07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

143. mál, fjárlög 1945

Steingrímur Aðalsteinsson:

Ég hef leyft mér að flytja örfáar brtt., prentaðar á þskj. 612. Ég ætla aðeins að fara örfáum orðum um þær.

Fyrsta brtt. er undir rómverskum IV, brtt. við 12. gr. fjárl. Í fjárl. er veittur 750 þús. kr. styrkur til að reisa læknisbústaði, en fjvn. hefur í till. sínum á þskj. 579 gert brtt. við þennan lið um, að hann orðist þannig: Styrkir til sjúkrahúsbygginga, læknisbústaða og sjúkraskýla, kr. 1100000,00. Þar er hann að vísu nokkuð hækkaður, en fjvn. hefur ekki sundurliðað þessa upphæð neitt í till. sínum, ekki a.m.k. eins og till. birtist á þskj. 579. Hins vegar hef ég fengið upplýsingar um, að hv. n. hafi gert sundurgreiningu á þessu og áætlað, hvað af þessari upphæð færi til einstakra staða á landinu. (PO: Hún hefur fengið till. frá landlækni.) Og mér er sagt, að í þeirri sundurgreiningu séu áætlaðar 200 þús. kr. til byggingar væntanlegs sjúkrahúss á Akureyri. — Ég hef leyft mér að flytja við þetta brtt. á þann veg, að þessi liður verði hækkaður um 300 þús. kr. og að sú hækkun kæmi þannig fram, að 500 þús. kr. yrði varið til byggingar sjúkrahúss á Akureyri. Ég býst við, að hv. þm. sé yfirleitt kunnugt um, að það verður ekki lengur komizt undan þeirri nauðsyn að reisa nýtt sjúkrahús á Akureyri, vegna þess að það mál hefur nokkuð verið til umr. meðal þm. undanfarið. Ég geri ráð fyrir, að þegar á næsta ári verði hafizt handa um að reisa á Akureyri nýtt sjúkrahús, og þó að enn sé hvorki búið að ganga til fullnustu frá áætlun né teikningu á þessu sjúkrahúsi og ekki vitað með vissu, hvað dýrt það verður, og ekki enn búið að ganga frá til fulls, hvaða þátt ríkissjóður taki í byggingunni, þá held ég, að óhætt sé að slá því föstu, að kostnaður við byggingu sjúkrahússins verði ekki mikið innan við 2 millj. kr., ef það verður reist með það fyrir augum að fullnægja ekki aðeins þörf Akureyrarkaupstaðar, heldur þeirra héraða á Norðurlandi, sem sótt hafa til Akureyrar um sjúkrahússvist. Að hinu leytinu er ekki búið að ganga frá þátttöku ríkissjóðs, en það verður væntanlega gert á þessu þingi. Þótt ekki sé vitað, hve mikil sú þátttaka verður, þá má gera ráð fyrir, að hlutur ríkissjóðs í væntanlegri sjúkrahússbyggingu á Akureyri verði sennilega nokkuð hærri en hér er farið fram á. En hins vegar mundi ekki vera óeðlilegt, að framlagi ríkissjóðs til þessa yrði dreift á tvö ár og hafa þessa till. ekki hærri, en að hinu leytinu er hún sniðin eftir óskum bæjarstjórnar Akureyrar, sem hefur sent Alþ. beiðni um að taka á fjárl. næsta ár 500 þús. kr. til byggingar sjúkrahúss.

Önnur breyt., sem ég flyt, er undir rómverskum XXVIII á sama þskj. og er við brtt. hv. fjvn. á þskj. 579. Er það 27. brtt. n., um framlag til hafnarmannvirkja. Hv. fjvn. hefur, — auk þess sem hún hefur lagt til að auka allverulega framlag til hafnarmannvirkja, — tekið upp í till. sínar sundurliðaða fjárhæð um, hve miklu fé skuli varið til einstakra staða á landinu. En í þeirri sundurliðun er ekki gert ráð fyrir neinu framlagi til hafnarmannvirkja á Akureyri. Nú er það svo, að á Akureyri eru að vísu gömul hafnarmannvirki, sem reist hafa verið, án þess að ríkissjóður hafi tekið nokkurn þátt í kostnaðinum við þau, því að þau hafa verið reist fyrir þann tíma, sem þau ákvæði voru sett í hafnarl., að ríkissjóður skyldi taka þátt í slíkum mannvirkjum. Nú eru hins vegar á döfinni á Akureyri fyrirætlanir um að reisa ný hafnarmannvirki og á öðrum stað en þau gömlu, vegna þess að gömlu hafnarmannvirkin eru orðin ófullnægjandi fyrir kaupstaðinn. Hafa verið gerðar áætlanir og uppdrættir, sem í aðalatriðum hafa verið samþ. af trúnaðarmönnum ríkisins á því sviði, og hér á þingi hefur nýlega verið samþ. breyt. á hafnarl. fyrir Akureyri, þar sem tekið er fram í samræmi við hafnarmannvirki annarra kaupstaða, að ríkissjóður skuli taka þátt í þeim. Framkvæmdir við þessi nýju hafnarmannvirki eru að vísu skammt á veg komnar enn þá, en þó er aðeins byrjað að byggja brimgarðinn, sem á að lykja um þessi nýju hafnarmannvirki. Það mun vera óhætt að slá því föstu, að á næsta ári verði þessu verki haldið áfram, hversu langt sem því kann að miða, og hlýtur að líða að því, að ríkissjóður verði að taka nokkurn þátt í kostnaðinum við þær framkvæmdir. Þess vegna er það að mínu áliti ekki aðeins rétt, heldur sjálfsagt, að á fjárl. þessa árs verði tekið nokkurt framlag til þessa verks. Ég hef því leyft mér að leggja hér til, að í þessar till. hv. fjvn. verði bætt nýjum staflið, sem væri hafnarmannvirki á Akureyri, 300 þús. kr. — Það má að vísu segja, að sú upphæð sé að nokkru leyti út í bláinn, vegna þess að ekkert liggur fyrir um, hversu miklar framkvæmdir verði á næsta ári, en mér þykir sennilegt, að þær muni ekki verða öllu minni. Þessar 300 þús. kr. mundu svara til lögboðins framlags ríkisins og mér virðist það því í nokkru samræmi við þau fjárframlög önnur, sem fjvn. leggur til nokkurra staða á landinu, t.d. til Akraness 300 þús. kr., og svo að vísu minna framlag til annarra staða, en ég tel Akureyri a.m.k. sambærilega við hina staðina. — Ég vænti þess, að hv. fjvn. og þm. aðrir fallist á að veita nokkurt fé til Akureyrar í þessu skyni og fallist helzt á þá till., sem ég hef leyft mér að flytja hér.

Þá er 3. brtt. undir rómverskum XXXII á sama þskj., við 14. gr. B á fjárl., framlag til byggingar húsmæðraskóla í kaupstöðum. Hv. fjvn. leggur til, að það verði hækkað upp i 400 þús. kr. og að ríkið greiði 3/4 hluta byggingarkostnaðar. Framkvæmdum er þannig komið um byggingu húsmæðraskóla á Akureyri, að byggingin er nú þegar komin undir þak, og í vetur verður haldið áfram innanhúss, og að því loknu er gert ráð fyrir, að skólinn taki þegar til starfa. Það mun þess vegna fara svo, að allt framlag ríkisins skv. l. um byggingu húsmæðraskóla falli í gjalddaga á næsta fjárhagsári. Það hefur verið áætlað af húsameistara ríkisins, að bygging þessa skóla kosti allt að 1 millj. kr. Samkv. því ætti ríkissjóður að leggja fram 750 þús. kr. Nú þegar mun ríkið hafa greitt til þessarar byggingar rúmlega 300 þús. kr., og mundi þá, ef þessi áætlun reyndist rétt, eiga eftir að greiða a.m.k. 400 þús. kr. eða rúmlega það. Nú hefur samkv. því, sem húsameistari áætlaði um kostnaðinn við að koma þessari byggingu undir þak, raunin orðið sú, að kostnaður hefur orðið heldur minni en ætlað var.

Ef eins færi um hlutann, sem eftir er af þessari byggingu, mundi því ef til vill eitthvað lægri sú upphæð, sem ríkið þyrfti að leggja í þetta, heldur en búizt var við. En það, sem ríkið á eftir að greiða til þessarar byggingar og greiðslukræft er samkv. l., er aldrei minna en 300 þús. kr. Ég hef því talið ástæðu til að vekja athygli hæstv. Alþ. á þessu og flyt brtt. um það, að þessi liður verði hækkaður þannig, að hægt væri án þess að rýra fyrirhugað framlag fjárl. til annarra staða í sama skyni, að greiða til byggingar húsmæðraskólans á Akureyri 300 þús. kr., og er það sú fjárhæð, sem greiðslukræf yrði í ár. Legg ég því til, að til byggingar húsmæðraskóla í kaupstöðum verði varið 600 þús. kr. og til húsmæðraskólans á Akureyri 300 þús. kr.

Þá er fjórða brtt. mín, en það er aðeins smávægileg útgjaldaaukning, sem hún mundi hafa í för með sér. Á þskj. 612, XXV er brtt. við till. fjvn. á þskj. 579,55 um framlag til leikstarfsemi. Hv. fjvn. leggur til, að sá liður, sem hér um ræðir, verði orðaður þannig, að veitt verði til leikskóla Lárusar Pálssonar 3500 kr., Soffíu Guðlaugsdóttur 2500 kr. og Jóns Norðfjörðs 2 þús. kr. Ég álít, að það sé ekki ástæða til þess að styrkurinn til leiklistarstarfsemi Jóns Norðfjörðs sé lægri en sams konar styrkur til Soffíu Guðlaugsdóttur, og hef ég því leyft mér að flytja till. um, að þessi upphæð til Jóns Norðfjörðs hækki um 500 kr., úr 2 þús. kr. upp í 2500 kr. — Einn fjvn.- maður hefur sagt mér, að þessi till. um styrk til Jóns Norðfjörðs sé miðuð við það, sem hann hafi sjálfur beðið um, hann hafi farið fram á 2 þús. kr. En mér er kunnugt um það, að þessi beiðni Jóns var fram komin vegna þess, að hann var óánægður með það, að á fjárl. síðasta árs fékk hann mun lægri upphæð en Soffía Guðlaugsdóttir, og þegar hann sendi þessa umsókn, hafði hann miðað við, að þeim yrði á fjárl. næsta árs gert jafnhátt undir höfði, og nefndi hann því 2 þús. kr., þá upphæð, sem Soffía hafði fengið á síðustu fjárl. Nú hefur n. hækkað upphæðina til hennar um 500 kr., en hefur ekki um leið bætt við Jón. En mér þykir sennilegt, að hv. fjvn. og hv. þm. muni geta fallizt á að bæta þessum 500 kr. einnig við Jón. Ég skal geta þess, að nú í vetur gefur Jón Norðfjörð sig eingöngu að leiklistarstarfsemi í Hafnarfirði sem leikstjóri við leiksýningar þar og heldur jafnframt uppi leikskóla, sem hefur mikla aðsókn. Hann hefur,því einnig mikið að gera vegna þeirrar starfsemi. Ég álít því, að það sé réttmætt, að honum sé greiddur nokkur styrkur fyrir þá starfsemi og hann sé ekki metinn minna, hvað þetta snertir, en leikskóli Soffíu Guðlaugsdóttur, sem ég hygg, að megi leggja að jöfnu við leikskóla Jóns.

Að lokum er hér síðasta brtt. mín, sem er einnig síðasta brtt. á þskj. 612, og er hún um það, að á heimildargr. verði veitt heimild til þess að greiða 50 þús. kr. sem stofnkostnaðarstyrk til vatnsveitufélags Glerárþorps. Það má segja, að það hafi ekki verið venja, að ríkið legði fram fé til vatnsveitna í bæjum eða þorpum. Þó mun það hafa komið fyrir, að það hafi verið gert áður. Ég held, að á fjárl. s.l. árs hafi verið veitt upphæð til vatnsveitu í Grímsey, og einnig er nú í till. ríkisstj. heimilað að greiða fé til vatnsleitar í Vestmannaeyjum. En ég held, hvað sem líður venju um þetta, að þannig standi á um þessa vatnsveitu fyrir Glerárþorp, að full ástæða sé til þess, að ríkið hlaupi þar undir bagga. Það háttar svo til í Glerárþorpi, að vatnsból eru engin önnur en brunnar, sem voru slæmir, og var búið að ræða um það, fyrst af fyrrv. landlækni og nú hin síðari ár af núv. landlækni, að af þessum vatnsbólum stafaði mikil sýkingarhætta fyrir íbúa Glerárþorps og hluta af Glæsibæjarhreppi. Íbúar Glerárþorps hafa ekki talið sig hafa bolmagn til þess að fara að leggja vatnsveitu í þorpið, en þó varð það úr eftir miklar bollaleggingar, að þorpið sótti um að mega taka vatn úr vatnsleiðslu Akureyrar og leiða það um þorpið. Það var svo hafizt handa um þetta, þegar komið var fram á haust á s.l. ári (1943). Vatnsveitufélagið hafði þá pantað efni, til þess að hægt væri að hefjast handa, og var farið að grafa skurði fyrir vatnsæðarnar. Nú fór svo, þegar búið var að grafa mikið af þessum skurðum, að pöntunin fékkst ekki afgr., þannig að ekki var hægt að halda verkinu áfram, svo að á s.l. vetri féllu þessir skurðir að miklu leyti saman, og varð að vinna það verk aftur á s.l. sumri. Þetta verk varð þess vegna miklum mun dýrara en áætlað hafði verið, þegar í það var ráðizt, og hafði þó Glerárþorpsbúum, sem eru fátækir menn, vaxið í augum sá kostnaður, sem í fyrstunni hafði verið áætlaður. En þessi vatnsveita fyrir 76 heimili, sem öll eru fátæk heimili, hafði kostað samkvæmt yfirliti, sem formaður vatnsveitufélagsins hefur sent með erindi um styrkbeiðni, 160 þús. kr. rúmlega. Þetta fé hefur svo vatnsveitufélagið orðið að taka að láni, eða 150 þús. til 20 ára. Samkvæmt yfirliti, sem form. vatnsveitufélagsins hefur látið í té, mun árlegur kostnaður . af vatnsveitunni, vextir og afborganir af þessu láni og lítils háttar innheimtukostnaður og eftirlit með vatnsveitunni, þó ekki áætlaður nema 2800 kr., verða um 15 þús. kr. Fasteignamat þeirra býla, sem þarna eiga hlut að máli, mun vera um 308 þús. kr., og sá vatnsskattur, sem yrði að leggja á, ef farið yrði eftir því að leggja á fasteignamat þeirra býla, eins og venja er í kaupstöðum, til þess að standast þennan kostnað mundi því verða um 4,6% af fasteignamati. Til samanburðar skal ég geta þess, að á Akureyri er vatnsskattur 1,5% af fasteignamati. Nú er í þessu ekki gert ráð fyrir neinu viðhaldi, sem þó er óhjákvæmilegt, þannig að með því þykir mér sennilegt, að vatnsveitufélagið yrði að leggja á skatt, sem næmi allt að 6% af fasteignamati þessara býla. Þess vegna er sjáanlegt, að það er erfitt fyrir þetta fátæka vatnsveitufélag að standa undir þessum kostnaði, sem í fyrsta lagi hefur orðið mikill vegna þess, hvað þessi býli eru strjál og liggja óreglulega, og verða því leiðslurnar að vera tiltölulega lengri en í kaupstöðum yfirleitt. Þar við bætast svo óhöpp eins og það, að þurft hefur að vinna verkið tvisvar sinnum vegna ást2eðna, sem íbúar þorpsins gátu á engan hátt ráðið við. Þetta fyrirtæki verður því svo dýrt fyrir þetta félag, að ég tel sanngjarnt, að ríkið hlaupi þarna undir bagga. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja til, að ríkið greiði 50 þús kr. sem stofnkostnað til vatnsveitunnar, því að 30% af stofnkostnaði mun þykja ríflegt, en fyrir ríkið er þetta ekki há upphæð, en mundi hins vegar auðvelda fólkinu, sem þarna á hlut að máli, að standa undir því, .sem þá er eftir af stofnkostnaðinum, og gera því kleift að halda því mannvirki við og fá með viðráðanlegu móti neyzluvatn, sem því er óhjákvæmilegt að fá.

Eftir að ég lagði fram þessa till., sá ég, að þm. Eyf. hafa einnig flutt till. um styrk til þessarar vatnsveitu. Að vísu er þar tiltekin nokkru lægri upphæð eða 20 þús. kr., og þeir hafa flutt hana sem brtt. við einn lið á fjárl., en þar sem till. mín gengur lengra, ætti hún að vera borin upp fyrr, en það mun ekki vera hægt að gera það, ef hún er miðuð við grein, sem kemur síðar á fjárl. Ég mundi þess vegna vilja fá tækifæri til þess að breyta till. þannig, að hún sé flutt sem brtt., og vildi ég spyrja hæstv. forseta, hvort hann vildi taka það til greina, að ég flytti um það sérstaka brtt., og mundi ég þá í staðinn fyrir að taka til 22. gr. flytja þetta sem sérstaka brtt. við i6. gr., a, 9, eins og till. hv. þm. Eyf. er flutt. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.

Ég vildi að lokum vekja athygli á því, að þær þrjár af brtt. mínum, sem hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, eru allar fluttar á grundvelli laga, sem þegar eru að taka gildi, tvær þeirra samkv. l., sem þegar eru í gildi, en sú þriðja er flutt á grundvelli frv., sem nú liggur fyrir þinginu og væntanlega verður afgr. bráðlega sem lög. Þær binda því ríkissjóði ákveðinn bagga á þá leið, sem till. fjalla um, og þær framkvæmdir, sem hér um ræðir, eru allar þegar á leiðinni, þannig að það virðist óhjákvæmilegt fyrir ríkið að taka upp á næstu fjárl. fjárveitingu til þessara framkvæmda. Hinar tvær till. eru um miklu minni fjárhæð, og ég vænti þess, að um þær gæti líka orðið nokkurt samkomulag.