06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í D-deild Alþingistíðinda. (6169)

196. mál, brúargerð á nokkur stórvötn

Ingólfur Jónsson:

Ég get orðið við ósk hæstv. forseta og verið stuttorður. Ég hef flutt tvær brtt., önnur er um, að bætt verði við einu stórfljóti, Tungnaá, þar sem hún fellur í Þjórsá. Nú er bílfær vegur frá Galtalæk upp að Tungnaá, og þaðan mundi vera bílfært upp að Fjórðungakvísl sunnan við Sprengisand. Ef brú væri komin á Tungnaá, mundi Fjórðungakvísl ekki lengi verða farartálmi úr því, og gert mundi verða við það, sem þarf á nokkrum stöðum á Sprengisandsvegi. Og væri þá von bráðar kominn bílvegur milli Suðurlands og Norðurlands. Þessi stórbrú er aðalatriðið í þeirri vegagerð. Brúin yrði ekki eins löng og dýr og ætla mætti eftir vatnsmagni að dæma, því að Tungnaá rennur þarna í þröngu gljúfri, og brúarstæði má teljast gott. Vegamálastjóri hefur athugað brúarstæðið og hefur áhuga á málinu.

Ég veit, að margur mun segja, að fyrst beri að keppa að því að byggja brýr í byggðum, en síðar í öræfum. Og er mikið satt í því. En hér er undantekning, því að Tungnaárbrú mundi tengja saman landsfjórðunga. Þegar málið kemur fyrir n., verður þessari till. vitanlega vísað til vegamálastjóra, og mun hann segja álit sitt, hvort eigi muni rétt að taka þessa brú í áætlun þessa, ef gerð verður.

Þá hef ég flutt aðra brtt. á þskj. 574 við brtt. frá hv. 1. þm. Rang. Hann lagði til, að Þverá skyldi brúuð móts við Þykkvabæ, en það var málvilla, því að áin heitir þar Djúpá eða Hólsá. Og er það leiðrétt í annarri brtt. En í brtt. minni er lagt til, að brúin sé sett hjá Ártúni eða öðrum þeim stað, þar sem hún kemur að beztum notum og brúarstæði er álitið bezt. Um þessi brúarstæði er margt búið að ræða. Verkfræðingar hafa skoðað staðina, og þeim hefur ekki litizt á brúarstæði móts við Þykkvabæ. Þeim hefur ekki heldur litizt alls kostar vel á brúarstæði ofan við Ártún, en öllu betur niður frá Ártúni fyrir neðan Djúpós eða einhvers staðar eigi langt þaðan. Ef brtt. mín er samþ., ætti að vera tryggt, að bezta brúarstæðið verði valið. Og er þá að sjálfsögðu alls ekki útilokað, að brúin verði móts við Þykkvabæ, þar sem hv. 1. þm. Rang. vill hafa hana.