07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

143. mál, fjárlög 1945

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Síðan brtt. mínar við brtt. hv. fjvn. voru birtar, hafa fleiri en einn þm. látið í ljós, að ef þessi stefna ætti að ríkja hér á þingi, þá mundi það hafa þau áhrif, að fjárl. hækkuðu um 50 millj. kr. Það er því ekki óeðlilegt, að hæstv. forseti gefur mér orðið næst á eftir hæstv. fjmrh. til að gera grein fyrir þessari stefnu, sem hér er tekin upp.

Ég vil þá fyrst minnast á brtt. á þskj. 612,1, sem ég er meðflm. að, sá síðasti. Hún er ekki borin fram af mér, en mér þótti skylt að vera meðflm. að þeirri till., þar sem ég átti sæti í mþn. í póstmálum og get borið því vitni, að svo að segja hver einasti hv. þm., sem kallaður var á fund n. til að ræða till. hennar, lét í ljós ánægju sína yfir þeim till., og þó að það bindi ekki atkv. þeirra á Alþ., var það skilningur n., að í náinni framtíð kæmist það í framkvæmd, sem þeir að heita mátti allir höfðu látið í ljós ánægju sína yfir. — Ég minnist á þetta vegna þess, að ef ekki er veitt nægilegt fé á næsta ári eða árum til að koma öllum þessum till. í framkvæmd, þá vil ég vænta þess, að það fé, sem veitt verður, verði ekki notað til að fjölga póstferðum, þar sem þær eru flestar, því að nú er það svo, að sumar sveitir hafa póstferðir vikulega árið um kring og hafa haft lengi og sumar tvisvar eða þrisvar í viku, en svo eru önnur svæði, sem hafa ekki póstferðir nema einu sinni í mánuði og sumar árstíðir kannske ekki nema annan hvern mánuð. Þess vegna legg ég áherzlu á það fyrir hönd n., þó að ég væri þar ekki form., að fyrst verði bætt úr þar, sem mestir eru erfiðleikarnir. Að öðru leyti skal ég ekki ræða þessa till.

Um aðra till., sem er sú III. á sama þskj., er það að segja, að oddviti Patreksfjarðarhrepps hefur óskað, að ég bæri hana fram af þeirri einföldu ástæðu, að ég vil gjarnan færa hv., fjvn. heim sanninn um, að það hefur margsinnis verið beðið um framlag frá ríkissjóði til þess að leggja á móti framlagi hreppsins til að byggja þetta hús samkvæmt l. Þeir telja sig eiga heimtingu á þessu samkvæmt l., og ég skil ekki, hvers vegna dómsmrn. hefur ekki viljað sinna þeim beiðnum, sem þeir þykjast hafa heimtingu á, að orðið sé við l. samkv.

V. brtt. er tekin aftur til 3. umr., vegna þess að hv. fjvn. hefur óskað að fá að vita, hversu há skuldin sé á læknisbústaðnum á Reykhólum, og mun ég senda hv. fjvn. þau gögn strax á morgun. Þessi liður hefur staðið í fjárl. í mörg ár til að létta undir með þessu fátæka héraði.

Þá kemur stærsti liðurinn, sá VII., vegamál. Ég vil leyfa mér að benda hv. n. á og einnig hæstv. fjmrh. og vona, að hann komi því til hæstv. meðráðh. sinna, að mér skilst, að samkvæmt 13. gr. og nal. sé það fyrst og fremst vilji hæstv. stj. að koma sem fyrst í framkvæmd veginum yfir Siglufjarðarskarð, Oddsskarð, Lágheiði og auk þess Krýsuvíkurvegi. Síðan varð samkomulag um það við n. að fara þann gullna meðalveg, að framlag til vega lækkuðu ekki frá því, sem nú er. Nú vil ég geta beygt mig undir það, þó að ég vilji ekki viðurkenna, að þau héruð, sem ávallt hafa verið mest út undan, eigi að sitja í sömu sporunum, þegar erfiðleikar koma um framlög til vega. En ég vil benda á, að þessari stefnu hefur ekki verið haldið um Barðastrandarsýslu og aðra sýslu til, Norður-Ísafjarðarsýslu. Ég hygg, að þetta séu einu sýslurnar á landinu, sem hafa fengið lækkun á vegafjárframlagi sínu. Undantekning er þó Fjarðarheiði. Ég skal færa fyrir þessu frekari rök. Í síðustu fjárl. eru veittar til Barðastrandarsýslu 175 þús. kr. til vega og þar fyrir utan til Þorskaf jarðarheiðar 310 þús. kr. Tel ég, að Barðastrandarsýsla hafi fengið helminginn af því eða 155 þús. kr. Nú er þetta lækkað. Þorskaf jarðarheiði er lækkuð um 140 þús. kr. Kann að vera, að það sé skoðun vegamálastjóra eða hæstv. samgmrh., að hægt sé að leggja veginn fyrir þetta verð, en það gaf enga ástæðu til að lækka heildarframlag til vega í sýslunni, meðan aðrir vegir í sýslunni eru ógerðir. Þess vegna var sjálfsagt, að það, sem lækkað var til þessa vegar, hefði verið látið ganga til annarra vega í sýslunni, svo að það sama gengi yfir hana í fjárl. og aðrar sýslur landsins. Ef þessu er skipt jafnt milli Barðastrandarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu, þá hefur Barðastrandarsýsla lækkað um 70 þús. kr. eða rúmlega 20%, og mundi það nema meira en einni millj. á öllu vegafjárframlaginu. Ef sá háttur væri tekinn upp að lækka fjárl. sem þessu svaraði, þá mundi það spara eina millj. á þessum eina lið, auk þess sem þá mundi hverfa 500 þús. kr. hækkun á vegaframlaginu. Nú vil ég ekki segja að ég mundi fallast á, að slíkt væri gert, en ég vil þó miklu síður fallast á, að framlag til þeirrar sýslu, sem alltaf hefur átt erfiðast um samúð hv. þm. um framlög, verði fyrst skorið niður, þegar erfiðleikar steðja að. Ég sé, að hv. þm. N.-Ísf. mun hafa litið nokkurn veginn sömu augum á þessi mál og ég, án þess að ég hafi nokkuð borið mig saman við hann, því að ég sé, að hann fer fram á, að framlag til vega í sýslu hans verði hækkað um sama og sparast á Þorskafjarðarheiði að hálfu leyti, og tel ég það sanngjarnt.

Af þessari ástæðu er það, að ég hef borið fram till. um — og vænti, að fjvn. taki þessar sanngjörnu kröfur til greina, — að hækkuð verði fjárveiting til nokkurra vega, sem ég skal nú nánar koma að. Ég skal viðurkenna, að vegurinn yfir Lágheiði er mjög nauðsynlegur, og skal engan veginn mæla á móti, að hann sé hækkaður upp í 200 þús. kr. Hér liggur til grundvallar að tengja þorp, sem mun hafa um eitt þús. íbúa, við aðalvegakerfi landsins, þó að það hafi viðunandi samgöngur á sjó. En um leið og viðurkennt er, að það sé nauðsynlegt, hvernig er þá hægt að standa á móti því, að ekki einungis kaupstaður eins og Patreksfjörður, heldur einnig öll Vestur Barðastrandarsýsla fái sams konar fjárframlag árlega til þess að komast ekki aðeins í samband við aðalvegakerfi landsins, heldur til að fá möguleika til að komast í samband við þau skip og báta, sem geta flutt farþega og komið þeim í samband við aðalvegakerfi landsins, — en það er það eina, sem hér er krafizt, — og að bæta úr aðkallandi mjólkurskorti þorps, sem haldið er í mjólkurhungri? Ef menn vilja athuga þetta, þá geta þeir ekki mælt á móti því með sanngirni, að lagðar séu fram 200 þús. kr. í þessu skyni, eins og til Ólafsfjarðar. — Sama er að segja um Oddsskarð. Þar er stórkostleg hækkun, þó að engin króna hafi verið notuð af því fé, sem veitt var á síðasta ári, en allt notað í Barðastrandarsýslu vegna óhjákvæmilegrar nauðsynjar á að komast sem allra fyrst í samband við aðalveginn. Ég vil benda á, að hér er ekki ætlazt til, að komið verði á bílvegasambandi við Dalahrepp, og engin till. gerð um að bæta úr þeirri einangrun, og er það af því, að ég ætla að halda mér einungis að því, sem er allra nauðsynlegast.

Að ég hef beðið um hækkun til Reykhólavegar, er af því, að ákveðið er, að ríkið reisi mannvirki á Reykhólum, tilraunastöð, sem hefur verið samþ. oftar en einu sinni. Á síðasta ári var farið fram á að fá flutt frá Gufudalssveitarvegi í Reykhólaveg til þess að þoka þessum vegi eitthvað áfram. Þetta var á síðasta sumri, en það fékkst ekki, af því að vegamálastjóri taldi sig ekki hafa heimild til þess. Þeir buðu einnig fram stórkostlegt lán frá sjálfum sér, þar til fjarveiting fengist til að ljúka veginum, en vitamálastjóri taldi sig ekki heldur hafa heimild til að sinna því. Þetta sýnir, hversu mikill áhugi og þörf er á að koma þessu í framkvæmd. Vegamálastjóri hringdi til mín, og spurði mig, um leið og hann tjáði mér þetta samkomulag, sem ég tel, að hafi ekki verið haldið, hvort ég vildi ekki leggja til, að fært yrði milli vega í sýslunni. Ég lagði til, að 10 þús. kr. af því fé, sem ætlað var til Gufudalssveitarvegar, yrði fært til, og var það síðan gert, en þegar ég sé, að mér er ekki skammtað í sömu sleif og öðrum, þá virðist mér það full sanngirni, að hv. fjvn. athugi þetta og leggi til, að þær till. verði samþ., sem ég ber fram, að hækkað verði til Gufudalssveitarvegar upp í það sama og var á síðasta ári. Ég hef lagt til, að Barðastrandarsýsla hækki um 150 þús. kr. og varið til þeirra vega, þar sem þörfin er svo aðkallandi, að ekki er hægt að standa á móti.

Ég hef lagt fram till. um, að fjárframlag til Tálknafjarðarvegar verði hækkað úr 20 þús. kr. upp í 50 þús. kr., og vona ég, að hv. fjvn. fallist á þetta, þar sem svo mikil nauðsyn er til úrbóta sem raun er á hér, og væri strax mikil bót, ef vegurinn kæmist að Sveinseyri.

Ég hef einnig borið fram till. um, að fjárframlag til Dalahreppsvegar hækki um 10 þús. kr. Öllu fénu var eytt í fyrra, og vona ég, að hv. fjvn. taki tillit til þessa.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég minnast á það, að af öllum fjárframlögum til lendingarbóta eru einungis lagðar 42 þús. kr. til lendingarbóta í Barðastrandarsýslu og þar af mest til eins staðar, sem á við mjög erfiðar samgöngur að búa. Þykir mér því eigi ósanngjarnt, að fjárframlög til veganna yrðu hækkuð.

Ég hef og farið fram á, að 4 brýr yrðu gerðar. Tvær þeirra eru síðan 1942. En þó hef ég orðið að standa í þjarki við ríkisstj. að fá að nota féð, sem fyrrv. atvmrh. hefur ranglega haldið fyrir sýslunni. — Ég vil benda á það í þessu sambandi, hvort það þættu eigi harðir kostir, að ekki sé hægt að reka fé til slátrunar án þess að sundleggja það. Það má vera, að þetta sé meðalið til þess að halda dreifbýlinu við, en ég hef ekki trú á því, að það sé rétta ráðið. Ég vona því, að hv. fjvn. fallist á, að fé verði veitt til allra þessara brúa.

Þá hef ég einnig borið fram þá ósk Barðstrendingafélagsins, að 100 þús. kr. yrðu veittar til byggingar tveggja ferðamannaskála, að Kinnarstöðum og Brjánslæk, 50 þús. kr. til hvors. Eru þeir báðir nauðsynlegir ferðamönnum, sem þarna eiga leið um.

Þá hef ég borið fram till. um fjárveitingu til lendingarbóta í Selárdal, 10 þús. kr. Þessi till. er hjá sjútvn. og verður væntanlega samþ.

Þá er hér og till. um 1.200 kr. styrk til sjómannalesstofu á Bíldudal. Þar eru nú gerðir út tveir togarar, og læt ég hv. fjvn. um það, hvernig hún tekur þessu máli, en sé, að hún hefur sinnt svipuðum málum.

Þá er till. um 3.000 kr. styrk til gamalmennahælis á Patreksfirði.

Þá vildi ég sérstaklega biðja n. um að athuga hér eitt, en það er um að hækka laun frú Sigríðar Snæbjörnssen um 300 kr., og vona ég, að n. sjái sér fært að taka þetta til greina.

Ég sé svo eigi ástæðu til að hafa þetta lengra.