26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í D-deild Alþingistíðinda. (6099)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Hv. 2. þm. Eyf. taldi n. komna í vörn, en ekki sókn, þar sem upplýst væri, að enginn hefði heitið fyrirtækinu fjárhagsstuðningi. Ég hef tekið fram, að enginn nema bæjarráð Reykjavíkur hafi heitið fjárhagslegum stuðningi, en orð þess, „hvers konar fyrirgreiðslu“, er ekki hægt að skilja á annan veg en m. a. sé lofað fjárstuðningi. Ég heyri að vísu, að hv. þm. V.-Sk. leggur annan skilning í það. En n. var sammála um að líta svo á, að það svar væri algerlega jákvætt, og jákvætt væri einnig svar Mjólkursamsölunnar, en hin öll fremur neikvæð, miðað við skjótar framkvæmdir, sem að var stefnt með þáltill. Hv. þm. V.-Sk. vill telja mörg þeirra jákvæð, en á þeim skilningi hans er ekkert að byggja. Hann gerir sér far um að reyna að sýna, að ég túlki svörin á rangan hátt. Ég skil ekki hvers vegna. Það er misskilningur, að ég hafi talað um lofaðan fjárstuðning frá öðrum en bæjarráðinu. Þó að hv. þm. V.-Sk. heyri til mín allt annað en ég segi, get ég ekki við heyrn hans gert, né heldur því, hvað heitur hann verður út af því, sem honum heyrist. Umr. mun nú senn lokið, og legg ég eindregið til að samþ. þál. í því formi, sem n. leggur til. Hitt, að vísa till. til ríkisstj., bæri að vísu að sama brunni, en mér finnst ástæðulaust að hafa þá aðferðina.