07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

143. mál, fjárlög 1945

Ásmundur Sigurðsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 612, sem ég vildi fara um örfáum orðum. Í fyrsta lagi er það þá um mikinn farartálma fyrir vegasamgöngur frá Skaftafellssýslu til Austurlands. Fyrir nokkrum árum var byrjað að leggja veg frá Fljótsdalshéraði að Hornafjarðarfljóti, og er þessi vegur nú kominn að Berufirði, og ætlunin mun vera, að bílferja komi yfir hann. Síðan er vegur frá Djúpavogi alla leið að Hornafirði, en stærsta vatnsfallið á þeirri leið er Jökulsá í Lóni. Ég hef ekki flutt till. um að brúa hana, en fjárveiting er um vegarkafla að henni og annan að Laxá, sem óhjákvæmilegt verður að brúa, áður en farið er að hugsa til þess að brúa Jökulsá í Lóni. Jökulsá er þó stærsti farartálmi þess, að hægt sé að koma Skaftafellssýslu í samband við Austurland, og þegar Skaftfellingar tala um, hver þeim þykir nauðsynlegasta samgöngubótin á landi, þá er það fyrst og fremst það, að þetta vegasamband komist á. Af því að þessi brtt. um brú á Laxá er ekki hærri en 60 þús. kr., geri ég mér miklar vonir um, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að taka þessa fjárveitingu upp til þess að ljúka af einum áfanga á þeirri leið, að Skaftafellssýsla geti komizt í vegasamband við Austfirði.

Svo er till. um hækkun til hafnargerðar í Höfn í Hornafirði. Það er nú svo um Höfn í Hornafirði, að þær hafnarbætur, sem þar eru gerðar, eru ekki eingöngu fyrir Skaftafellssýslu, heldur eru þær einnig mikið fyrir aðra. Það er kunnugt, að Höfn er mikil verstöð, og nú um tvo áratugi hafa vélbátar frá Austfjörðum stundað þar fiskveiðar á vertíðinni.

Mér er kunnugt um, að Austfirðingar telja sér mikils virði að geta stundað útgerð á vetrarvertíð frá Hornafirði. Nú er það svo, að þarna í Hornafirði eru skilyrði slæm, sérstaklega það, að ekki er hægt að hafa þar stóra vélbáta. En væri höfnin bætt og gerður sandvarnargarður fyrir vélbátalægi, mætti hafa þar 40–50 tonna vélbáta og þar með skapa skilyrði til þess, að þessi verstöð gæti orðið að miklu meira gagni en nú er. Gæti þá miklu meira verðmæti orðið skilað þar á land en nú er. Þess vegna má telja hafnargerð þessa mjög mikið framfaramál fyrir Skaftfellinga og fyrir Hornafjörð. En hins vegar vil ég benda á það, að sá aðili, sem þarna á hlut að máli, er tiltölulega fámennur staður, og það er mikið í ráðizt fyrir fámennan hrepp að leggja í hafnarbætur fyrir 1 millj. kr. Það er þess vegna ekki ófyrirsynju, að farið er fram á að hækka nokkuð þessa fjárveitingu, til þess að fremur sé hægt að ætlast til þess, að hreppurinn vilji verja fé til þess að koma þessu verki eitthvað áleiðis. En aftur á móti má vænta þess, að þegar fé safnast fyrir í hafnarsjóði, þá sé fært að leggja fé fram á móti í þessu skyni, svo að hafizt verði handa um framkvæmdir. Þetta virðast vera hóflegar till., og vona ég, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þær. — Hef ég svo ekki meira um þetta að segja.