17.10.1944
Sameinað þing: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í D-deild Alþingistíðinda. (6148)

167. mál, verðlagsvísitalan

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. talar um, að óréttlátt sé að refsa fólki með því að klípa af kaupi þess. En hv. þm. veit, hvernig útreikningi vísitölunnar er háttað. Hann er miðaður við þær vörur, sem fólkið neytir. Þær vörur, sem ekki eru fáanlegar, geta því ekki gengið inn í vísitöluna. Það væri fölsun á vísitölunni. Hv. þm. talar um, að menn ættu að gera sér grein fyrir, hvers vegna þær vörur, sem almenningur þarfnast, eru ekki fáanlegar. Hann á ef til vill erfitt með að gera sér grein fyrir, hvers vegna ekki er alltaf nóg af landbúnaðarvörum til í landinu. En á því er afar einföld skýring. Því fólki, sem vinnur að landbúnaði, er alltaf að fækka. Það er kunnugt, hve erfitt er að fá fólk til starfa í sveit. Það er oft, að hjónin eru ein að sjá um búið, og þótt bóndinn vilji fá sér fjósamann, er það ekki hægt. Af þessum sökum hefur framleiðslan á feitmeti minnkað. Ég hélt, að hv. 2. þm. Reykv. væri þetta kunnugt, og þegar hann er að tala um þátt minn og annarra í verðlagsmálunum, ætti hann að muna eftir þeim styttum, sem hann hefur reist sér í launamálum í landinu. Hann talar ekki um, hvað hann og hans flokkur hafa gert til að taka fólkið úr sveitunum og setja það á mölina í Reykjavík, þegar lítil atvinnuskilyrði voru fyrir hendi.

Það er náttúrlega ekki í fyrsta sinn, sem ég heyri á það minnzt, að betra sé að fá smjör frá Ameríku en framleiða það á Íslandi. Ef ég og hv. 2. þm. Reykv. gæfum okkur tóm til að tala um þessa hluti, þá munum við komast að raun um, að hér á Íslandi borgar sig ekki að framleiða neitt. Smjör, sem fæst frá Ameríku fyrir 6 til 7 krónur, kostar hér 21 krónu. Föt, sem kosta 200 krónur frá Ameríku, eru á 6 til 7 hundruð krónur hér í Reykjavík. Og við munum komast að raun um, ef okkur vantar húsgögn í heimilið, þá má kaupa fyrir 2 þús. kr. frá Ameríku, það sem kostar 10 til 20 þús. kr., ef það er keypt hér, o. s. frv. Við munum komast að raun um, að á Íslandi borgar sig ekki að framleiða neitt. Við munum báðir gera okkur ljóst, að þetta er mikið vandamál, því að eitthvað þurfa Íslendingar að vinna og eitthvað að gera.

Ég býst við, þó hv. 2. þm. Reykv. kæmi með uppástungu um, að Íslendingar stunduðu bara síldveiðar, því að það borgaði sig bezt og nógur markaður væri fyrir síldina í Ameríku, þá get ég bent á, að ekki er hægt að stunda síldveiðar nema 5 til 6 vikur á árinu, og þó mikið sé upp úr því að hafa, þá er ekki gott að ganga aðgerðalaus í 46 vikur og lifa á því, sem maður vinnur sér inn á 5 til 6 vikum.

Þá mundi hv. 2. þm. Reykv. vilja láta vinna að þorskveiðum og útgerð yfirleitt, beina fólkinu að sjónum og hætta að hugsa um sveitabúskap á þessu kalda Íslandi, ef við getum fengið eins og við viljum af þessum margumtöluðu landbúnaðarvörum frá Ameríku. En þar komum við aftur að vandamáli, ef eingöngu á að stunda útgerð, og það er, að eftir stríð og jafnvel áður en því lýkur, lækkar fiskurinn í verði, og ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu, að það borgaði sig ekki heldur að framleiða fisk, þá yrðum við sammála um, að á Íslandi væri helzt ekki hægt að lifa. Ég held samt, að við slíkar samræður yrðum við sammála um, að á Íslandi verðum við að lifa þrátt fyrir allt. Ísland er ekki verra en önnur lönd og er jafnvel auðugra og betra en mörg önnur. Við erum báðir svo sanngjarnir að viðurkenna þetta, ef við töluðum tveir saman. Við viðurkennum ekki einungis, að landbúnaðarvörurnar eru orðnar of dýrar í þessu landi, heldur öll framleiðsla. Fiskinn verður að selja á of háu verði til að þola samkeppni við aðrar þjóðir. Iðnaðarvörurnar eru of háar til að þola samkeppni og landbúnaðarvörurnar of háar til að þola samkeppni við útlent afurðaverð, og þetta stafar allt saman af kröfum þeim, sem hv. 2. þm. Reykv. og hans flokkur hafa gert um hækkað kaupgjald hér á landi.

Þó að gangi erfiðlega að fá hv. 2. þm. Reykv. til að viðurkenna þetta hér á Alþ., þá er ég sannfærður um, að hann viðurkennir þetta með sjálfum sér.

Ég sé, að hv. 2. þm. Reykv. er að nótera niður ýmislegt, sem ég segi, en vona, að hann mótmæli ekki gegn betri vitund, því að ég veit, að undir niðri er hann svo sanngjarn, að hann viðurkennir, að þær kröfur, sem hann hefur átt þátt í að gera í kaupgjaldsmálum undanfarin ár, eru þess valdandi, að öll framleiðsla á Íslandi er of dýr til að standast samanburð við útlenzka framleiðslu. Þess vegna er nauðsynlegt að byrja nú þegar að lækka kaupgjaldið og gera það, áður en atvinnuleysið knýr að dyrum.