17.10.1944
Sameinað þing: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í D-deild Alþingistíðinda. (6139)

167. mál, verðlagsvísitalan

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Það er kunnugt, að landbúnaðarvörurnar, s. s. mjólk, smjör, kjöt og egg, hafa meiri áhrif á vísitöluna en aðrar vörur og meiri að margra hyggju en sanngjarnt getur talizt. Það vakti athygli, að 45% lækkun á flutningsgjaldi hjá Eimskipafélaginu munaði svo sem engu til lækkunar á vísitölu. Að vísu vó þar móti nokkur hækkun á innkaupsverði vara erlendis, en þetta sýndi þó berlega, að innfluttu vörurnar eru ekki þýðingarmesti liðurinn við vísitöluútreikninginn. Ég tel rétt, að það sé athugað, hvort sá grundvöllur er réttlátur, sem vísitöluútreikningurinn byggist á.

Það er ekki eðlilegt, að vörur, sem ekki eru fáanlegar, s. s. egg, skuli hafa áhrif á vísitölu. Sama má a. n. l. segja um smjörið, sem miklu minna magn fæst af en gert er ráð fyrir í vísitöluútreikningum. Er nokkurt vit í því að láta vörur, sem eru ófáanlegar, hækka vísitöluna? Þá er annað, sem ég tel nauðsyn að athuga. Kvartað var mikið undan því, að ekki fékkst nýtt dilkakjöt í Reykjavík í sumar. Það var eðlilega vegna þess, að hefði það komið á markaðinn þá og verið selt sanngjörnu verði, hefði það hækkað vísitöluna um 10–20 stig. Betra væri, að Reykvíkingar fengju kjötið, en hætt yrði að taka sumarverðið með í útreikningi vísitölunnar. Þegar fáeinir kartöflupokar hækkuðu vísitöluna um 15 stig, sáu menn, hvílík fávizka það var að láta aðra eins smámuni valda stórkostlegri röskun á atvinnulífi landsins. Hvers vegna á þá ekki að lagfæra vísitöluútreikninginn þannig, að óeðlilegir hlutir sem þessir hafi ekki lengur áhrif á hann?

Þörfin á þessari athugun er svo augljós, að till. mín verður e. t. v. samþ. án langra umr. eða nefndar, og þætti mér það eðlilegast. Um hana var ákveðin ein umr. En vel gæti ég sætt mig við, ef óskað er, að umr. yrði frestað og till. vísað til allshn.