02.02.1945
Sameinað þing: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í D-deild Alþingistíðinda. (6186)

205. mál, ríkið kaupi húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg í Reykjavík

Sigurður Einarsson:

Herra forseti. — Ég er svipaðrar skoðunar og hv. flm. um það, að æskilegt sé, að opinber aðili, ríkið eða Reykjavíkurbær, eigi í framtíðinni að eiga þá lóð, sem um ræðir í þessari till.

Ég hef þess vegna ekki af þeim rökum, sem fram hafa verið færð í þessu máli nú, getað sannfærzt um það, að brýna nauðsyn beri til, að ríkið fari að taka á sig milljónaútgjöld í þessu sambandi.

Meginröksemdir hv. flm. eru tvær. Í fyrsta lagi, að hætta sé á því, að þessi glæsilega húseign á þessum fallega stað muni lenda í braski, og í öðru lagi, að hætta sé á því, að einhver ótiltekinn erlendur aðili muni komast yfir hana. En mér finnst hér skjóta nokkuð skökku við hjá hv. flm., þar sem hann annars vegar ræðir um það í grg. till. á þskj. 851, hve merkilegur og þjóðnýtur aðili eigi hér hlut að máli, þ. e. templarafélagið, en hins vegar vill hann svo, að þeir selji húsið ofan af sér.

Ég held, að ef það er þannig, sem ég efast ekki um, að reglan, sem á húsið, eða einstakir menn innan hennar, starfar á jafnvíðsýnum grundvelli og þar er gefið í skyn, þá sé mjög óvarlega ályktað hjá hv. flm. að telja svo mjög mikla hættu á því, að þeir menn láti þessa glæsilegu eign lenda í braski, og ég álít, að hv. þm. verði beinlínis að telja þann möguleika mjög fjarlægan, að hin virðulega stofnun, sem á þetta hús, fari að braska með það. Þessi stofnun hefur notið ríkisstyrks um langt skeið, og ég held, að það mundi ekki þykja heiðarlegt af reglunni, sem komizt hefur nú yfir þessa ágætu eign, að fara í gróðabrall með hana. Ég er viss um, að reglan mundi við það bíða mikinn hnekki meðal almennings í landinu, ef hún færi út á slíka braut, og er þó svo að sjá, sem hv. flm. sé sannfærður um, að þetta sé yfirvofandi og núverandi eigendur hússins muni ætla sér að leggja á næstunni út í mjög varhugavert gróðabrall með þessa eign.

Ég er því þess vegna mótfallinn, að hæstv. ríkisstj. verði heimilað að gera jafnlítilmannlega og raunar heimskulega ráðstöfun.

Þá kem ég að öðru atriði þessa máls, og það er fjárhagsleg hlið þess. Hæstv. forsrh. lýsti yfir því, að um það hefði verið rætt að selja húseignina við Fríkirkjuveg 11 fyrir 1½ millj. kr., og ef ríkið færi að kaupa hana nú, yrði það að greiða það verð fyrir hana. Ég vil benda á, að það er ekki eingöngu þetta fé, sem hæstv. ríkisstj. mundi koma til kostnaðar, ef till. yrði samþ., því að jafnhliða því, að hv. flm. flytur þessa till. um að heimila ríkisstj. að kaupa þessa eign, flytur hann aðra till., sem er líkleg til þess að geta kostað ríkissjóð annað eins eða jafnvel meira. Þessi till. á þskj. 851 fer sem sé fram á stuðning til handa templurum, og er sú till. afleiðing hinnar fyrri. Þegar ríkið er búið að kaupa Fríkirkjuveg 11 fyrir 1½ milljón kr., á það að fara að byggja fyrir templara. Þá eru þeir komnir svo á vonarvöl, að ríkissjóður verður að hlaupa undir bagga með þeim og byggja yfir þá. Við vitum, hvað myndarleg fundarhúsbygging kostar nú á tímum í þessari borg. Ég vil benda á, að afleiðing þess að fylgja till. hv. þm. S-Þ. í þessum efnum, mundi verða a. m. k. 3 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð.

Þetta er atriði, sem einnig verður að líta á í þessu sambandi.

Aðferðin er einkennileg út af fyrir sig, og mætti um hana fara nokkrum orðum, en ég vil þó ekki gera það tímans vegna.

Skal ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en legg til, að þetta mál verði betur athugað, áður en þær till. hljóta samþykki, sem fram eru bornar af hv. þm. S-Þ.