06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í D-deild Alþingistíðinda. (6171)

196. mál, brúargerð á nokkur stórvötn

Jón Sigurðsson:

Þær till., sem hér liggja fyrir, má nánast skoða sem yfirlýsingar frá þm. um, hvaða ár þeir telji nauðsynlegt að brúa í þeirra kjördæmum. Það er í raun og veru ekki nema eðlilegt, að till. eins og þessar komi fram, þótt ekki sé nema að litlu leyti tekið tillit til óskanna, sem á bak við liggja, vegna þess að fáir eru svo kunnugir um allt land, að þeir geti sagt til um það, hvar þörfin er mest. Sannast hér sem oftar, að sá veit gerst, hvar skórinn kreppir að, sem hefur hann á fæti. Þess vegna er eðlilegt, að við þm. Skagf. og aðrir komi fram með óskir okkar um rannsókn á þessum málum.

Þær tvær brýr, sem hér er um að ræða og við óskum eftir, að verði teknar í tölu þeirra brúa, sem byggja skal á næstu árum, er brú á Jökulsá eystri og á Norðurá í Skagafirði. Eins og mörgum mun kunnugt, þá eru Héraðsvötnin brúuð undan Völlum. Alla leið þaðan og fram í jökul er engin brú, eða á Jökulsá austari. Þetta stórvatn sker í sundur héraðið þar fyrir framan. Þessi till. er því fram borin til þess að tengja saman byggðina austan Héraðsvatna og vestan, svo að héraðsbúar hafi fullt samband sín á milli. Á þessari leið eru að vísu tvær kláfferjur til bjargar gangandi fólki. Brúin á Norðurá á að koma skammt frá póstleiðinni, þar sem hún liggur um Silfrastaðafjall upp Öxnadalsheiði. Brúarstæði mun vera þar sæmilegt, og þegar sú brú er komin og brúin á Jökulsá austari, tengja þær saman byggðina austan Héraðsvatna og vestan í eina framsveit. Eins og sakir standa, verða mjólkurbifreiðir, sem aka fram í dalinn, að snúa við aftur. Með þessum brúm opnast möguleikar á því, að ekki þurfi að snúa aftur, heldur megi fara hring, ofan í byggðina hinum megin og taka mjólkina á allri leiðinni og fara með hana til Sauðárkróks, og yrði það mikill sparnaður. Með fyrirhugaðri stækkun mjólkursvæðisins í Skagafirði er slíkur akstur nauðsynlegur. Þetta mun því létta stórkostlega fyrir aukinni mjólkurframleiðslu í héraðinu og verða gerbreytandi fyrir byggðina að ýmsu leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að mæla fyrir þessu frekar. Ég hygg, að þessi rök nægi til þess að sýna fram á nauðsyn þessa máls.