08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

143. mál, fjárlög 1945

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ég á ásamt hv. samþm. mínum nokkrar brtt., sem allar eru á þskj. 612. Skal ég nú fara um þær nokkrum orðum.

Fyrsta brtt. er við brtt. fjvn., að í staðinn fyrir „Lágheiðarvegur“ komi „Ólafsfjarðarvegur“. Hér er ekki um neina útgjaldahækkun að ræða, heldur aðeins orðabreyt.

Næstu tvær brtt. eru einnig við brtt. fjvn. Leggjum við þar til, að framlög til tveggja vega verði hækkuð úr 10 þús. kr. í 15 þús. kr. til hvors. Þessi till. er borin fram til samræmis við það, sem fjvn. leggur til, að slíkir héraðsvegir fái 15 þús. kr. Ég veit ekki, hvers vegna þessir tveir vegir hafa orðið svona út undan.

4. brtt. er um að hækka framlag til Laugalandsvegar upp í 60 þús. kr. og til vara 40 þús. Vegur sá, sem hér er um að ræða, liggur fram Eyjafjörð vestariverðan og er nærri því kominn fram að brú, sem er yfir Eyjafjarðará við Möðruvelli. Mjólkurflutningar þurfa að fara niður á Eyjafjarðarbrú eða fram á brúna við Möðruvelli. Er mikil nauðsyn að koma veginum áfram til að geta farið yfir ána á hvorum staðnum, sem er. — Þá er b-liður þessarar till., 70 þús. kr. til Litla-Árskógssandsvegar. Ég skil ekki, hvernig þessi vegarspotti hefur alltaf orðið út undan. Þetta er þjóðvegur, sem aldrei hefur verið lagður einn eyrir til. Annars liggja hjá hv. fjvn. meðmæli með þessum vegi, sem er ekki nema rúmir tveir km, en eftir honum fara allir flutningar landleiðis frá Akureyri til Hríseyjar. Meðan þessi spotti er ekki bílfær, verður að ganga frá Litla-Árskógssandi og upp á aðalveginn. Nú hefur verið mælt fyrir veginum, en hann ekki fengizt lagður. Vegamálastjóri hefur upplýst, að vegurinn muni kosta nú 70 þús. kr. En þannig hagar til, að á vetrum er ekki hægt að fara veginn, þó að ekki séu miklir snjóar, því að vegurinn liggur á gilbarmi, og því ekki viðlit að fara hann með bílum þá leið. Ég vil upplýsa það og skjóta því til hv. frsm. fjvn., að það hefur gleymzt að leggja fé til þessa vegar. Hreppsn. ætlaði á s.l. sumri að fá fé til þessa vegar, en þá var lýst yfir því af hæstv. fyrrv. fjmrh. og vegamálastjóra, að því mætti treysta, að lagt yrði fé til þessa vegar. Nú mælir vegamálastjóri með veginum, en n. vill ekki enn þá taka neitt tillit til þess. Ég legg því mikla áherzlu á, að hv. fjvn. mæli með því, að þessi upphæð verði samþ.

14. brtt. er um fjárveitingu til að smíða tvær brýr, á Hofsá í Svarfaðardal og Torfufellsá í Eyjafirði. Ég skal viðurkenna, að það er meiri nauðsyn á að brúa Hofsá en Torfufellsá, vegna þess að meðan Hofsá er óbrúuð, þá er ekkert viðlit að hafa neina mjólkurflutninga úr heilu byggðarlagi, Skíðadalnum. Þetta er ekki stór á, en þó er oft ekki hægt að komast yfir hana nema með erfiðismunum. Um Torfufellsá er það að segja, að fyrir framan hana er lítil byggð, en yfir hana er fyrirhugaður vegur fram úr Eyjafirði, og Ferðafélag Akureyrar er búið að leggja veg upp úr firðinum. En þessi á er ekki bílfær, svo að það er ekki ófyrirsynju, þó að hún verði brúuð.

XXIX. till. er um fjárveitingu til bryggjugerðar á Litla-Árskógssandi, 25 þús. kr., og í Rauðuvík, 15 þús. kr. Nú er byrjað á bryggjugerð á Hauganesi, og leggur fjvn. til, að 25 þús. kr. verði veittar til hennar. Á Hauganesi var bryggja, en ofviðri, brim, braut þá litlu bryggju, sem þar var. Á Litla-Árskógssandi aftur á móti er dálítil bryggja, en algerlega ónóg fyrir þá útgerð, sem þar er, og það er að ráði vitamálastjóra, að ekki hefur verið nú á þessum dýru tímum ráðizt í að byggja hana. En auðvitað verður það gert, og mér skilst, að það sé mjög algengt, að fé, sem veitt hefur verið til slíkra mannvirkja, sé látið biða, þar til byrjað er á verkinu. Ég vænti, að n. mæli með þessari fjárveitingu alveg eins og á Hauganesi. í Rauðuvík hagar allt öðruvísi til. Það eru ekki nema 2–3 hús, sem standa við þá vík. Þar er því ekki nema lítil útgerð, en samt sem áður hefur verið veitt sams konar upphæð til bryggjugerðar þar, og mér skilst, að ekki sé ástæða til að hætta því.

Loks er það XL. till., sem er í tveimur liðum. Sá fyrri er um 20 þús. kr. til vatnsveitu í Glerárþorpi. Er till. flutt eftir ósk þorpsbúa. Ég sé hins vegar, að hv. 4. landsk. hefur flutt brtt. á þskj. 649 um, að veittar verði 50 þús. kr. Að sjálfsögðu fellur okkar till. niður, ef þessi verður samþ., en hún getur að nokkru leyti skoðazt sem varatill. Ég sé því ekki ástæðu til að taka hana aftur nú.

Síðari liður XL. till. er um 5 þús. kr. styrk til gamalmennahælis í Skjaldarvík. Þetta hæli er reist af einstaklingi, Stefáni Jónssyni. Hefur hann rekið það með miklum myndarskap, og eftir því sem mér er sagt, þá er þarna gott að vera og ekki dýrt. Ég hygg, að það sé töluveat meiri eftirsókn eftir að komast þangað en hægt er að fullnægja. Mér virðist allra álit vera, að rétt sé að styrkja gamalmennahælið, og því er till. borin fram.