18.10.1944
Sameinað þing: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í D-deild Alþingistíðinda. (6152)

167. mál, verðlagsvísitalan

Sveinbjörn Högnason:

Mér þykir það furðulegt, að kommúnistar þurfa alltaf að láta ljós sitt skína, þegar talað er um landbúnaðarmál hér á Alþ. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvernig á þessu stendur, og kom helzt í hug við ræðu hv. 2. þm. Reykv.: þeir segja mest af Ólafi konungi, sem hvorki hafa heyrt hann né séð. Hv. 2. þm. Reykv. stagaðist á þeim ágöllum á ísl. landbúnaði og framleiðslumistökum, sem þar eiga sér stað, en minntist ekki á nokkra ágalla á þeim sviðum, sem hann ætti bezt til að þekkja, og væri þó eðlilegra, að hann talaði um þá. Hann talaði um það sem voða, að vörur væru seldar á svörtum markaði. Ég held þó, að það sé í smærri stíl en hann gefur í skyn. Vill hann ekki líka fræða menn um það, hve mikil landbúnaðarvinna er seld á svörtum markaði. Ég hugsa, að sá vinnukraftur, sem landbúnaðurinn hefur notað á s. l. sumri, sé afar víða dýrari en það, sem verkalýðsfélögin hafa ákveðið. Kaupamenn hafa fengið 4 til 5 hundruð kr. um vikuna fyrir utan fæði og húsnæði, og ég vil spyrja hv. 2. þm. Reykv., hvort hér sé fylgt taxta verkalýðsfél. Þetta ætti hann að vita, og það er víðar en þarna, sem svartur markaður er. Það er mjög mikið af iðnvinnu, sem þannig er greidd, að ekki fæst sundurliðaður kostnaður, en öll vinna langt fyrir ofan allan kauptaxta. Hvernig stendur á því, að hv. 2. þm. Reykv. fræðir okkur ekki um þetta? Ég veit, að það eru aðrir kunnugri landbúnaðarmálum en hann, en svo setur hann upp merkissvip og spyr: Hvernig stendur á, að þetta á sér stað? Af hverju eru ekki til nægilegar landbúnaðarvörur, kjöt og mjólk? Gætu bændur ekki komið og sagt: Hvernig stendur á, að ekki er nógur vinnukraftur fyrir landbúnaðinn, og hvaða heimtingu eiga fulltrúar verkamanna á að koma með slíkar kröfur, ef þeir vinna ekki að framleiðslu? Hvað hefur hv. 2. þm. Reykv. gert til þess að stuðla að því, að hægt sé að halda uppi framleiðslunni í landinu?

Þá segir hv. þm., að neytendur í landinu veiti stóra styrki til þess að halda uppi landbúnaðinum hér á landi. Það vantar svo sem ekki! Bændurnir eru þá líklega orðnir ölmusulýður þeirra, sem í kaupstöðunum búa. Ætli það sé þó ekki réttara að segja, að bændur landsins leggi á sig margfalt erfiði og óþægindi á við það, sem gerist í kaupstöðunum, til þess að geta haldið lífinu í þessu fólki, sem ekki vill vinna að landbúnaði landsmanna? Ég hygg líka, að sjómenn leggi á sig margfalt erfiði til þess að halda lífinu í þessum hv. þm. Hvaða styrki hafa þeir menn, sem ekki vinna að framleiðslunni í landinu? Hvaða fé hafa þeir handa þeim, sem hafa verðmætin í höndum? Það eru þeir, sem að framleiðslunni vinna, sem halda lífinu í þjóðinni, en ekki þeir, sem sitja og skrifa blaðagreinar og flytja álíka erindi um framleiðsluna eins og nú hefur af þessum hv. þm. verið gert. Þeir vinna ekki handarvik að framleiðslunni. En svo segja þeir: Það erum við, sem berum fram styrki handa bændum, svo að þeir geti lifað. — Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. sé hollara að líta á þetta frá einhverju sjónarmiði, sem hann þekkir, en vera ekki að fara út á það djúp, sem hann er sokkinn á, áður en hann veit af, þ. e. a. s. ef hann fer að ræða málin, eins og hann hér hefur gert nú.

Jú, hv. 2. þm. Reykv. vantaði ekki ráðleggingarnar til þess að bæta úr þessum ágöllum landbúnaðarins, sem hann talaði um. Hann sagði: Það eru erfiðleikarnir í sveitinni, sem knýja fram umbætur. Það á sem sé að láta þetta fólk eiga nógu erfitt. Vill hann þá ekki einnig segja því fólki, sem hann er forsvarsmaður fyrir, að það þurfi að eiga við nógu mikla erfiðleika að etja? Hann þykist vera að vinna fyrir fólkið, sem veitt hefur honum umboð. Það kynni þá kannske að vera, að hann sjálfur væri þeir erfiðleikar, sem það fólk á við að stríða. Ég hélt nú, að þessi hv. þm. og aðrir hv. alþm. ætluðu að létta fólkinu erfiðleikana.

Hv. 1. landsk. þm. (SG) hafði líka úrræði, sem virtust frá hans sjónarmiði vera allra meina bót, nefnilega að greiða nógu há laun. T. d. sagði hann, að það félag, sem hefði greitt helmingi hærra kaup en tilskilið var, hefði grætt allra manna mest. En þar sem vitað er, að kaupgjald er svo að segja allur framleiðslukostnaðurinn á sumum sviðum, verður þetta hæpin kenning. Mér virðist því þetta úrræði hv. 1. landsk. þm. vera álíka hált eins og erfiðleikaráðið fyrir sveitirnar, sem hv. 2. þm. Reykv. var að bjóða upp á. Og ég hygg, að þeir, sem eiga að vinna að landbúnaði, séu sammála um það, að hinn mesti erfiðleiki við að halda uppi framleiðslunni í sveitinni sé hátt kaupgjald. Og það veit hver maður, að það er það, því að kaupgjaldið í sveitinni hefur hækkað hlutfallslega meira heldur en við önnur framleiðslustörf, því að í sveitinni var það lægra heldur en annars staðar, en nú er það jafnvel hærra en við aðra framleiðslu, eins og t. d. við heyskap á sumrin. — Ég held því, að það sé ekki gott ráð, sem hv. 1. landsk. þm. kemur með, að hafa kaupið bara ennþá hærra, þá sé vandamálið leyst í þessu efni.

Þá voru þessir báðir hv. þm. að ræða um kjötverðið, að það væri óeðlilegt. Hv. 1. landsk. minntist á það á þann veg, að ríkið tryggði verð fyrir kjötið og bændur vildu fara með það þangað, sem eftirspurnin væri mest, og fá enn þá hærra verð. — Hver er svo sannleikurinn í þessu? Kjötið, sem fram kemur á markaðinn seinni part sumars og hv. þm. eru alltaf að fjargviðrast út af, að ekki hafi komið á markaðinn, er af dilkum, sem ekki eru fullvaxnir. Þar af leiðandi verður að selja þá með nokkru hærra verði heldur en að miða við kjötverð við haustslátrun, ef nokkurt vit á að vera í því að slátra þeim fyrir þá, sem það gera. Það er ekkert annað, sem myndar það háa verð á kjötinu, sem selt er seinni part sumars. Það er ekki verið að fara fram á hærra verð fyrir það kjöt heldur en annað, nema frá því sjónarmiði, að kjötið er ekki fullframleitt, þegar slátrað er, þegar dilkar t. d. hafa hálfan þunga á við það, sem vera mundi af þeim komnum af afrétt að haustinu, og þegar líka er tekið tillit til þess, að vinnukraft verður að taka til þess að ná í dilkana af afrétt og að vinnuaflið er jafndýrast að sumrinu. Það væri fjarstæða að ætlast til þess, að þetta kjöt væri selt með sama verði og kjöt af haustslátrun. Hitt væri jafnmikil fjarstæða, að ætlast til þess, að þó að það komi nokkur hundruð dilkaskrokkar hingað til Reykjavíkur að sumrinu, framleiddir við þær aðstæður, sem ég hef lýst, sem fáar fjölskyldur kaupa, þá eigi verðlagið á þeim að teljast það kjötverð, sem ráðandi sé gagnvart vísitölunni.

Um hitt skal ég svo ekkert segja, að verið getur, að vísitalan sé reiknuð óhagstætt neytendum á öðrum sviðum. Það getur verið þarft að athuga það. En að neytendur og framleiðendur séu að rífast um vissa hluta þess, sem hefur áhrif á vísitöluna, aðeins eftir því, hvað þeim kemur sjálfum í hag, það er ekki grundvöllur, sem til mála getur komið að byggja á. Nú er því haldið fram, að endurskoða þurfi vissa liði vísitölunnar, af því að hún sé ekki rétt út reiknuð eftir þeim eins og nú er gert. Og hvers vegna er hættulegt að rannsaka það? Ég sé ekki annað en að það sé rétt að athuga þessi efni, hverjir sem á það benda.

Þá talaði hv. 1. landsk. þm. um ameríska smjörið. Það er nú orðinn nokkurn veginn fastur liður, hvað sem þessir menn ræða um, að nefna það, svipað eins og Cato gamli endaði allar sínar ræður á því að segja, að hvað sem öðru liði, áliti hann, að Karþagó bæri að eyðileggja. Þannig virðast allir hv. þm. þessa flokks komast að því í sambandi við hvaða umr. sem eru um landbúnaðarmál að minnast á ameríska smjörið, það eigi að nota það, þar sem hægt sé að selja það fyrir þriðjung verðs á við íslenzkt smjör. En það er langt frá því, að það sé hægt, þegar búið er að leggja á það allan kostnað við dreifingu. (KA: Hvað kostar það?). Það kostar meira, og er ekki hægt að selja það fyrir um 7 kr. í útsölu. En þó að það væri rétt, þá er sennilega meir en þrefalt ódýrara en hér að framleiða smjör suður í löndum.

Hv. 1. landsk. þm. sagði réttilega — og hann ætti að muna eftir því oftar en í þetta eina skipti — þegar hann ræddi um verkamenn, að lífsframfæri verkamanna er komið undir því, hvað vörurnar kosta. Þetta er rétt, og það er gott, að hann hefur nokkurn skilning á því. En hann verður þá líka að gæta að því, að það er ekki eina ráðið til að bæta lífskjör verkalýðsins að hafa kaupið sem hæst, heldur líka, að hægt sé að framleiða vörurnar í landinu þannig, að ekki þurfi að borga of mikið fyrir þær. — Hv. 1. landsk. þm. sagði í því sambandi, að ef smjörið kostaði ekki nema 50 aura kg, þá skildist mér, að auðvelt væri fyrir verkalýðinn að komast af með lægri laun. Og ef sá hv. þm. stuðlar að því, að verkakaupið í landinu verði þannig, þá er spursmál, hvort ekki er hægt að framleiða smjör fyrir það verð, þar sem 90% af öllum kostnaði við framleiðslu smjörsins er kaupgjald. — Hv. 1. landsk. þm. var líka að tala um það, að allir vildu berjast fyrir betri kjörum. Það er rétt, og ekki neinum að lá. En menn eiga líka að hafa þann skilning á kjörum annarra manna, að þeir ekki endilega vilji troða niður aðrar stéttir til þess að koma einni stétt upp, og þar sem þá líka er um stétt að ræða, sem nauðsynleg er, til þess að hinar geti lifað. Þessi hv. þm. virtist ekki hafa neitt annað fyrir augum en það, að það væri ekki of mikill lífsstandard þess fólks, sem flytur í setuliðsskálana. En hann veit, að fjöldi sveitafólks, sem vinnur í sveit, lifir ekki við betri kjör, hvað húsakynnum við kemur. Hann veit það vegna þess, að hann er einn af þeim fáu fulltrúum verkamanna hér, sem hefur verið í sveit, og hann veit, að talsvert af því fólki, sem í sveit vinnur, vildi skipta á húsum sínum og setuliðsskálum, ef hægt væri, án þess að talað hafi verið um af þessum mönnum, að það þurfi að bæta hlut þess fólks, áður en farið er að hækka meira og meira kaup fólks annars staðar.

Það var nú ýmislegt annað, sem vitanlega væri full ástæða til að ræða nánar í þessum efnum. En af því að þetta er svo margþvælt hér á Alþ., þessi söngur kommúnista um landbúnaðinn, þessi síniðrandi söngur um fólkið, sem á erfiðasta aðstöðuna í landinu, og tillögur um að rýra aðstöðu þess og draga kaup þess niður, verðið á afurðum, sem það framleiðir, jafnhliða því, sem heimtað er meira og meira fyrir aðrar stéttir, og það er hrein plága að eiga að sitja undir því dag eftir dag gagnvart þeirri stétt, sem er undirstaða þjóðfélagsins, — þá ætla ég ekki að fara um þetta fleiri orðum. Maður er orðinn svo vanur að heyra þennan söng kyrjaðan af fulltrúum kommúnista. Þeir verða sjálfsagt ekki betur vandir. En ég vildi minna þá á það enn einu sinni, sem ég hef sagt hér, ef ske kynni, að einhvern tíma gæti einhver vitglóra komizt að hjá þeim viðkomandi kjörum þeirrar stéttar, sem hefur erfiðari kjör heldur en nokkur önnur stétt í þessu landi.