01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í D-deild Alþingistíðinda. (6274)

49. mál, ríkisskuldir Íslands

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Þetta mál hefur áður verið til athugunar, án þess að það hafi borið sýnilegan ávöxt. Og ef svo verður haldið áfram sem hingað til, ríkisskuldirnar ekki greiddar, heldur beðið eftir kreppunni, mundi það þykja nokkur skortur á búmannshæfileikum þessa þings. Það er eðlilegt, að leitazt sé við að finna það hjá fulltrúum þjóðarinnar, öðrum en þingmönnum, hvort það sé ekki vilji hennar, að ríkisskuldirnar séu greiddar, þegar allar aðrar skuldir eru greiddar. Það mætti hafa skoðanakönnun um það, hvort það sé vilji þjóðarinnar að greiða ríkisskuldirnar og leggja til þess nokkuð af hinum nýfengna stríðsgróða, sem hefur safnazt saman nú um tíma. Er þess að vænta, að þeim vilja þjóðarinnar verði sómi sýndur með skjótri lausn þessa máls.