nauðsyn, sem á því er, að gistihúsum í Reykjavík fjölgi.“

Engin af þessum umsögnum er neitandi, og flestar segja miklu meira en umsögn Mjólkursamsölunnar, sem ekkert ákveðið segir. Hvers vegna vill n. ekki, að þessar umsagnir séu birtar?

Ég ætla ekki að fara að svara hv. þm. Barð. um Eimskipafélagsmál. En ef gistihúsinu vegnaði eins vel og því félagi, þá hugsa ég, að sá hv. þm. sé það mikill gróðamaður, að hann mundi gjarnan vilja leggja í fyrirtækið.