07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

143. mál, fjárlög 1945

Sigurður Þórðarson:

Herra forseti. — Við hv. 2. þm. Skagf. flytjum brtt. á þskj. 612, merkt rómverskum XVI. Þessi brtt. er um að fella inn á fjárl. fjárveitingu fyrir brú á Svartá hjá Mælifelli í Skagafirði. Þar, sem þessi brú á að koma, er ríkissjóðsvegur og sýsluvegur. Það er svo, að brú á Svartá hefur verið tekin inn í brúal., og var þá mikil nauðsyn á, að slík brú kæmi, en nú má það teljast lífsnauðsyn, þar sem svo hagar til, að mæðiveikin hefur herjað byggðina. Og til þess að byggðin geti þrifizt, verður brúin að koma, því að án brúar verður ekki unnt fyrir bændur að breyta búskaparháttum sínum þannig, að þeir geti framleitt mjólk.

Nú er það svo, að bændur eru staðráðnir í því að gera veg, hvað sem það kostar, handan árinnar, en sá vegur er til einskis gagns, nema brú komi á Svartá. Er talið líklegt, að slík brú mundi kosta nálægt 60 þús. kr. Hafa okkur þm. borizt fjöldamargar undirskriftir og áskoranir um að leggja allt kapp á, að fé fáist til þessarar brúargerðar, og gerum við það hér með. Raunar má segja, að einhvers staðar sé meiri þörf fyrir brýr en þarna, en ég vil undirstrika það, að óvíða er meiri þörf fyrir brú en á þessum stað, þar sem annars má telja víst, að þessi blómlega byggð biði svo mikinn hnekki í framtíðinni, að ekki verði á skömmum tíma bætt það tjón.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta. Ég veit, að hv. þm. skilja nauðsyn þessa máls, og vænti, að hv. fjvn. taki þetta á ný til athugunar og sjái sér fært að verða við þessum óskum.