17.10.1944
Sameinað þing: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í D-deild Alþingistíðinda. (6143)

167. mál, verðlagsvísitalan

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Mér skilst, að hér sé um misskilning að ræða. Það er svo, að meðan vísitalan byggist á árlegu neyzlumagni, en ekki mánaðarlegu, hlýtur að koma fram skekkja. Það er augljóst mál, að neyzlan er ekki söm á hverri vörutegund hvern mánuð, og kemur þetta greinilegast í ljós með kjöt á haustin, þegar slátrun er hafin, því að þá seljast yfir 1000 tonn á innlendum markaði á mánuði, en í júní, júlí og ágúst hefur þetta farið niður í 40–60 tonn. Nú er jafnt kjötmagn látið ganga inn í vísitöluna á hverjum mánuði. Það er ekki rétt. Það ætti að vera vinnandi vegur að sjá, hvað er meðalmagn á hverjum mánuði. Og eins er með fleira en kjötið, t. d. grænmeti. Þegar um er að ræða vörutegundir, sem eru sérstaklega dýrar ákveðna mánuði, þá kemur út sú skekkja, sem hv. 2. þm. Rang. minntist á. Annars mun þetta ekki nema miklu, og vafasamt hvort þörf er breytinga þess vegna.