16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í D-deild Alþingistíðinda. (6135)

162. mál, skattsvik

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Ég leyfi mér að flytja hér till. á þskj. 419 um að koma í veg fyrir skattsvik. Varla er nokkur fundur eða þing svo haldið, að þar sé ekki klifað á því, hve skattsvikin séu almenn og stórkostleg og að árlega skaðist ríkissjóður um hundruð þús. kr. af þeim sökum. Ef þetta væri rétt, þá er í rauninni níðzt á hinum fáu samvizkusömu borgurum, sem rétt telja fram, og raunar kann að vera, að skattarnir séu óþarflega háir, ef allt er fram talið.

Nú er öllum kunnugt, að afla þarf ríkissjóði tekna, og væri þá ekki úr vegi að athuga þetta. Kynni þá svo að fara, að viðbótarskattarnir þyrftu ekki að vera eins háir.

Ég hygg, að óþarft sé að halda um þetta langa ræðu. Flestir munu sammála um nauðsyn þess að koma í veg fyrir skattsvik og því augljós nauðsyn endurbóta á þessum málum.

Ég sé, að ákveðin hefur verið ein umr. um till. Ég get og sætt mig við, að henni verði vísað til n., þótt mér þætti eðlilegra og réttara, að hún væri afgreidd nú þegar, svo sjálfsögð sem hún er, en ég legg þetta þó á vald forseta. Verði till. vísað til n., legg ég til, að hún fari til allshn.