12.02.1945
Sameinað þing: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í D-deild Alþingistíðinda. (6254)

281. mál, bygging vegna hæstaréttar

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hef leyft mér að flytja þessa till. á þskj. 108 til þess að minna Alþingi og ríkisstj. á húsnæðisvandræði hæstaréttar. Nú stendur svo á, að þessi stofnun á 25 ára afmæli sitt eftir fáa daga. Væri þá vel viðeigandi, að þing og stj. gæti með þessum hætti eða öðrum tekið ákvörðun á þann veg, að Hæstaréttur fengi þolanleg starfsskilyrði, en það hefur hann aldrei haft. Það má segja, að það hafi verið vítalaust, þó að ekki hafi verið byggt yfir hæstarétt þegar á hans fyrstu árum, en nú er drátturinn á því orðinn óhæfilega langur.

Það eru því miður ekki neinar líkur til, að hægt sé að ganga þannig frá þessu máli nú, að hægt sé að hefja byggingu á framtíðarhúsnæði fyrir Hæstarétt, en samt sem áður eru menn í þessum bæ, þótt þeir séu ekki frá Hæstarétti, sem eru kunnugir húsakynnum dómstólsins, sem álíta framkvæmanlegt að byggja við Arnarhvol viðbótarbyggingu, þar sem Hæstiréttur gæti fengið sæmilegt bráðabirgðahúsnæði, en þessi bygging yrði að öðru leyti notuð fyrir skrifstofur fyrir opinberar stofnanir. Nú mun hafa verið um það talað, sem mér er ekki kunnugt um, að hæstv. stj. hafi í hyggju að byggja fljótlega á þessum stað viðbót við stjórnarráðið bráðabirgðabyggingu eins og Arnarhvoll er. Getur það farið saman, því að lóðin er það stór, að allt, sem hæstv. stj. kynni að vilja byggja á þessum stað, rúmast þar, þó að Hæstiréttur sé þar líka. Hann þarf ekki gífurlegt húsrúm, en það þarf að vera sniðið eftir þörfum réttarins og frambærilegt fyrir þjóðina.

Ég held, að ég verði að segja tvennt viðvíkjandi þessu húsnæði. Fyrst er það, að það er svo þröngt, að það fer óhæfilega illa um dómarana og málafærslumennina, og þeir fáu gestir, sem þar koma til að hlusta á dóma, þjást af loftleysi. Aðstaða þarna er þannig, að dómararnir geta ekki látið sjá sig á þessum stað með mönnum, sem gera kröfur til, að dómar hafi sæmileg húsakynni. Það hefur einstöku sinnum komið fyrir, að dómarar frá útlöndum hafa komið hingað til að hitta sína líka hér, og þá hefur það verið úrræði þeirra að taka á móti þeim á einkaheimilum sínum, af því að þeir hafa ekki með nokkru móti viljað láta þessa ókunnu menn sjá þá íbúð og þau skilyrði, sem okkar æðsti dómstóll hefur við að búa. Þetta tvennt, að þessi húsakynni eru óhæf fyrir dómara, málfærslumenn og áheyrendur og að óhugsandi er að láta nokkurn aðkomumann sjá réttinn, sýnir glöggt, að ekki verður lengur við þetta unað. Það getur verið, að þing og stjórn sjái einhver önnur betri úrræði en það, sem ég sting upp á hér, en þá er komin hreyfing á málið, og ef hæstv. stj. hugsar sér að byggja hvort sem er, þó að það sé ekki mitt að leggja henni ráð, þá getur hún útvegað sér þinglega heimild um leið til að láta reisa þessa byggingu.