12.02.1945
Sameinað þing: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í D-deild Alþingistíðinda. (6256)

281. mál, bygging vegna hæstaréttar

Hermann Jónasson:

Ég held, að það sé full þörf á að minna á það, eins og nú hefur verið gert, að lagfæra þurfi húsakynni Hæstaréttar. Það er að vísu ekki neinn ágreiningur um það, enda kemur það fram af þeim ræðum, sem þeir hafa flutt, hv. þm. S-Þ. og hæstv. dómsmrh., að húsakynni þar upp frá eru algerlega óviðunandi.

Það er aðallega tvennt, sem ég vil minna hér á, án þess að hefja langar umr., því að um það eru allir sammála, sem til þekkja, að þarna er umbóta þörf. En viðkomandi því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, vil ég segja það, að ég efast um, að hægt sé að lagfæra gamla fangahúsið, ég efast um, að hægt sé að gera það að sæmilegu skrifstofuhúsnæði fyrir Hæstarétt eða yfirleitt að viðunandi húsnæði. Stafar það af því, að þetta hús er þannig byggt, eins og það hús, sem við nú dveljum í, að það er mikill vafi, að hægt sé að koma í veg fyrir það loft, sem er í þessu húsi og maður verður var við í báðum þessum húsum og enn þá meira í húsinu þar upp frá. Það stafar af jarðraka, sem löngu er fyrirbyggður í nýtízku byggingum, en erfitt er að fyrirbyggja í fangahúsinu. Það eru allir sammála um það, sem hafa starfað þarna í ár eða áratugi, eins og ég hef gert, að þeir finni þar til óvenjulegrar þreytu, og undan því kvarta allir, sem þar starfa, bæði dómarar og málfærslumenn. Þetta stafar af saggalofti, sem kemur af raka úr steininum, sem þetta hús er byggt úr. Þetta er eitt af því, sem reynt er að fyrirbyggja í nýtízku húsum, en þó verður stundum vart við það í steinhúsum, að þetta tekst ekki.

Svo er annað, og það er það, að salirnir, sem eru til umráða í þessu húsi, eru svo litlir, að þeir eru allsendis óviðunandi fyrir Hæstarétt. Og þó að lögmaður og sakadómari fari úr húsinu og bæjarþingstofan, sem er hinum megin í því, þá verður húsnæðið samt sem áður óviðunandi fyrir Hæstarétt vegna þrengsla, og í þriðja lagi er það ákaflega leiðinlegt, svo að ekki sé meira sagt, að hafa húsakynni Hæstaréttar í fangahúsi. Það eru því þrjú atriði, sem gera þetta algerlega óviðunandi, og það er mjög leiðinlegt, þó að við höfum orðið að búa við það, og getur þar enginn öðrum láð. Og ef á að stækka dómssalinn við það, að sakadómari og borgardómari hverfa burt úr húsnæðinu hinum megin við ganginn, þá vita gluggarnir á dómssalnum út að fangagarðinum, þar sem fangarnir fá að ganga um vissan tíma á dag, en nú vita skrifstofur réttarins út að þessum garði. Það er því margt, sem veldur því, að þarna getur ekki orðið viðunanlegt húsnæði fyrir Hæstarétt, jafnvel þótt tækist að útrýma rakanum, sem ég efast mjög um. Þetta húsnæði er því, hvernig sem á þetta er litið, alveg óviðunandi og verður að breyta til.

Svo er annað, sem ég vil beina til hæstv. ríkisstj., að nú er verið að tala um að byggja við Arnarhvol, og er ekki nema gott eitt um það að segja, því að þetta er mjög viðunanleg lóð, og vil ég þá beina því til hæstv. ríkisstj., hvort nú sé ekki hægt að ljúka svo áætlunum og teikningum fyrir skrifstofubyggingu þá, sem á að reisa í Lækjargötunni, svo að það sé hægt að byrja á að byggja það hús, undireins og stj. byrjar á að reisa skrifstofubyggingar. Það ætti ekki að þurfa að byggja það allt í einu, en mætti byggja það smátt og smátt. Ég sé sérstaka ástæðu til að vekja athygli á þessu vegna þess, að það stendur nú til að taka eitt af þessum húsum, sem er við Lækjargötu, Gimli, og gera við það. Kunnugir menn fullyrða, að viðgerðin á því muni kosta mikið á þriðja hundrað þúsund krónur. Það er eins og menn vita, að þegar verið er að gera við gömul hús, þá kostar slík viðgerð ótrúlega mikinn hluta af því, sem kostar að byggja að nýju. Þetta er skiljanlegt, þegar tekið er tillit til þess, að það er ekki meira en ¼ af kostnaðarverði húss að gera það fokhelt, hitt er vinna við innréttingar og annað slíkt, og þegar farið er að gera við hús eins og Gimli, þá veit maður, að sú viðgerð kostar nærri því eins mikið og að byggja nýtt hús. Húsin á þessum lóðum eru því öll þannig, að þau eru raunverulega ónýt hús. Maður sér því, þó að ekki sé athugað annað en þetta, að það er ekki undarlegt, sem hæstv. dómsmrh. upplýsti, að lítils háttar viðgerð á fangahúsinu mundi kosta 140 þús. kr.

Ég vil þess vegna beina því til hæstv. stj., hvort hún gæti ekki látið ganga frá áætlunum og teikningum af þeim byggingum, sem reisa á við Lækjargötuna, og þegar hafizt verður handa um skrifstofubyggingar fyrir ríkið, þá verði byrjað þar, og ég er því einnig sammála, að einmitt þar verði húsakynni Hæstaréttar. Það er hægt að koma miklu fyrir á þessum lóðum, og þarf ekki að rekja það hér, en ég vil einmitt gjarnan, ef hæstv. dómsmrh. er við því búinn, að hann gæti gefið upplýsingar um, hvort þessi hlið málsins hefur verið athuguð, að ef skrifstofubygging verður reist, þá verði það í Lækjargötu. Það má segja, að það sé mjög aðkallandi að breyta Lækjargötu á þann hátt, sem gera á, hún er ein af fegurstu götum bæjarins og væri mikil bæjarprýði, ef það væri gert. Það má enn fremur bæta því við, að það verður að opna augu manna fyrir því, sem menn virðast almennt vera blindir fyrir, að mikið af byggingunum í miðbænum eru ónýtar byggingar, þar eru í raun og veru lóðir með verðlitlum timburhúsum og mundi áreiðanlega margborga sig fyrir eigendur þeirra húsa að rífa þau og byggja upp aftur þau hús, sem á við á þessum lóðum, og ég hygg, að ef ríkið hefst handa að rífa þessa kumbalda við Lækjargötuna, þá mundi ýmislegt fleira þar á eftir koma, sem koma þarf viðvíkjandi byggingum í miðbænum.