30.01.1945
Sameinað þing: 89. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í D-deild Alþingistíðinda. (6246)

275. mál, rafveitulán fyrir Hofshrepp

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Herra forseti. — Ég hef leyft mér, ásamt hv. 2. þm. Skagf., að bera hér fram till. til þál. um ríkisábyrgð á rafveituláni fyrir Hofshrepp í Skagafjarðarsýslu, á þskj. 956. — Þarna hagar svo til, að hugsað er að veita saman tveimur ám, önnur er Hofsá, sem rennur í gegnum Hofsós, en hin áin rennur til sævar mjög skammt frá kauptúninu. Og þegar þessum tveimur ám hefur verið veitt saman, er hugsað, að hægt verði að fá 550 hestafla orkustöð.

Það er gert ráð fyrir, að orkustöðin, sem um ræðir í þáltill., kosti um 1.400.000 kr. — Það er þéttbýlt í kringum Hofsós, en kauptúnið er lítið. Og hugsað er, að þetta afl nægi fyrir næsta nágrenni kauptúnsins, Óslandshlíðina. Og þess er vænzt, eftir þeim útreikningum, sem Rafmagnseftirlit ríkisins hefur gert, — og þessir útreikningar eru prentaðir sem fylgiskjal með þáltill. —, að kostnaðaráætlunin komi til með að standast nokkurn veginn.

Þörfin fyrir að fá rafmagnið þarna er mikil. Og við flytjum þessa till. samkvæmt endurteknum áskorunum. Málið hefur verið flutt fyrr, en ekki náð fram að ganga. Og við höfum ekki séð ástæðu til annars en að flytja þessa till., samkv. ósk kauptúnsins og nágrennis þess, enn hér á hæstv. Alþ., þótt nokkuð sé liðið á þingtímann, og væntum við þess, að málið fái svipaða afgreiðslu og nú á þessu þingi hefur verið höfð um svipaðar ábyrgðarbeiðnir.

Ég óska svo, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til hv. fjvn., og býst ég við, að hv. fjvn. reyni að stilla svo til að geta afgreitt það svo fljótt sem hægt verður, svo að það nái fram að ganga, áður en þessu þingi lýkur.