01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í D-deild Alþingistíðinda. (6111)

10. mál, birting skjala varðandi samband Íslands og Danmerkur

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Till. á þskj. 10, sem liggur hér fyrir, er flutt af þm. Alþfl. og skýrir sig í raun og veru mjög mikið sjálf. Þar er tekið fram, að Alþingi feli ríkisstj. að birta þau skjöl, sem þar eru nánar nefnd. En mér þykir þó hlýða að gera grein fyrir því, hvers vegna till. þessi er komin fram og við hvaða rök það styðst, og fara um málið nokkrum almennum orðum.

Það er í raun og veru alllangt síðan það bar á góma í þeirri n., sem kjörin var af Alþ. til að fjalla um utanríkismál, utanrmn., hvort rétt væri að birta þá þegar þau skjöl, sem um ræðir í þessari till. Þá höfðu verið birt af hv. þm. G.-K. nokkur af þessum skjölum. Ég hafði einnig tekið upp úr einu skjalanna í grein, sem ég reit í Alþbl. En á fundi í utanrmn. 23. júlí s. l. eða fyrir hálfu ári var þessu máli fyrst hreyft af hv. 2. þm. Reykv., sem síðan lét skýra frá því í flokksblaði sínu, að það hafi verið hann, sem fyrstur hafi vakið máls á þessu efni. Um þetta mál var nokkuð rætt á þessum fundi, en engin ákvörðun tekin. Og ég tel líka rétt að skýra frá því, að á síðasta fundi þessarar n. var þetta mál rætt allýtarlega, og skildist mér á þessu stigi málsins, að meginþorri þeirra manna, sem skipa n., væri þeirrar skoðunar, að ekki yrði hjá því komizt, að þessi skjöl yrðu birt. Og mér skildist líka á ríkisstj., sem átti þar sæti, að hún væri til þess fús, ef utanrmn. ákvæði um það, og var þá jafnvel svo langt komið, að hæstv. forsrh. hafði í undirbúningi að leggja fyrir n. till., ef hún tæki ákvörðun um, að þetta skyldi endilega gert. En svo lognaðist málið niður og var ekki upp tekið um skeið. En þegar það var kunnugt, að því var slegið föstu, að á þessu ári, sem nú er að byrja, mundi lögð undir dóm þjóðarinnar till. í því formi að fella niður sambandslagasáttmálann frá 1918 og einnig ákvörðun um skipun íslenzka lýðveldisins, þá fannst okkur Alþfl.- mönnum, að sjálfsagt væri, þegar jafnmikilsverð málefni væru lögð fyrir þjóðina, að menn ættu þess kost að fá að sjá öll þau skjöl, sem gætu gefið um þetta einhverjar upplýsingar. Um þetta þarf ekki að deila. Það er kunnugt, að það hefur orðið hér nokkur skoðanamunur um það, hver væri hin rétta og örugga leið til lausnar þessu máli, en ég ætla nú ekki að fara út í það.

Þegar það þess vegna var sýnt, þegar ríkisstj. hafði lagt fram sínar till. um niðurfelling sambandslagasáttmálans og einnig frv. að lýðveldisstjórnarskrá, að Alþ. mundi fjalla um þetta mál að meira eða minna leyti og þjóðin mundi líka verða um það spurð, hvernig hún vildi svara þeim spurningum, sem Alþ. vildi leggja fyrir hana, þá virtist okkur Alþfl.-mönnum, að óhjákvæmilegt væri, að þessi skjöl yrðu fyrst og fremst birt öllum þm. og í annan stað þjóðinni sjálfri. Því höfum við flutt till. í tveim liðum, í fyrsta lagi að því sem snýr að þinginu og svo að þjóðinni. Okkur er kunnugt um það, að ekki allir þm. hafa átt þess kost að sjá þessi skjöl. Og því er mönnum ekki gefinn kostur á að sjá þessi skjöl, þegar það er ljóst, að æði margir þm. hafa fengið að kynnast skjölunum, og gert það rækilega?

En í sambandi við þetta mál skal ég strax geta þess, að raddir hafa heyrzt um það utan þings, að óviðurkvæmilegt kunni að vera að birta þessi skjöl og hér væri um að ræða skjöl, sem væru að nokkru leyti um viðkvæm utanríkisviðskipti og vafasamt, að ættu að fá að sjá dagsins ljós. Ég hygg, að þessi viðbára sé byggð á allmiklum misskilningi. Ég játa að vísu, að við Íslendingar erum skammt á veg komnir í framkvæmd utanríkismála okkar og rétt og hyggilegt, að við gætum að hverju okkar skrefi, að það verði okkur ekki til vansa og brjóti ekki í bága við viðteknar og viðurkenndar reglur erlendra þjóða, sem hafa í þessum efnum mikla æfingu og kunnáttu. En ég held, þegar litið er til málsmeðferðar erlendis um svipuð efni, að það komi í ljós, að óhætt sé að slá því föstu, að eftir að þeirri hulu einvalds var svipt í burtu í meðferð utanríkismála, sérstaklega ef litið er til dæmis til Bandaríkjanna í Norður-Ameríku, þá hefur ekki verið talin goðgá að birta almenningi mjög mikilsvarðandi skjöl, sem höfðu farið á milli ríkja, heldur var það talin sjálfsögð lýðræðisskipulagsleg skylda, til þess að almenningur ætti kost á því að fella rétta dóma um þau málefni, sem skjölin sérstaklega snertu.

Mér er sérstaklega minnisstætt tvennt, sem kom fyrir í nágrannaríkjunum, einmitt eftir að yfirstandandi styrjöld hófst. Eins og alkunnugt er, brauzt út styrjöld seint á árinu 1939 milli Finna og stórveldisins Rússlands. Finnar áttu þá mikla samúð frændþjóða sinna á Norðurlöndum, og keppt var að því af sumum þessara ríkja að hjálpa Finnum í styrjöldinni, einkum með því að hjálpa bágstöddum almenningi í Finnlandi, sem styrjöldin kom hart niður á. Og það var beint rætt um það, að Svíar hefðu slíka hjálp með höndum, þannig að valdir væru sjálfboðaliðar í Svíþjóð til þess að hjálpa Finnum í baráttu þeirra. Það lék á því nokkur grunur um það skeið, að erlend stjórnarvöld hefðu skipt sér af því, hvað Svíar vildu gera í þessum efnum, og það hefur orðið til þess, að ekki varð úr því, að sænska ríkisstj. greiddi beinlínis fyrir því, að sjálfboðaliðar frá Svíþjóð færu til Finnlands. Ekki var þó hljótt um þetta mál, heldur var mikið um það rætt og misjafnir dómar um það felldir af almenningi. Og ekki var almenningi ljóst um þetta mál, fyrr en sænska ráðuneytið birti skjöl og viðræður um málið við stjórnir erlendra ríkja. En þá varð ljóst, að frá Moskvu og Berlín höfðu borizt svo strangar aðvaranir til sænskra yfirvalda gagnvart því, að sænskir sjálfboðaliðar færu til Finnlands, að það varð til þess, að sænska ríkisstj. taldi ekki rétt vegna hlutleysisafstöðu sinnar að stuðla að þessu máli á nokkurn hátt. Um þetta voru viðkvæm skjöl birt opinberlega í Svíþjóð.

Annað dæmi frá Norðurlöndum vil ég nefna. Það var eftir að vetrarstyrjöldinni lauk milli Rússa og Finna. Þá hófust viðræður, sem upp munu hafa verið teknar í Svíþjóð, um það, hvort Norðurlönd, fleiri eða færri, skyldu mynda hernaðarbandalag sín á milli. Um þetta urðu viðræður við Finna, Norðmenn og jafnvel Dani. Það virtist vera mikill áhugi á því meðal ráðamanna þar, að þessi lönd mynduðu einhvers konar hernaðarbandalag, hvort sem það væri mjög fastbundið eða ekki. Í þessum löndum, sem liggja svo nærri hvert öðru, eru svo skyldar þjóðir, að frá því sjónarmiði var þetta nokkuð eðlilegt. Þá komu enn aðvaranir frá Moskvu og Berlín, og ekkert varð úr þessu bandalagi. Allar viðræður, sem um málið höfðu fram farið, urðu að engu, og málið datt niður. — Mega menn af þessu ráða, að Íslendingar eru ekki eina þjóðin, sem kann að fá aðvaranir stórveldanna, ef þeim mislíkar eitthvað, sem gert er. — Um þetta bandalag var mjög mikið rætt meðal Norðurlandaríkjanna allra, sem þá voru hlutlaus í styrjöldinni. Þetta mæltist misjafnlega fyrir, og spunnust út af þessu alls konar sögusagnir, sem gerði það að verkum, að ríkisstj. Svíþjóðar, sem upptökin átti að þessu máli, þótti sjálfsagt að láta birta bláa eða hvíta bók um þetta efni með skjöl og viðræður milli ríkja um þetta mál.

Ég nefni aðeins þessi dæmi, af því að þau eru frá síðustu tímum og af því að þau eru frá þjóðum, sem nærri okkur eru og hafa svipað stjórnskipulag og Ísland, fullkomna lýðræðisstjórn, og hafa fengið orð fyrir að kunna fótum sínum forráð í meðferð utanríkismála.

Það er því ekki um það að ræða, að það sé varasamt að birta aðvaranir frá stórveldum, þegar um það er að ræða að upplýsa mál fyrir kjósendum í landinu, sem nauðsynlegt er, til þess að um þau verði felldur réttlátur dómur, til þess að hægt sé að halda uppi einhug þjóðarinnar út af málefnum, sem fram hafa komið. Ég held því, að það sé byggt á mjög miklum misskilningi, sem heyrzt hefur, að það sé vafasöm háttvísi af stjórn íslenzkra utanríkismála að birta skjöl um viðskipti við önnur ríki, skjöl, sem sumpart hafa verið birt áður og um hefur verið rætt í landinu mjög mikið. Ég hygg, að ekki væri farið inn á neinar óvenjulegar brautir, þó að slíkt væri gert. — Þetta tek ég fram út af því almenna viðhorfi í þessum málum.

Því næst skal ég snúa mér að þeim fjórum höfuðatriðum, sem ætla mætti, að birtingu skjalanna snerti sérstaklega; því að eins og þáltill. ber með sér, er ætlazt til þess, að birt verði þau skjöl og skilríki, sem fram hafa farið á milli íslenzka ríkisins annars vegar og hins vegar í fyrsta lagi stjórnarvalda Dana, í öðru lagi stjórnarvalda Bretlands, í þriðja lagi Bandaríkjanna og í fjórða lagi fulltrúa Íslands erlendis.

Í fyrsta lagi álít ég rétt að birta það, sem snerti viðskipti Íslands og Danmerkur í apríl 1940, og þau viðskipti, sem fóru fram, snertandi sama efni, milli íslenzka ríkisins og Bretlands. Nú er það alkunnugt, því að það hefur ekki farið leynt, heldur hefur verið rætt um það opinberlega á Alþ., í blöðum og á opinberum fundum — og væntanlega þá einnig í útvarpinu —, að það voru viss afskipti og skilaboð, sem íslenzka ríkið fékk í byrjun ársins 1942 frá brezku stjórninni um hendur umboðsmanna hennar hér á landi. Og ég tel mjög nauðsynlegt, að það nákvæmlega rétta komi í ljós um það, hvernig þessi afskipti voru og hverju íslenzkir aðilar svöruðu, ef þeir hafa svarað. Ég tel, að það skipti verulegu máli, þegar verið er að ræða um það, hvernig eigi að hegða sér og hvaða aðferðum eigi að beita til þess að stofna lýðveldi á Íslandi og ganga formlega frá sambandsslitum Íslands og Danmerkur. Og þar sem nú þegar er búið að segja frá þessu í meira og minna ákveðnum orðum með meiri eða minni nákvæmni, þá á þjóðin — og ekki sízt náttúrlega þingmennirnir — hreina heimtingu á að fá að vita um þetta sem allra nákvæmast, sannast og réttast. Og ekki gæti það verið óþægilegra fyrir Bretastjórn, ef litið er á þá hlið málsins, að sagt væri alveg nákvæmlega og rétt og umbúðalaust frá málsmeðferðinni, heldur en sagt sé frá því á þann veg, að tilefni gefist til þess, að kviksögur myndist um þessi viðskipti, eins og oft er, þegar sagt er aðeins undan og ofan af um merkileg málsatvik, eins og þau, er snerta þessi samskipti íslenzkra stjórnarvalda og Bretastjórnar.

Þá eru það skjölin viðkomandi því, sem fór á milli ríkisstj. Íslands og Bandaríkjanna árið 1942. Þegar hafa verið birtir opinberlega, bæði í blöðum og útvarpi og annars staðar, verulegir þættir af þeim skilríkjum, sem fóru á milli Íslands annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar í sambandi við fyrirhuguð sambandsslit 1942. Þó hafa ekki öll þau skilríki verið birt, og skortir nokkuð þar á. En einmitt það, að það hefur ekki verið birt allt umbúðalaust og rétt, er það, sem á skortir til þess, að þjóðin fái sem réttasta, nákvæmasta og sannasta mynd af því, sem skeði þá hér á landi í sambandi við þetta mál 1942. En þar sem birtur hefur verið verulegur hluti af þessum skilríkjum, en þó ekki þau öll, þá liggur það svo opið við, að það muni vera eðlilegast að birta það einnig, sem á skortir til þess, að þessi skilríki séu öll birt, og það mun ekkert vera við það að athuga af hálfu stjórnar íslenzkra utanríkismálefna né af hálfu þess stórveldis, sem hlut átti og á að máli út af þessum viðskiptum.

Þá er það í þriðja lagi, hvað farið hefur á milli stjórnarvalda Íslendinga og Dana út af þessu máli. Og þar er það líka svo, því miður, að þar hefur verið birt sumt, en ekki allt, og að mínu viti verið farið mjög háskasamlega að. Þar hafa ekki verið birt þau beinu „nótu“-skipti, sem farið hafa á milli íslenzkra og danskra stjórnarvalda árið 1941, árið 1942 eða yfirleitt frá því, að þetta mál kom til. Það er t. d. út af deilunni um, — ef koma ætti inn á þá deilu, — hvort rétt væri og lögformlegur háttur að fella úr gildi sambandslagasáttmálann, hvað tímatakmark snertir, eftir 19. eða 20. maí 1944, þá hefur það þýðingu fyrir alþjóð nú, hvað farið hefur á milli ríkjanna síðari hluta maímánaðar 1941 og í júní sama ár. En þetta hefur ekki verið birt opinberlega. Menn hafa rætt um það og ályktað og sumir án þess að hafa átt þess kost að sjá þessi skjöl. — Sjá ekki hv. þm., hve háskalegt það muni vera í umr. um þetta mál, að öllum almenningi, sem á að taka afstöðu til deilumáls, sé ekki gefinn kostur á að fá í hendur þau skjöl, sem deilunni valda að verulegu leyti?

Um þessi skjöl, sem farið hafa á milli íslenzkra stjórnarvalda og danskra, er það að segja, að sumt af því hefur verið birt, sem í þeim stendur, en annað í þeim hefur ekki verið birt. Það var birt hér á Íslandi t. d. í einu blaði og í útvarpinu bréf frá þáv. forsrh. Dana, Buhl, sem var svar til íslenzku ríkisstj. í þessu máli á sínum tíma. Þar hefur verið birt aðeins eitt bréf af fleirum en einu, sem farið hafa í milli þessara aðila í þessu að mínum dómi viðkvæma og vandasama máli. Ég tel það því skyldu og sjálfsagt, að öll slík skjöl séu birt, ekki aðeins öllum hv. þm., heldur og þjóðinni sjálfri.

Það hefur verið talað um það hátt og í hljóði, að fulltrúar Íslands erlendis hafi fengið það hlutverk með höndum árið 1942 að ræða við dönsk stjórnarvöld um þær fyrirætlanir, sem Ísland hafði þá á prjónunum það ár, og að þessar viðræður hafi farið fram. Þetta er alþjóð manna kunnugt, að viðræður hafa farið fram, að eitthvað meira eða minna hafi verið þar sagt. Og meira eða minna hefur verið frá því skýrt, en þó ekki birt þau gögn, sem drógu í burtu allan vafa um það, hvað hefur verið í því sambandi sagt af Íslands hálfu og hvað af hálfu danskra stjórnarvalda. Ég tel það líka öldungis sjálfsagt, að öll slík skjöl verði birt, þar sem um það er að ræða, að málið er almenningi kunnugt, en þó of lítið kunnugt meðal þjóðarinnar, til þess að hún viti, þegar hún fellir sinn dóm, hvort það, sem þá hefur skeð, hefur nokkra þýðingu, og þá um það, hvernig við eigum að ljúka viðskiptum okkar við danska ríkið.

Þá er í fjórða lagi að geta þess, að birtar hafa verið skýrslur og álitsgerðir fulltrúa Íslands í Danmörku og víðar erlendis um álit þeirra á því, hvernig álit stjórnarvöld þeirra ríkja, þar sem þeir störfuðu, hefðu á þessum sambandsslitum Íslands og Danmerkur. Ég tel líka nauðsynlegt, að alþjóð manna fái um þetta fullar upplýsingar. Hér er um að ræða merka trúnaðarmenn íslenzka ríkisins, sem gegna vandmeðförnum störfum erlendis og gefa skýrslur til ríkisstj. sinnar, að sjálfsögðu eftir beztu samvizku og allajafna af mikilli þekkingu og eftir nákvæma athugun. Okkur skiptir það verulegu máli að vita, hvað þessir trúnaðarmenn íslenzka ríkisins skýra frá hug og ætlun þeirra erlendu ríkja, sem skipta kann máli viðvíkjandi sambandsslitum Íslands og Danmerkur. Ég álít því sjálfsagt, að þetta verði einnig birt.

Þá hef ég rakið þau fjögur höfuðatriði, sem eru í þessum skjölum. Og mér dettur ekki í hug annað en fram fari nákvæm athugun á því af hálfu ríkisstj. og við skulum segja utanrmn., hvort það gæti verið nokkurt skjal, sem væri óþarft að birta eða væri þess eðlis, — of persónulegt t. d., án þess þó að það skipti mjög verulegu máli, — að rétt væri, að það væri ekki birt, ef birting þess skipti ekki máli til þess að upplýsa þjóðina og þm. um þetta mál, sem um er að ræða. Ef það þannig skipti litlu máli, en væri kannske eitthvað viðkvæms eðlis, þá gæti komið til athugunar ríkisstj. og allra flokka, sem fulltrúa ættu í utanrmn., hvort eitt eða tvö skjöl hefði ekki þýðingu að birta. Ég tek þetta fram til þess, að það verði ekki skoðað of bókstaflega, að ég tiltek, að öll þessi skjöl, sem hér koma til greina, þurfi að birta.

Ég álít sem sagt, að þegar við byrjum okkar sjálfstæðu utanríkismálastarfsemi, þegar við ætlum að fara að byggja upp nýtt lýðveldi, þar sem á að ríkja fullkomið lýðræði, þá sé það eitt af ekki veigaminnstu þáttunum í meðferð slíkra veigamikilla mála, að ekki sé höfð óþörf hula um þau mál, sem snerta viðskipti Íslands og annarra þjóða, ekki sízt ef þjóðin er kvödd sem dómari og á að skera úr um það, hvað hún vill láta gera í þessum málum. Þjóðin á þá beina heimtingu á því að fá öll gögn og skilríki, sem geta gefið upplýsingar um þau mál, sem hún er um spurð. Ég tel því fyrir allra hluta sakir, að það sé ekkert óeðlilegt eða vafasamt spor stigið, heldur spor, sem ég tel, að eigi að vera táknrænt fyrir það unga, frjálsa, íslenzka ríki í meðferð utanríkismála, að þjóðin sé ekki leynd málefnum, sem hún þarf að vita um, þegar hún er kvödd til úrskurðar um sömu málefni.

Ég vænti þess því, að þessi þáltill. okkar muni eiga góðum undirtektum að fagna hér á hæstv. Alþ., og ég geri hiklaust ráð fyrir því, að svo verði, ekki sízt eftir þær umr., sem ég hef heyrt í utanrmn. frá öllum flokkum um birtingu þessara skjala.