07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

143. mál, fjárlög 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér fáu að bæta við það, sem hv. frsm. fjvn. (JJós) tók fram í sinni ýtarlegu ræðu. Hann gerði mjög ljósa grein fyrir till. fjvn. um tekjur og útgjöld. Ég skal geta þess, að eftir að störf hófust í n. eftir fundahléð, hef ég fylgzt vel með störfum hennar og oft komið á fundi, og eru margar till. hennar gerðar í samráði við mig. Yfirleitt hef ég verið sammála n. um þær till., sem hún hefur borið fram. Það, sem aflaga kynni að fara, á því að lenda jafnt á mínum herðum og nefndarinnar.

Það hefur komið fram nokkur gagnrýni bæði á tekju- og útgjaldaáætlun fjvn. Tveir menn úr n. hafa látið í ljós þá skoðun sína, að með óvarlegri tekjuáætlun væri fjárhag landsins teflt í tvísýnu.

Ég skal geta þess að sú hækkun, sem gerð var á tekjuáætluninni, var gerð í samráði við mig. Það er ótrúlega erfitt, eins og högum er nú háttað, að gera tekjuáætlun fyrir næsta ár. Ég hef það sjónarmið, að tekjuáætlun eigi að gera eins rétta og unnt er á þeim tíma, sem hún er gerð á. Sú venja hefur tíðkazt að hafa tekjuáætlunina nokkru lægri en von hefur staðið til um, að tekjur mundu verða, og útgjaldaáætlunin hefur og verið höfð lægri en fyrir fram hefur verið vitað, að gjöldin mundu verða. Þetta er ekki heppileg tilhögun og getur leitt til þess, að stj. sjáist minna fyrir en ella um útgjöld. Mér er ljóst, að það er erfitt að áætla útgjöldin svo nakvæmlega, að ekki fari ýmsir liðir fram úr áætlun og jafnvel komi útgjöld, sem ekki er unnt að sjá fyrir, um það leyti, sem gengið er frá fjárl. En ég álit, að heppilegri aðferð til þess að mæta þeim óvissu útgjöldum væri að hækka meira til óvissra útgjalda á fjárl. en að draga úr tekjuáætlun. Og ég skal fúslega játa það, að því fer fjarri, að ég treysti mér til að fullyrða, að ekki verði margir útgjaldaliðir á fjárl., eins og gengið hefur verið frá þeim af fjvn., sem fara ekki meira og minna fram úr áætlun. Tekjuáætlunin hlýtur að miðast við það, hvert útlitið er í atvinnulífi þjóðarinnar. Tekjur velta mjög á því, hve fjörugt atvinnulífið er og hversu mikil hagsæld landsmanna er þar af leiðandi á hverjum tíma. Það má segja, að erfiðara sé að gera sér grein fyrir nú en oft áður — og þá sérstaklega hin síðustu ár, þó að það hafi líka verið ákaflega erfitt fyrsta stríðsárið, — hvernig yfirleitt afkomu landsmanna og atvinnulífi muni vegna. En bæði árið 1942 og 1943 var í það minnsta ekki útlit fyrir annað en atvinna héldist í því horfi, eins og á þeim tíma, er fjárl. voru samin. Þetta er allt óvissara nú. Því verður að játa, að það má á það minnast, að enn sem komið er hefur ekki verið gengið frá um afurðasölu landsmanna á næsta ári. Og það er þess vegna ekki hægt að fullyrða enn um það, hvaða verð verður á vörum, sem út verða fluttar á næsta ári. Hins vegar er það vitað, að vöruskortur er nú yfirleitt í heiminum, og ég get því ekki séð, að ástæða sé til að búast við, að stórkostlegt verðfall skelli yfir á næsta ári. Meiri vafi væri kannske á því, að ekki næðust samningar um afurðasölu og útflutning á afurðum landsmanna og hvernig gengi með það að fa vöruna flutta út úr landinu.

Það er vitanlegt, að mikill skortur er á, að við höfum nægileg skip í landinu til þess að koma fiskafurðum út, jafnóðum og fiskurinn er veiddur, svo sem gert hefur verið undanfarið, vegna þess að Bretar, sem keyptu fiskinn af okkur, hafa haft mörg skip í förum. Hefur það a.m.k. jafnaðarlega nægt til þess að flytja út fiskinn, jafnóðum og hann hefur veiðzt, að undanteknu því, sem farið hefur til hraðfrystihúsanna. En þó að segja megi, að nokkur vafi leiki á um allt þetta, bæði verðlag og möguleikana til þess að koma afurðum frá sér, sýnist mér nú ekki mikil ástæða til svartsýni í þessum efnum, þ.e.a.s., ef ekkert óvænt kemur fyrir og ef ekki skella yfir einhver vandræði, sem alls ekki hefur verið búizt við eða reiknað með. — Ég þarf náttúrlega ekki að geta þess, að ef svo færi, að Faxaflóa yrði lokað hér alla næstu vetrarvertíð, þá skapast alveg nýtt viðhorf, sem mundi útheimta alveg nýjar aðferðir, sem óhugsanlegt er á þessu stigi að reikna með eða taka með í reikninginn, þegar gengið er frá fjárlfrv.

Nú er mér það algerlega ljóst, að um allt þetta má deila, og það má sjálfsagt, - þótt ég sé þeirrar skoðunar, að ekki sé beint ástæða til svartsýni, hvað atvinnulíf snertir á næsta ári, — færa ýmis rök fyrir hinu gagnstæða.

En ef sú skoðun mín fær staðizt, að við getum verið nokkurn veginn vongóðir um það, að atvinnulífið á næsta ári haldist í líku horfi og verið hefur á undanförnum árum, þá get ég fyrir mitt leyti ekki fallizt á, að tekjuhækkun fjárl., eins og hv. fjvn. hefur gengið frá henni, sé óvarleg. — Ég skal, þó að hv. frsm. fjvn. hafi gert það að nokkru leyti, aðeins minnast á aðalhækkunina, sem gerð hefur verið á fjárlfrv.

Tekju- og eignarskatturinn hefur verið hækkaður um 1500 þús. kr. og stríðsgróðaskatturinn um 500 þús. kr. En þetta er miðað við álagðan tekjuskatt fyrir árið 1944, sem var, að mig minnir, tæpar 25 millj. kr. Og álitið er almennt, að afkoma atvinnuveganna á þessu ári sé a.m.k. ekki verri en á árinu 1943. Nú ætti því að mega gera ráð fyrir, að samanlagður tekju- og eignarskattur og stríðsgróðaskattur næsta árs yrði a.m.k. eins mikill og sá, sem var á lagður á þessum árum. Nú er allt í meiri óvissu, hvernig þetta gengur á næsta ári. Ef samdráttur kemur í atvinnulífið, má búast við því, að skatturinn innheimtist ekki eins vel og gera má ráð fyrir, að hann geri á þessu ári. Þess vegna hefur ekki þótt fært að fara með hann nærri eða, upp í sömu fjárhæð og á var lögð á þessu ári og væntanlega innheimtist.

Vörumagnstollur hefur verið hækkaður um 1 millj. kr. Hann er áætlaður í frv. 8 millj. kr., en í núverandi fjárl. fyrir 1944 er hann áætlaður 8 millj. kr., en var í okt. s.l. kominn upp í 8,9 millj. kr. Það er því greinilegt, að hann mun á þessu ári fara upp i nálægt 11 millj. kr., og sýnist þá ekki óvarlegt að áætla hann á næsta ári 9 millj. kr. — Ég sé ekki ástæðu til þess að gera ráð fyrir, að þungatollur verði minni á næsta ári en á þessu, nema eitthvað ófyrirsjáanlegt komi fyrir.

Verðtollur hefur verið hækkaður úr 25 millj. kr. upp í 28 millj., þ.e., að hann hefur verið hækkaður um 3 millj. kr. Hann er á þessa árs fjárl. 30 millj. kr., en í okt. er hann kominn upp í 29 millj. kr. og fer því væntanlega upp í nálægt 33 millj. kr. Þar eru þá 5 millj. kr. upp á að hlaupa, frá því sem var á þessu ári. Ég sé fyrir mitt leyti ekki heldur, að nein ástæða sé til að ætla, að verðtollurinn á næsta ári verði í það minnsta til muna minni en á þessu ári, þótt aldrei sé hægt um það að segja fyrir fram, nema frekari skorður verði reistar við útflutningi frá öðrum löndum en nú er á þessu ári. Þó er þess að gæta, að það hefur verið rýmkað nokkuð til um útflutningsleyfi frá Englandi, einmitt á þeim vörum, sem gefa okkur mikinn verðtoll. Mætti því búast við, að þessi útflutningur frá Englandi mundi fremur auka verðtollinn en rýra hann.

Innflutningsgjald af benzíni hirði ég ekki að ræða, því að það er nokkuð, sem skiptir ekki miklu máli.

Um hækkun á ríkisstofnunum er svo það að segja, að þótt þar sé um verulega hækkun að ræða, þá má þó sala á þessum lúxusvörum lækka um 25% frá því, sem verið hefur á þessu ári, til þess að tekjuáætlun fái ekki staðizt. Hagnaður af áfengissölu og tóbakseinkasölu í okt. var kominn upp í nálægt 29 millj. kr., og það má því gera ráð fyrir, að hann fari upp í nálega 34 millj. kr. á árinu. Og það má því minnka töluvert neyzla á þessum vörum, til þess að tekjuhækkunin standist ekki, þrátt fyrir þá hækkun, sem gerð hefur verið á fjárl.

Þó að ég hafi verið því meðmæltur, að hækkað yrði framlag til stórstúku Íslands, — mér fannst það sanngjarnt með tilliti til þess, hve ríkið hefur mikinn hagnað af áfengissölu, — þá hef ég ekki trú á því, að svo sterk bindindisalda gangi yfir á næsta ári, að menn af þeim ástæðum minnki neyzlu á þessum vörum. Hitt gæti átt sér stað, að fjárhagsástæður manna yllu því, að minna yrði notað af óþarfavörum en gert hefur verið á undanförnum árum, og veltur því á því sama, hvað bjartsýnn maður má vera um atvinnuhorfur á næsta ári.

Út af því, sem hv. frsm. fjvn. sagði, að útlit væri fyrir, að tekjuafgangur yrði á þessu ári, vil ég láta þess getið, að ég hef latið fara yfir, hva,ð ógreitt er af gjöldum þessa árs. Og eftir því sem skrifstofustjóri í fjmrn. telur, má ekki reikna með neinum verulegum tekjuafgangi á þessu ári. Það er svo mikið eftir að borga enn þá, að enda þótt tekjur hafi farið allmikið fram úr áætlun og þó að nú sem stendur sé nokkur afgangur, þá er ekki hægt að syndga upp á náðina í þeim efnum. Náttúrlega skal þess getið, að þetta er miklu frekar ágizkun en áætlun. Það er ekki hægt á stuttum tíma að gera þetta upp með nokkurri nákvæmni. Það getur alltaf hlaupið á nokkrum millj. kr. En ég skal ekki fullyrða, að það geti ekki orðið afgangur. En vonandi er hægt að fullyrða, að ekki verði tekjuhalli á þessu ári. En hitt er víst, að það má ekki reikna með þeim tekjuafgangi, að ekki verði að miða við það við samning fjárlfrv. nú, að tekjur og gjöld standist nokkurn veginn á samkvæmt þeim. Þegar þess alls er gætt, sem ég hef hér talið, get ég fyrir mitt leyti ekki fallizt á, að vítaverð óvarkárni hafi verið sýnd við samning tekjuáætlunarinnar í frumvarpinu.

Eins og ég hef tekið fram, er mér ljóst, að um þetta geta verið skiptar skoðanir — og það alveg réttilega — og um það, hvernig útlitið sé fyrir atvinnuvegina á næsta ári. Það er ekki nein ástæða til þeirrar svartsýni að ætla, að þessi tekjuöflun, eins og gengið er frá henni nú, fái ekki nokkurn veginn staðizt. Hitt er mér svo alveg ljóst, að með miklu meiri rétti má segja, að útgjaldaliðir fjárlfrv. séu óvarfærnislega áætlaðir.

Ég verð að segja það eins og það er, að þegar ég byrjaði að fást við þetta verkefni, þá gekk ég að því með þeim huga að reyna að draga úr útgjöldunum og skera niður, eftir því sem frekast væri unnt, og standa á móti útgjöldum, sem komizt yrði hjá. Mér var í öndverðu ljóst, eins og í pottinn er búið nú og eins og nú var gengið frá fjármálunum, þegar núv. ríkisstj. tók við þeim, að ekki mundi vera hægt að afgr. fjárl. nema annaðhvort með stórkostlegum tekjuhalla eða stórkostlegum skattaálögum. En þrátt fyrir þennan vilja minn, hefur nú árangurinn orðið eins og hv. frsm. fjvn. skýrði frá í ræðu sinni. Menn hafa nú heyrt grg. hans, og þeir geta því sjálfir dæmt um það, hversu auðvelt muni að standa á móti þeim útgjöldum, sem gert er ráð fyrir á fjárlögum.

Nú má enginn ætla, að enginn niðurskurður hafi átt sér stað í fjárlfrv. Það hafa komið fram háar og margar kröfur, sem skipt hafa millj. króna og skornar hafa verið niður stórkostlega. Og hefur hv. fjvn. staðið jafnt og ég að því að gera þann niðurskurð. Og ýmislegt var ég búinn að skera niður, áður en frv. kom til hv. fjvn. En sannleikurinn er sá, að það er ótrúlega erfitt, eftir að fjárl. eru einu sinni orðin svona há, að fara leiðina til baka.

Ibsen sagði: „Atter og frem, det er lige langt“, — og það er sjálfsagt ákaflega erfitt að hnekkja þessari hendingu stærðfræðilega. En hitt er víst, að leiðin til baka er erfið, og hún virðist vera lengri.

Ég ætla ekki að fara út í einstaka liði hér, enda hef ég engu við það að bæta, er hv. frsm. fjvn. sagði. En líti maður á þessa liði, svo sem fjárframlög til skóla og sjúkrahúsa, þá hygg ég, að hv. þm., hverjum um sig, reynist erfitt að benda á, hvar draga á úr.

Um sjúkrahúsin og skólana er það að segja, að margar af þeim byggingum eru komnar eitthvað áleiðis, og þeim verður að ljúka. Það er ekki hægt nema með stórkostlegu tjóni á verðmætum að hætta við slíkar byggingar.

Um vegaféð er það aftur á móti að segja, að þar hefði verið möguleiki til lækkunar, og eins og ég drap á við 1. umr. fjárl., er það ákaflega hæpin hagsýni að verja svo miklu fé til vegagerða sem gert er ráð fyrir s frv., nema með því, að hægt sé að útvega nægilega mikið af vélum, til þess að unnt sé að vinna nær einvörðungu með þeim að vegagerð. Gamla aðferðin með skóflu og haka er úrelt. Og reynslan er búin að kenna okkur það, að við höfum haft svo mikinn skaða af þeim vinnubrögðum, að maður hlýtur að bera kinnroða fyrir það, hve lengi það hefur haldizt hér á landi, þar sem verkefnin eru óteljandi, því að það vitum við, að leggja má nokkurra km langan veg, áður en það verkefni tæmist.

En það, sem gerði það samt sem áður að verkum, að ég treysti mér ekki til þess að standa á móti þessum milljónaháu útgjöldum, var það m.a., að enn sem komið er, er a.m.k. allt í óvissu um, hvernig vinnubrögðum verður háttað hér á landi næsta sumar. Og enginn veit, hve mikið vinnuafl framleiðslunnar skiptist hér á landi næsta sumar. Það þótti því hyggilegra að gera ráð fyrir þeim möguleika, að nokkuð mikið af vinnuafli gengi til opinberra framkvæmda, enda álít ég, að áður en gengið er endanlega frá fjárl., eigi ríkisstj. að fá heimildir til þess að draga úr þessum og kannske fleiri liðum, svo framarlega að not verði fyrir vinnuaflið til annarra nauðsynlegra hluta en þessa, — því að fyrst og fremst verður framleiðslan í landinu vitanlega að hafa nægilegt vinnuafl. Það hefur þó meira að segja, að henni sé haldið við, en að leggja það í opinbera vinnu, því að ekki verður hægt að leggja peninga í opinbera vinnu í landinu, ef framleiðslan dregst saman.

En þrátt fyrir það að erfitt hafi verið að standa á móti þessari hækkun á fjárl., þá mun þó verða athugað til 3. umr. með samvinnu milli hv. fjvn. og ríkisstj., hvort ekki mundi kleift að færa niður nokkra liði á fjárl., sem þó dálítið munar um, þó að það sé náttúrlega ekki nægilegt til þess að ná greiðslujöfnuði, eins og fjárl. eru nú. Og ríkisstj. hefur þegar gert nokkrar athuganir á þessu, og vitanlega kemur það í ljós, áður en langt líður, hvort hún treystir sér til þess að gera till. um niðurfærslur í þessum efnum.

Eins og nál. hv. fjvn. ber með sér, þá vantar nú rúmar fimm og hálfa millj. kr., til þess að greiðslujöfnuður fáist á frv. Það væri nú út af fyrir sig ekki svo voðalegt, ef ekki væri um annað að ræða en þetta. Það er vafasamt, hvort þá þyrfti nýjar skattaálögur, því að þá yrði að ganga harðar að niðurfærslu útgjaldaliðanna. En það er ekki því að heilsa.

Það eru, eins og hv. frsm. fjvn. tók fram, nokkrir útgjaldaliðir, sem eru ekki enn komnir í fjárlfrv. Má fyrst nefna hækkun, sem gert er ráð fyrir, að verði á rekstri ríkisstofnananna vegna hækkunar á launal. Hve mikil sú hækkun verður, er ekki hægt að segja enn þá, en það fer eftir því, hvernig launal. verða afgreidd. En eins og kunnugt er, eru þau ekki komin úr n. enn þá. En það má a.m.k. ekki gera ráð fyrir, að sú hækkun, sem breyt. á launal. hefur í för með sér, verði minni á næsta ári en þrjár til fjórar millj. kr. Hygg ég, að það sé það minnsta, sem reikna megi með. Ég geri ráð fyrir, að hin árlega hækkun, sem þau hafa í för með sér, verði enn þá meiri. Hins vegar er það fyrirsjáanlegt, að launal. geta ekki gengið í gildi í ársbyrjun, hvort sem þau gera það eftir ársfjórðung eða hálft ár, en það dregur nokkuð úr útgjöldum, sem þó koma til með að hækka á næsta ári. Þá hafa ekki enn verið teknar í fjárlfrv. þær greiðslur, sem þó verður að greiða vegna uppbóta og niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum. Það er vitanlega ekki með fullri vissu hægt að segja, hve miklar þær niðurgreiðslur verða, en eftir því sem komizt verður næst, geta þær farið upp í allt að 25 millj. kr., en það fer nokkuð eftir því, hvernig gengur með þær vörur, sem enn eru í landinu. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir, að öll þessi fjárhæð komi til greiðslu á næsta ári.

Það hefur nú nokkuð verið um þetta rætt, og ég hygg, að menn hafi verið nokkuð sammála um það, að rétt væri a.m.k. að athuga möguleika á sölu á ýmsum landbúnaðarafurðum, sérstaklega ull og gærum, og líka að athuga það í fleiri löndum en nú gæti komið til greina. Það er vafalaust, að ullarskortur er víða um heim. Og það er ekki óhugsandi, að hægt væri að fá hærra verð annars staðar en í Ameríku eða Bretlandi, sem eru einu löndin, er nú koma til greina. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða nokkuð um það. En þetta verður reynt eins fljótt og kostur er á, og að þeirri rannsókn lokinni verður svo ákvörðun tekin um það, hvort þessar afurðir verða fluttar út eða ekki á næsta ári. Ríkisstj. hefur nú talið, — þótt vel megi verða, að hún hafi ekki sýnt nógu mikla varfærni, — að það muni mega komast af með 18 millj. kr. til niðurgreiðslu á þessum afurðum.

Gera má ráð fyrir, að eftir séu einhverjar hækkanir enn þá á frv., því að aldrei er það svo, að ekkert verði samþ. af brtt. einstakra þm., og enn fremur kann að vera, að fjvn. sjái sig knúða til milli umr. að bera fram till. um frekari hækkanir. Gera mætti sér von um, að þær hækkanir, sem á frv. verða, nemi ekki meira en lækkanir, sem hugsanlegt væri, að gerðar yrðu á frv. við 3. umr. En samt sem áður verður niðurstaðan sú, hvernig sem á þetta er litið og hversu vel sem þetta kynni að ráðast, að 25–30 millj. vantar til að jöfnuður náist. Þessu fé verður að ná. Stj. hefur látið gera allmiklar athuganir á því, hvaða möguleikar væru á að ná inn fé með nýjum sköttum, og það er hægt að segja, að það verða gerðar ráðstafanir, og áður en langt líður verða lögð fram frv. til nýrra skattaálagninga. En á þessu stigi get ég ekki upplýst, hve mikið fé það verður, sem gera má ráð fyrir, að aflist með þeim álögum, sem stj. hefur hugsað sér að framkvæma, áður en þessu þingi lýkur. Ég vil þó enn þá gera ráð fyrir þeim möguleika, að ekki verði hægt að ná greiðslujöfnuði nema með lántökuheimild. Þetta er ekki skemmtilegt, það verður að játa, en það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, og þess er að gæta, að sú háa upphæð, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. uppbæturnar eða niðurgreiðslurnar, er þó ekki venjuleg rekstrarútgjöld ríkisins, og það gegnir því nokkuð öðru máli, þó að þeim kostnaði væri dreift á tvö eða þrjú ár, en ef um venjuleg rekstrarútgjöld væri að ræða. En leiðinlegt er samt sem áður að fara þessa leið til að ná greiðslujöfnuði. En ég álít samt, að sú leið sé betri en fara í svo róttækar skattaálögur, að hætt væri við, að það hefði veruleg áhrif á atvinnulíf landsins. En eins og ég hef áður sagt, mun það koma í ljós bráðlega, hversu miklu fé stj. treystir sér til að ná með nýjum álögum, og verður Alþ. þá um leið að taka sína ákvörðun, hvernig þess yrði aflað, sem afgangs kynni að verða, þegar stj. er búin að bera fram till. sínar um álagningu skatta.

Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. frsm., sem ég vil, áður en ég lýk máli mínu, drepa stuttlega á. Það er viðvíkjandi því, sem hann sagði um viðskiptaráð. Hv. frsm. sagði, að þessi stofnun væri yfirleitt þröskuldur í vegi fyrir heilbrigðum viðskiptum í landinu og hefði alveg að óþörfu truflað innflutning landsmanna. Ég er ekki viss um, að þetta sé rétt skoðun hjá hv. frsm. Ég skal að vísu játa, að ég hef ekki haft neitt tækifæri til að kynna mér þau atvik, sem hann benti á, en hitt er mér ljóst, að eins og sakir standa, getum við ekki komizt hjá að leggja nokkuð miklar hömlur á innflutninginn, fyrst og fremst vegna skipakostsins, og hefur þá ráðið orðið að hindra innflutning á vörum, sem þóttu miður nauðsynlegar, til að fá þær fluttar inn, sem nauðsynlegastar þóttu. Svo er það, að meðan verzlunin verður ekki gefin frjáls, því að það er hún ekki nú, er ekki hægt að komast hjá að setja fastar reglur, sem fara verður eftir, og þá er ekki hægt að gera það, án þess að það komi við menn, úr því að ekki er heimilt að flytja inn vörur án þess að hafa leyfi til þess. Verður þá ráðið að ganga eftir, ef ekki á að skapast glundroði, að leyfi liggi fyrir, áður en varan er flutt inn. Hins vegar er mér ljóst, að margt mælir með, að hægt væri að slaka eitthvað til á þeim ströngu höftum, sem á verzlunina hafa verið lögð, því að það bakar ekki aðeins innflytjendum, kaupmönnum og kaupfélögum, margs konar erfiðleika að þurfa að hafa þessi ströngu höft, heldur er einnig hitt, sem verra er, að einmitt hin þröngu viðskipti leiða óhjákvæmilega til þess, að margar vörur eru seldar langtum hærra verði en þyrfti að vera, ef verzlunin væri frjáls. Það er meira að segja ákaflega mikil hætta á, að þetta verzlunarfyrirkomulag leiði til hreinnar siðspillingar í verzlun. Þegar innflytjendur eru búnir að missa allan áhuga á að gera sem bezt innkaup og jafnvel er arðvænlegra að kaupa allt sem hæstu verði, þá eru margir ekki sterkari á svellinu en svo, að þeir láta undan freistingunni, þó að fjöldamargar undantekningar séu, og sem betur fer er það sjaldgæft, að menn reyni ekki að ná sem beztum innkaupum. En það segir sig sjálft, að þetta er ekki heppileg tilhögun. Ég held, að segja megi, að stj. hafi opin augun fyrir þessu og fullan vilja á að koma betra skipulagi á verzlunina að þessu leyti en verið hefur. Hins vegar verða hv. þm. að gæta þess, að hér eru mörg ljón á veginum, ekki aðeins þeir erfiðleikar, sem ég gat áður um, heldur öllu fremur þeir utan að komandi, sem sé þær hömlur, sem viðskiptaþjóðirnar leggja á útflutninginn frá sér, og þær eru kannske það erfiðasta fyrir okkur, þegar við erum að reyna að koma sem heppilegustu skipulagi á innflutningsverzlun okkar. Annars held ég, að fullyrða megi, að stj. gerir það, sem í hennar valdi stendur, til að bæta úr þeim ágöllum, sem öllum er augljóst, að átt hafi sér stað í innflutningsverzluninni.

Að endingu vil ég mega mælast til þess við hv. fjvn., að hún taki aftur eina smátill. Það er 29. brtt. á þskj. 579, kirkjubyggingastyrkir. Eins og hv. þm. er kunnugt, liggur fyrir frv. um þetta efni, þátttöku ríkisins í kirkjubyggingum. Ég geri ráð fyrir, að það mál verði rætt í Nd. a.m.k. og kannske í báðum d. og þá tekin ákvörðun um, hvort ríkið skuli fara inn á þær brautir að kosta kirkjubyggingar að meira eða minna leyti. Ég skal í þessu sambandi ekkert um það segja, hvort þetta væri heppileg leið eða ekki. Þetta er ný leið, því að ég ætla, að það hafi fyrst verið í fyrra, sem ríkið hafi lagt fé til kirkjubygginga, annarra en dómkirkjunnar, og ég skal ekki ábyrgjast um nokkrar aðrar öndvegiskirkjur. (PO: Það hefur verið gert tvö undanfarin ár.) Já, það er rétt, það hefur verið gert á tveimur undanförnum þingum. En hvað sem þessu líður, þá er það að mínu viti fjarri lagi að ákveða þetta með fjárlagaákvæði. Og þó að það hafi verið gert á tveimur síðustu þingum, þá legg ég ekki mikið upp úr því, því að fjárlagaafgreiðslan á þeim þingum hefur verið nokkuð losaraleg og hending ráðið nokkuð miklu um, hvað þar varð ofan á. Það má ekki halda þessu áfram, heldur verður að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll með löggjöf, hvort ríkið á að taka að sér kirkjubyggingar. En það er augljóst, að ætli ríkið að fara að leggja meira og minna fé í kirkjubyggingar, þá hlýtur að því að reka, að ríkið taki að sér allar kirkjur, því að það er ekkert réttlæti, að ríkið taki að sér að reisa sumar kirkjur, en ekki aðrar. Mér er fullkomlega ljóst, að fjöldamargar kirkjur eiga mjög mikinn rétt og talsvert meiri til að fá nokkurn styrk en sumar af þeim kirkjum, sem hér er um að ræða.