01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í D-deild Alþingistíðinda. (6276)

49. mál, ríkisskuldir Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Ég hef verið að leita að því í huga mér, hvað fyrir hv. þm. S-Þ. hafi vakað, er hann greiddi atkv. móti frv. um eignaraukaskattinn. Sú afstaða var í beinni mótsögn við skrif hans undanfarna mánuði. Nú hygg ég, að ég hafi fundið skýringuna á því, hvers vegna þessi hv. þm. var á móti því frv. Mér skilst, að hún hafi verið sú, að hann hafi litið á það frv. sem kák. Hér er gert ráð fyrir að taka í einu lagi nægilega mikið til að greiða allar ríkisskuldirnar, en til þess að fullgreiða þær þarf um 50 millj. kr. Nú liggja ekki fyrir tölulegar upplýsingar í þessu efni. En 1942–1943 var eignaraukaskatturinn um 140 þús. kr.

Þótt vafasamt væri að gera sér vonir um, að allt kæmi fram til skatts, þá er það vitað, að síðan hefur bætzt við, og með setningu nýrrar löggjafar mætti ná til þess gróða. Með því móti væri hægt að ná til um 150–200 þús. kr. Ég álít, að ef tölur þessar eru nærri lagi, sé fullkomlega gerlegt að leggja á skatt, sem þessu nemur, til greiðslu ríkisskuldanna að fullu.

Mér eru lítt skiljanlegar þær krókaleiðir, sem hv. þm. S-Þ. vill fara í þessu máli með því að leita álits sýslu- og bæjarfélaga. Ég tel, að Alþ. ætti að geta tekið ákvörðun um það efni án þess. Um það eru allir sammála, að það kemur sveitarfélögunum að liði eigi lítið, að ríkissjóður sé skuldlaus, en það atriði er hægt að fara nánar út í síðar.

Ég vil á þessu stigi málsins bera fram skriflega brtt., sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp:

„1. Í stað orðanna: „leitast nú … meira en 60 þús. kr.“ í meginmáli till. komi: undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. til l. um eignaraukaskatt á gróða, sem myndazt hefur eftir árslok 1939, aðallega á eignarauka, sem nemur meira en 100 þús. kr.

2. Aftan við tillgr. bætist: Í frv. séu skýr ákvæði til tryggingar réttum eignaframtölum og réttu mati fasteigna og verðbréfa.

3. Fyrirsögn till. verði: Tillaga til þingsályktunar um undirbúning löggjafar um eignaraukaskatt til greiðslu á ríkisskuldum Íslands.“

Það er gert ráð fyrir, að hér sé um 5 ára eignaraukakatt að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að leggja út af fyrir sig til, að till. verði vísað til n. En verði það gert, þá er sjálfsagt, að mínar till. fylgi með til n.