01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í D-deild Alþingistíðinda. (6115)

10. mál, birting skjala varðandi samband Íslands og Danmerkur

Einar Olgeirsson:

Ég álít, að þjóðin hafi rétt til þess að fá þessi skjöl birt og að væri því aðeins rétt að halda þessum skjölum frá henni, að Alþ. áliti það hættulegt fyrir hana, að þau kæmu í ljós.

Hv. þm. Str. (HermJ) var að „sortéra“, hvað af skjölunum mundi mega birta, svo að hann teldi það sæmilegt og óhætt, og hvað ekki. Eitt hið mikilvægasta í þessu máli er, að þjóðin geti séð svart á hvítu afstöðu þess manns, sem verið hefur konungur hennar. Hv. þm. Str. nefndi einmitt þau skjöl sem ein hin viðkvæmustu, og jafnvel er ég ekki óhræddur um, að það hafi verið gögnin, sem hv. þm. G.-K. minntist á í lok ræðu sinnar. Ég held, að þegar búið er að birta part úr þeim orðsendingum, sem þá fóru milli sambandslandanna, megi ekki láta neitt af þeim vera hulið, ef sannleikurinn á að sjást í réttu ljósi, en sá er tilgangur birtingarinnar. Vel veit ég, að það þýðir, að Kristján X. dragist meir en áður inn í deilurnar á Íslandi, og ég býst við, að breytingin í Danmörku 10. ág. s. l. valdi nokkru um, að menn kysu hjá því að komast. Samt sem áður tel ég ófært, ef birt eru hin svörin frá Danmörku, að stinga þessum undir stól. Þó að hættulegt geti verið að birta skjöl um milliríkjamál, gegnir hér öðru máli, því að orðsendingar milli konungs og þegna hans eða þjóðar verða að teljast innanríkismál.

Ég tel sjálfsagt, að till. fari til skilnaðarn. En þar sem ég þykist vita, að þar muni mikið verða deilt um sum atriðin, skal ég ekki orðlengja, því að fylgi mitt við till. er eindregin og afstaðan, sem ég lýsi, ætti að vera orðin þm. ljós.