01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í D-deild Alþingistíðinda. (6113)

10. mál, birting skjala varðandi samband Íslands og Danmerkur

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Stjórninni kom ekki á óvart, að till., sem hér liggur fyrir, mundi koma til umræðu á hæstv. Alþ., því að það heyrðust s. l. sumar háværar raddir um það, að nauðsynlegt væri að birta þau skjöl varðandi þetta mál, sem væru í vörzlu stj. Í sumum blöðum var jafnvel veitzt að stj. fyrir það, að hún hæfist ekki handa um að birta skjölin. Ég get að vísu vitnað til þess, sem hv. frsm. og hv. þm. Str. hafa sagt um meðferð þessa máls. En ég skal taka það fram, að stjskrn., sem starfaði hér s. l. ár, breytti eftirritinu af þessum skjölum til sinna nota og stj. lét hana fá eftirritið, svo að forráðamenn allra flokkanna hafa fengið þessi skjöl. Enn fremur lágu skjöl fyrir hjá utanrmn., svo að þeir eru margir, sem hafa haft skjölin í höndum eða átt þess kost að sjá þau.

Nú gekk stj. út frá því, að n., sem hér hefur verið skipuð í Sþ., mundi beiðast þess eða fara þess á leit, að stj. léti n. í té máske frumrit sitt og til afnota fyrir sig. En nú kemur það til greina, að n. sú, sem kemur saman til að athuga það mál, verður þess vísari, að mörg af þessum skjölum hafa misst gildi sitt. Skjöl, sem höfðu töluvert gildi 1942, þegar það var áformað að stofna lýðveldi á Íslandi, hafa ekkert gildi 1944. Í skilnaðarnefnd í sameinuðu Alþ. eiga allir flokkar fulltrúa, og þá gefst þeim færi á að moða úr því, sem hefur nokkurt gildi. Sum skjöl væri skylt að birta, skjöl, sem danska stj. hefur birt í blöðum í Danmörku, en ekki hafa verið birt hér. Það eru tvö bréf frá forsrh. Dana. Svo geta verið önnur skjöl, sem kemur líka til mála að birta, af því að þau hafa þýðingu fyrir málið. En önnur skjöl, sem ekki hafa þýðingu fyrir málið, er engin ástæða til að birta.

Það var þetta, sem ég vildi taka fram.