18.10.1944
Sameinað þing: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í D-deild Alþingistíðinda. (6150)

167. mál, verðlagsvísitalan

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Það er út af till. um grundvöll verðlagsvísitölunnar, á þskj. 428, sem ég kvaddi mér hljóðs.

Það hefur mikið verið um það mál deilt hér, og hafa umræður um það verið á þá lund, að verðlagsvísitalan væri óhagstæð launþegunum.

Hér kemur fram annað viðhorf. Hv. flm. telur, að hlutföll þau, sem hún er byggð á, séu ekki rétt, verðlag innlendra afurða of hátt. Ég held, að þetta sé ekki aðalatriðið. Ég held, að þungamiðjan sé það, á hvern hátt þessir menn geti rýrt lífsafkomu verkalýðsins og launþeganna yfirleitt.

Það er nokkuð hart álit að líta á verkamennina sem verzlunarvöru. Það á að verzla um, hvað við eigum að fá fyrir vinnu okkar. Bændur kvarta um, að vinnuaflið sé of dýrt. En mörg vinna er þannig, að gróði atvinnurekandans fer ekki eftir því, hvort hann borgar mikið eða lítið kaup. Ég vil í því sambandi benda á félag eitt, sem grætt hefur óhemju mikið, þótt það hafi borgað margfalt kaup, þegar svo hefur borið undir, að það hefur verið nauðsynlegt, t. d. við affermingu skipa að næturlagi.

Það er ríkisvaldið, sem hefur orsakað hækkun vísitölunnar. Það er talað um of hátt kjötverð. Ríkið borgar uppbætur á kjötið, hvort sem það svo er seljanlegt eða ekki. Það sjá allir, hvaða afleiðingar það hefur að borga uppbætur á óseljanlega vöru, en bændum er tryggt með ríkisstyrk sama verð fyrir kjötið, hvort sem tekst að selja það eða ekki. Þeir, sem stjórna kjötsölunni, vilja hafa rétt til að hækka verðið, þegar eftirspurn er eftir kjöti, og gera neytendum með því erfiðara fyrir. En eins og áður er sagt, borgar ríkið fullar verðbætur á kjötið, þegar eftirspurnin er engin.

Þá vil ég minnast á ameríska smjörið. Það kostar ekki nema þriðja part þess verðs, sem það er selt á hér. Það er mikið talað um, hvað framleiðslan sé dýr hér og þess vegna verði að selja smjör og aðrar framleiðsluvörur svo dýrt sem raun ber vitni. Ég veit ekki, við hvaða kjör það fólk á að búa, sem að framleiðslu smjörsins vinnur vestur í Ameríku, en um þau hefur verið mikið rætt af þeim, sem telja sig þekkja þau. En hitt vita allir, að lífsafkoma manna er mikið komin undir verðlagi þeirra vara, sem það þarf að kaupa.

Nú vil ég spyrja þá, sem þessu verðlagi ráða, hvort þeir álíti lífsafkomu fólksins hér of góða, og hvort þeir þess vegna telji óhætt að setja verðið svona hátt. Ég er vel kunnugur aðbúnaði fólks hér og veit vel, að hann er ekki öfundsverður, að minnsta kosti er aðbúnaður þeirra, sem neyðast til að búa í bröggum, ekki upp á marga fiska, og hygg ég, að enginn geti öfundað þá af híbýlum sínum.

Það er viðurkennt, að útlendar vörur eru langtum ódýrari en innlendar, og stafar það af því, að tæknin er meiri erlendis. Hér hefur verið rætt mikið um, að erlend húsgögn, fatnaður og fleira væri ódýrara en innlent. En þess ber vandlega að gæta, að kaupandinn er sjálfráður, hvort hann kaupir heldur fatnað eða húsgögn frá útlöndum eða þau, sem hér á landi eru framleidd. Öðru máli gegnir um smjörið. Um það er ekki hægt að velja, því að sama verð er á ameríska og íslenzka smjörinu.

Eins og ég sagði áðan, er þessi tillaga ekkert annað en enn ein tilraun til þess að traðka á verkalýðnum, rýra lífsafkomu hans.

Það hefur verið reiknað út, hvað lífsafkoma fólks í Reykjavík væri dýr. En hún er miklu dýrari en áætlað var samkvæmt útreikningi verðlagsvísitölunnar.

Fyrir 15–20 árum neytti fólkið innlendrar fæðu meira en nú er. Mjólkurneyzla var meiri, og ætti það ekki að vera verra fyrir landið, að mjólkurneyzlan yrði mun meiri en nú er.

Eitt verður að taka til greina í sambandi við mjólkurmálið, sem er mjög athyglisvert. Þegar íslenzka smjörið var óseljanlegt, voru samin lög um, að því skyldi blandað saman við smjörlíki að vissum hluta. Það var þannig ákveðið með lögum, að hvort sem fólkið gæti eða ekki, skyldi það samt verða að kaupa smjörið. Þegar svo er farið að, er engin furða, þótt lendi í hörðum átökum milli framleiðenda og neytenda.

Hv. 2. þm. Rang. talaði um, að kaupgjald í bæjum ylli flótta fólksins úr sveitunum, það fengi hærra kaup í bæjunum. Það er bara vitleysa, að kaup til sveita sé lægra en annars staðar. En fólkið vill ekki vinna í sveitunum, heldur fer það í kaupstaðina. Þar unir það betur hag sínum og getur lifað þægilegra lífi.

Ég veit ekki, hver munur er á nýmjólkurpottinum þar, sem hann er dýrastur og ódýrastur, en hann er talsverður. Ég er ekki frá því, að rétt væri að reyna, hvað væri hægt að framleiða ódýrasta vöru. Mjólkurframleiðslan er of lítil og verður að auka hana til muna, til þess að hún svari þörf neytendanna. Kjöt er framleitt á stöðum, þar sem ekki ætti að framleiða einn bita af kjöti. Þetta þarf leiðréttingar, og þarf að skipuleggja framleiðsluna þannig, að á hverjum stað sé framleitt það, sem bezt á við með tilliti til landshátta og markaðsmöguleika.

Á síðasta Alþ. kom fram frumvarp um að verðbæta hrossakjöt, og var það fellt. Það er eðlilegt, þegar athuguð er afstaða þeirra, sem þessa vöru framleiða. Í Húnavatnssýslum, Skagafjarðarsýslu og Rangárvallasýslu eru helztu hrossaræktarhéruð hér á landi, en framleiðendur þessara héraða standa ekki jafnt að vígi. Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum hrynur sauðféð niður úr pestinni, sem þar gengur, en í Rangárvallasýslu er engin fjárpest. Markaðurinn er yfirfylltur hrossakjöti úr Rangárvallasýslu. Hvaða réttlæti hefði nú verið í því að verðbæta hrossakjötið, þegar litið er á sauðfjáreign framleiðenda í þessum sýslum? Það er talað um, að kaupendur hafi við of góð skilyrði að búa, og að einn sérstakur flokkur beri einkum hag bænda fyrir brjósti. Ég veit ekki betur en að þetta sé alveg rangt, og að allir flokkar séu sammála um að berjast fyrir bændur.

Það er enginn vafi á því, að við höfum gert það, sem við höfum getað til þess að ná sem beztum kjörum, en við höfum ekki leitað til löggjafans um afskipti af slíkum málum. Löggjafarvaldið hefur í mesta lagi gripið til þess að sætta aðila. En svo á með till. þessari að eyðileggja gerða samninga. Ég veit ekki, hvernig því væri tekið, ef tveir aðilar hefðu gert með sér samning, en svo kæmi löggjafarvaldið og rifti samningunum, af því að einhver annar aðili skaðaðist á samningnum. Við verkamenn vorum búnir að berjast fyrir leiðréttingu á vísitölunni á annan hátt. En ég held, að þessi till. eigi engan rétt á sér, eins eg hún liggur fyrir.