12.02.1945
Sameinað þing: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í D-deild Alþingistíðinda. (6258)

281. mál, bygging vegna hæstaréttar

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Það getur verið, að metnaður minn fyrir mína þjóð sé ekki mikill (JJ: Ég held einmitt, að hann sé það.), en ég hygg, að það sé nokkuð það sama um þá tvo hv. þm., sem nú hafa talað hér, að þeir hafa báðir verið dómsmrh., annar í átta, en hinn í tvö eða þrjú ár, og það sé hægt að gera samanburð á mínum metnaði og þeirra fyrir þjóð okkar gagnvart Hæstarétti. (HermJ: Ég var ekki að deila á hæstv. ráðh.) Ég er ekki heldur að deila á hann, en bendi aðeins á þetta út af ummælum hv. þm. S-Þ., að þessir ágætu fyrirrennarar mínir hafa ekki haft þann metnað fyrir þjóð sína að byrja á fyrstu mánuðum sinnar embættistíðar að undirbúa dómssal handa Hæstarétti. Þeir hafa báðir til samans verið dómsmrh. í 11 ár (JJ: Talsvert meira.), en það hefur samt ekki verið nógu langur tími til að opna augu þeirra fyrir þessu mikla metnaðarmáli fyrir þjóðina, eins og hv. þm. S-Þ. tók til orða. Ég er þeirrar skoðunar engu síður en hv. þm. S-Þ., að á málinu þyrfti að gera bráðar umbætur. En einn fyrsta daginn, sem ég gegndi ráðherraembætti, kom til mín dómstjóri Hæstaréttar og flutti frá réttinum skilaboð, að mér virtist, um að dómararnir óskuðu ekki eftir að komast í bráðabirgðahúsnæði. Vitanlega erum við aðeins tveir til frásagnar um þetta, og hér segi ég einn frá, svo að hv. þd. þarf ekki að gera meira með frásögn mína en hún vill, meðan ókomin eru skrifleg svör Hæstaréttar. Ég neita því að hafa farið hér með villandi upplýsingar. Það var lögð áherzla á, að húsnæði réttarins væri óviðunandi, en ekki óskað eftir öðru húsnæði nema það gæti orðið vandað og réttinum algerlega samboðið.

Hv. þm. Str. talaði um, hvort húsameistari ríkisins gæti nú ekki lokið uppdráttum ríkisbygginga við Lækjargötu og þar mætti ætla Hæstarétti stað. Ég hygg, að það væri æskilegur staður. En ég get ekki séð, að húsameistari, sem unnið hefur nokkuð að þeim uppdrætti undanfarin missiri, geti með neinu móti lokið honum nú. Staðið hefur á því í marga mánuði, að hann gæti lokið uppdrætti af fæðingardeild Landsspítalans. Því verki var lokið fyrir mánaðamótin. Þá fól ég húsameistara að gera útboðslýsing fæðingardeildarinnar, en við það þarf hann stoð iðnlærðra manna, og tekur það tíma. Þá kemur á lóð Landsspítalans hjúkrunarkvennaskóli, og ekki má dragast til næsta árs að reisa viðbótarbygging við Klepp. Þetta bindur starf húsameistarans á næstunni. Leitazt hefur verið við að fá honum aukna aðstoð, en innan lands er það ekki hægt, að ég hygg. Leitað hefur einnig verið meðal pilta, sem byggingarnám stunda erlendis, en engir fengizt fyrir þau laun, sem ríkisstj. hyggst að greiða fyrir þessa aðstoð.

Hv. flm. spyr, hvaða form ríkisstj. ætli að hafa á því, ef hún reisi stórbyggingu við Arnarhvol. Ef úr því verður, mun stjórnin leita fyrir sér, hvort slík framkvæmd hafi þingfylgi.

Mér væri sönn ánægja að því að hafa forgöngu um, að sæmilega yrði byggt yfir Hæstarétt, þegar Alþ. veitir til þess fé. En þessa till. er tæplega hægt að afgr. án þess að heimila annaðhvort fjárgreiðslur eða lántöku til framkvæmda.

Ég styð það, að umr. verði frestað og till. vísað til nefndar.