06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í D-deild Alþingistíðinda. (6166)

196. mál, brúargerð á nokkur stórvötn

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langt mál. Grg., sem fylgir málinu, skýrir sig sjálf.

Ég hef rætt um þetta við nokkra verkfræðinga, sem hafa unnið að brúargerð fyrir landið. Og í raun og veru hef ég í samráði við þá komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri vinnandi verk að taka nú skorpu og brúa á nokkrum árum þær stórár, sem fram að þessu hefur verið gengið framhjá.

Nú hafa aðrir komið með till. um fleiri ár, sem flestar má telja nauðsyn að brúa. Tvær til þrjár þeirra eru þó smáár, sem falla ættu undir venjulegar brúarframkvæmdir. Ég geri ráð fyrir því, að í þessum till. verði ekki teknar aðrar brýr en þær, sem væru 50 metrar og þar yfir og mikil nauðsyn væri að taka.

Ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði það vel tekið, að því verði vísað til n. ásamt þeim brtt., sem þegar eru fram komnar. Síðan ræðst það, hvort hæstv. Alþingi og ríkisstj. vilja ekki gera eins konar 5 ára áætlun. Mér sýnist sú áætlun gæti vel fallið inn í þá stóru áætlun, sem framkvæma á að öðru leyti.