18.10.1944
Sameinað þing: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í D-deild Alþingistíðinda. (6153)

167. mál, verðlagsvísitalan

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Hv. þm. V-Sk. hefur nú haldið sína venjulegu prédikun um þessi mál og hefur óskað eftir því, að hann kannske þyrfti nú ekki að gera það oftar. En ég skil ekki, að hv. þm. V-Sk. geti farið að finna að þekkingu bæði minni og annarra um landbúnaðarmál, sem hafa talað hér fyrir hönd verkamanna. Því að okkur finnst a. m. k., að hann hafi litla þekkingu á málum verkamanna. Og það verður alltaf sama viðkvæðið hjá honum, að það hafi enginn þekkingu á málum landbúnaðarins og sveitamanna annar en hann og hans flokksmenn. En ég ætla bara að benda á eitt, þegar hann talar um svartan markað á vinnu. Hann telur það svartan markað fyrir vinnu, þegar manni er borgað hærra kaup heldur en umsamið er hjá verkalýðsfélagi. En hjá hvaða verkalýðsfélagi? Hjá því, sem hefur hæst kaup, eða því, sem hefur lægst kaup? Það er hvergi lögákveðið kaup yfir allt landið, og það er samningsatriði á hverjum stað. Og það er hart, að þetta skuli skolast til í höfði annars eins kennimanns og þessa manns, hv. þm. V-Sk. Það er sitt hvað, lögboðið verð og samningsbundið kaup. Það er lögboðið verð á mjólkinni. Og meira að segja, eftir mjólkursölul. eru þeir, sem með þau mál fara, skuldbundnir til hafa fyrir hendi nægilega mjólk á markaðinum. Það hefur verið lesið yfir hv. þm. V-Sk. hér, að eitt af skilyrðunum fyrir einkasölu samsölunnar á mjólk sé, að hún eða þeir, sem hana framkvæma, hefðu á boðstólum nægilega mjólk.

Svo kom sami hv. þm. inn á það, að ég hefði haldið því fram, að heppilegast væri að borga hátt kaup. Það getur oft komið fyrir, að það sé ávinningur fyrir þá, sem vinnu kaupa, að kaupgjaldið sé hækkað. Það er fyrsta skilyrðið til þess, að það borgi sig vel að kaupa vinnuorkuna, að hún sé notuð heppilega, hvort sem hún er dýr eða ekki. Og hv. þm. kom inn á þetta dæmi, sem ég tók fram. Ég er alveg sannfærður um, að það var hárrétt. Því að þó menn hafi litla frú á viðskiptaráði, þá er ég sannfærður um, að það hefur fengið skýrslur um, hvernig það fyrirtæki, sem ég nefndi, hefur verið rekið. Og þeir mundu ekki hafa látið það við gangast, að Eimskipafél. Íslands græddi 18 millj. kr., ef þeir hefðu búizt við því. En að svo fór, var af því, að vinna við skipin hefur gengið fljótar heldur en búizt var við, og það var af því, að þeir, sem fyrir henni stóðu, borguðu hana með dýrari taxta. En ég veit ekki, hvort það er af skilningsleysi eða öðru, að sú sérkennilega vinsemd kemur fram hjá hv. þm. V-Sk. gagnvart verkalýðnum, sem menn vita um og þarf ekki að ræða.

Hitt er annað mál, að það mættu bæði hann og aðrir athuga nokkuð um mennina, sem hafa flutt úr sveitinni, og undirstöðuástæðurnar fyrir því, að þeir hafa flutt þaðan burt. Og mig langar til að spyrja hv. bændur hér á þingi, hvort þeir myndu nú ekki til þess, að það gæti verið nokkuð margt, sem þar væri vert að athuga. Ég er kominn ofan úr sveit og hef verið þar. Og ég veit ekki betur en að þar hafi menn hjálpað allmörgum fjölskyldum til þess að komast á mölina, þó að þeir ærist svo yfir því að fá ekki vinnukraftinn í sveitirnar aftur, þegar börnin, sem þaðan fluttust, eru orðin þroskuð. Það er ekki svo langt bil á milli mín og þeirra, sem þetta hafa reynt. Ég get hafa átt samstöðu við þessa menn, og þeir hafa sagt mér sannleikann um sína afkomu og þessi viðskipti sín, sem ég hef getið, og þau eru ekki svo falleg, að það sé rétt að hafa háreysti um þessa menn út af því, að þeir hafi ekki fórnfýsi til að fara að vinna í sveit, þegar viðskilnaðurinn er þá svo, að það er varla hægt, að þeir geti fengið verra líf heldur en þeir eru búnir að fá andlega við þessa meðferð.

Þá sagði hv. þm. V-Sk., að við ættum að vera þakklátir fyrir allar leiðréttingar á vísitölunni, við hefðum ekki svo lítið barizt fyrir því að fá hana rétta. Það getur vel verið. En hv. þm. V-Sk. má ekki verða hissa, þó að við tökum það ekki svo ákaflega alvarlega, að þessu sé haldið fram af hans hendi af einskærri ást á því, sem rétt er. (SvbH: Er það skilyrðið fyrir að vera með málinu?) Nei, en ég tek þetta svona bara fram.

Lengst var gengið árið 1942 af fulltrúum sveitanna gagnvart verkalýðnum, því að þeir, sem landbúnaðinn stunduðu, héldu þá, að þeir fengju ekki nógu mikið vinnuafl, og þá var mikið verið að tala um kaupgjaldið. Og þá var farið til þess aðila, sem mest notaði vinnuorkuna, sem var setuliðið, og það komst það langt, að samið var við það um, hvað það mætti taka marga menn til vinnu. Á sama tíma skrifaði Dagsbrún til þáverandi landbrh. og bauðst til þess að vinna að skipulagningu vinnunnar í samráði við þáverandi ríkisstjórn. Því bréfi hefur ekki verið svarað enn. En ef samvinna hefði verið höfð þá við verkalýðinn, þá hefði margt farið betur en komið er á daginn. Þegar barið er á allt, sem verkalýðurinn býður fram, og því ekki anzað, þá er það nokkuð furðulegt, þegar þessir menn koma, hv. þm. V.-Sk. og slíkir, og telja, að þeir séu að gera allt fyrir verkalýðinn, en ekkert fyrir sjálfa sig.