17.10.1944
Sameinað þing: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í D-deild Alþingistíðinda. (6140)

167. mál, verðlagsvísitalan

Brynjólfur Bjarnason:

Þessi till. verður sjálfsagt athuguð í n., og engin ástæða er til, að hún verði samþ. án breytinga. Það er að vísu rétt, að af mörgum aðilum hefur verið véfengt, að vísitalan væri rétt út reiknuð. En eigi að fara fram athugun á grundvelli vísitölunnar, verður vitanlega að gera hana víðtækari en hér er ráðgert og ekki í þeim einum tilgangi að taka út úr reikningnum þær vörutegundir, sem hér eru nefndar, til þess að lækka á þann hátt vísitöluna. Niðurstaða rannsóknar, sem fram fór í fyrra, varð sú, að vísitalan væri nokkuð rétt út reiknuð, miðað við neyzlu almennings, en það, sem það væri, ætti hún fremur að vera hærri en lægri en hún var.

Ég er því sammála, að öðru hverju þurfi að rannsaka vísitöluna með því að athuga búreikninga, helzt á nokkurra mánaða fresti. Það er tilgangur vísitölu að finna jafnóðum, þegar dýrtíð vex eða minnkar. Hins vegar skilst mér, að tilgangur þessarar till. sé dálítið annar. Hv. flm. hefur ekki fært nein rök fyrir því, að neyzla á landbúnaðarvörum hafi minnkað. Hann vill taka kjötverð á sumrin út úr vísitölureikningi, en það væri auðvitað ekkert annað en fölsun á vísitölunni.