08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

143. mál, fjárlög 1945

Pétur Ottesen:

Ástæðan til þess, að ég tek til máls við þessa umr., er, að ég vildi gera g,rein fyrir þeim fyrirvara, sem við hv. þm. Dal. höfðum um afgreiðslu nál. fjvn. Við komumst þar svo að orði um hækkanir n. á tekjuáætluninni, að með því sé fjárhag ríkissjóðs á næsta ári teflt í tvísýnu. Þetta þykja allstór orð, en því miður eru þau ekki sögð út í bláinn.

Það hefur ætíð verið eitt grundvallaratriði í búskap ríkisins, að áætlanir um tekjur væru svo varlega gerðar, að þær a.m.k. stæðust, en tekjur reyndust að jafnaði hærri en áætlað var. Þetta sýnir fjármálasaga ríkisins fullkomlega, og þess vegna hefur honum ekki illa farnazt. Svo lengi sem ég hef haft kynni af, hefur niðurstaða fjárl. ætíð orðið sú að áætla útgjöld móti öllum tekjum, sem óhætt þótti, að aflast mundu á því ári. Reynslan hefur líka sýnt, að óviðráðanlegt er, að útgjöld fari langt fram úr áætlun, svo að niðurstaðan hefði oft orðið hin hörmulegasta, ef tekjur hefðu eigi farið álíka langt fram úr áætlun til að mæta gjöldunum, og stundum hefur orðið dálítill afgangur. Á fyrstu árum ríkisbúskaparins skapaðist af þeim afgangi Viðlagasjóður. Þessi varlega tekjuáætlun hefur því ávallt verið sá öryggisventill, sem ekki var gott að vera án. Ég skal ekki ganga langt í því að tilfæra einstök dæmi, en vil beta um niðurstöður ársins 1939 og áranna 1942 –1944. Árið 1939 var áhrifa stríðsins ekki farið að gæta neitt. verulega á tekjur og gjöld ríkisins. Það ár fóru tekjurnar rúmlega 2 millj. kr. fram úr áætlun, en gjöldin 2,6 millj. Þetta dæmi sýnir, að á venjulegum tímum, þegar afbrigðin frá áætlunum eru tiltölulega lítil, mætast nokkurn veginn tekjur þær og gjöld, sem umfram áætlun verða. Auk hinna ófyrirsjáanlegu útgjalda hafa þar oft komið til útgjöld, sem ákveðin voru með sérstökum l. á sama þ. og fjárl. án þess að taka þær fjárhæðir í fjárl., eða ákveðin með þál. eða ýmsum heimildum. Ég ætla ekki að fara út í það í hverju þessar hækkanir voru fólgnar á undanförnum árum, þó að ég hafi gert nokkurt yfirlit yfir það. Nú hleyp ég yfir fyrri stríðsárin, 1940 og 1941, tekjur og gjöld hækkuðu þá geysilega. Árið 1942 fóru tekjurnar meir en 63 millj. kr. fram úr áætlun og gjöldin nálega um 54 millj. Því varð eftir nærri 10 millj. kr. tekjuafgangur það ár. En 1943 fara tekjurnar enn vaxandi, en gjöldin hins vegar ekki eins mikið fram úr áætlun og árið á undan, eða um 27 millj. kr., svo að allmikill tekjuafgangur varð frá því ári. Um árið 1944 hefur verið gert yfirlit tekna og gjalda ríkisins til loka okt. Tekjurnar voru þá komnar upp í 99 millj. rúmar, en útgjöldin upp í 84 millj. eða nær 85 millj. Af þeim voru greiddar utan fjárl. 5289585 kr. eftir heimildarl., 13056124 kr. eftir öðrum sérstökum l., 283143 kr. samkv. þál., og væntanleg fjáaaukalög munu nema 1022762 kr.

Nú hefur skrifstofustj. fjmrn. verið að gera áætlun um það, hver muni verða niðurstaða ársins. Og mér skilst af viðtali við hann, þrátt fyrir það, hve tekjur hafa farið geysilangt fram úr áætlun, að svo megi fara, að ekki verði um verulegan tekjuafgang að ræða. Þá sést, hvernig við hefðum verið á vegi staddir, ef tekjuáætlunin hefði verið sprengd verulega upp og gjöld á fjárl. ársins numið líkri upphæð og tekjuáætlunin, eins og ætíð vill verða. Á undanförnum þingum hafa hvað eftir annað verið uppi till. um að hækka tekjuáætlunina verulega. Meiri hl. fjvn. hefur staðið móti þessu, og mikill meiri hl. Alþ. var n. samþykkur. Ég ætla, að þetta séu allgildar röksemdir fyrir því, hvaða þýðingu það hefur fyrir afkomu ríkissjóðs, að ekki sé slakað á klónni og horfið frá varfærninni.

Hv. frsm. hafði nokkuð hörð orð um fyrirvara okkar hv. þm. Dal. og taldi, að áætlunin gæti orðið fjarstæðukennd, ef okkar vilji réði. Ég ætla ekki að deila á hann, þar sem ég er í fjvn. En hann getur ekki mælt móti því, að varfærni okkar gæti reynzt ríkissjóði nauðsyn.

Í sambandi við tekjuáætlunina skal ég taka fram, að ég geri ráð fyrir, að með þeirri afgreiðslu, sem fyrirhuguð er á fjárl., megi gera ráð fyrir minni umframgreiðslum en verið hafa síðustu árin, svo að færra og smærra verði það nú, sem taka þurfi upp á fjáraukalög fyrir árið 1945 eða sjá fyrir með öðrum hætti. Þrátt fyrir það verður að búast við, að útgjöld á ýmsum lögboðnum liðum geti farið langt fram úr áætlun, enda komast þeir aldrei allir á fjárl. Ég skal nú nefna nokkur slík atriði.

Viðhald vega fór upp í 11 millj. árið 1943, en af því greiddi setuliðið helming. Í ár segir vegamálastjóri mér, að kostnaður af viðhaldi muni verða um 8 millj. kr., og greiðir setuliðið hluta af því á grundvelli samninga, sem um það gilda. Í frv. eru áætlaðar 7 millj. til viðhaldsins, en vegamálastjóri telur, að það muni reynast of lág áætlun, og hefur hann skilað um það skriflegu áliti. Hann gerir ráð fyrir, að þátttaka setuliðsins í kostnaði muni verða sáralítil, e.t.v. 5–600 þús. kr. Enda er það vitað, að ríkisstjórnir bandamanna muni samkv. skuldbindingum hverfa héðan með herafla sinn, jafnskjótt og stríðinu er lokið.

Þá má búast við, að ísl. ríkið þurfi að hafa mikil skipti við erlendar ríkisstj. og standa í samningagerðum. Kostnaður af því er áætlaður einar 60 þús. í frv. Nú liggja fyrir reikningar frá 3 sendinefndum, og eru þeir allháir. Ferðirnar sjálfar eru dýrar og eins uppihald á þeim stöðum, þar sem dvelja þarf í slíkum erindagerðum.

Nú munu meir en 50 n. vera starfandi í þágu ríkisins, og til þeirra sumra er fé ætlað í fjárl., en sá kostnaður mun hljóta að fara fram úr áætlun. Mér er kunnugt, að ein af þessum n., skipulagsn. atvinnumála, er búin að kosta nokkuð á 2. hundrað þús. kr. Ekki er hér talinn kostnaður við þær nýju n., sem Alþ. setur löggjöf um á þessu þingi og ætlað er mjög víðtækt starf og umfangsmikið. Þar er ekki aðeins að ræða um greiðslur til þeirra, sem í n. sitja, heldur ýmsan kostnað af störfum, sem n. láta vinna. Það má vera, að sá kostnaður verði að einhverju leyti yfirfærður á aðra aðila en ríkissjóð og verði hann t.d. að nokkru leyti lagður á þá, sem kaupa skip og framleiðslutæki fyrir atbeina n., og þannig gerður að byrði á framleiðslunni. En það, sem ríkið þarf að greiða af nefndarkostnaði, þótt ekki sé tekið á fjárl., hlýtur að valda miklum umframgreiðslum á næsta ári.

Því hefur verið haldið fram í umr., bæði af hv. frsm. (JJós) og hæstv. fjmrh. (PM), að hin nýja tekjuáætlun væri byggð á útreikningum um afkomu þessa árs, því að með óbreyttum kringumstæðum megi vænta sömu tekna árið 1945. Ég skal ekki nema að nokkru leyti mæla því í gegn. Þannig ætti það að verða, ef við gætum fulltryggt, að engin umskipti gerist á árinu. En allir gera ráð fyrir, að þegar styrjöldinni slítur, muni verðlag mjög breytast og e. t. v. í mjög óhagstæða átt fyrir afurðasölu okkar. Við megum ekki gera fjárl. svo úr garði, að ríkissjóður fái ekki staðizt breyt., sem verða kunna, án þess að grípa til ýmissa óyndisúrræða. (Eyða í handr.) Þeir hafa ekki viljað endurnýja þá samninga og ekki viljað taka að sér framkvæmd á því að kaupa af okkur fiskinn fyrir ákveðið verð. Og auk þess munu þeir ekki sækja fisk á sumar fiskhafnir í landinu, þar sem fiskurinn hefur verið lagður á land. Mér finnst þetta út af fyrir sig vera þess eðlis, að það megi minna láta í því sambandi við fjárlagaáætlun ríkisins fyrir næsta ár. Ég álít, að rétt sé að staldra nokkuð við og athuga, hvaða afleiðingar þetta út af fyrir sig getur haft fyrir afkomu okkar. Nú tekur þetta vitanlega ekki nema til þess fisks, sem aflað er hér af bátum við ströndina, því að bátarnir sjálfir flytja aflann ekki á erlendan markað. Þetta nær ekki til togara, og má því sleppa þeim í þessu sambandi. En þetta er eigi að síður verulegur hluti af framleiðslu okkar.

Nú liggur það fyrir, að þeir, sem sjálfir hafa flutt út fisk frá bátum, hafa ekki fengið lakari útkomu en þeir, sem selt hafa hann matvæla,ráðuneytinu brezka í skip hér á höfnunum. Ef verðlag héldist óbreytt á enskum markaði og segja mætti, að við hefðum ástæðu til að flytja allan okkar fisk út, væri þessi breyt. út af fyrir sig ekki mjög varhugaverð. En hvernig stöndum við að vígi í þessum efnum? Getum við upp á eigin spýtur flutt út allan okkar bátafisk, ef samningar tækjust ekki um það, að Englendingar sæktu verulegan hluta af honum hingað heim?

Eftir þeim upplýsingum, sem ég- hef fengið hjá Fiskifélagi Íslands, hefur aflinn á vetrarvertíðarsvæðinu við Suðurland, Hafnarfirði og Faxaflóa verið árið 1943 um 50 þús. tonn. Og þessi afli er fluttur í land á 4 mánuðum. Hvernig er svo aðstaða okkar við að koma þessum afla á eigin spýtur á erlendan markað? Við eigum dálítið af skipum til fiskflutninga. Þau eru öll lítil. Mér er sagt þau flytji til jafnaðar um 100 smál. hvert. Auk þess hafa samningar tekizt við Færeyinga um fiskflutninga. Þeirra skip eru líka lítil, flytja um 100 smál. hvert. Til þess að flytja allan þennan fisk, 50 þús. smál., á erlendan markað með skipum, sem flytja um 100 smál. hvert, mun þurfa um 500 ferðir á þessum 4 mánuðum. Ég sé ekki, að til sé nægur skipakostur til þessara flutninga, jafnvel þótt við notuðum að verulegu leyti skipakost Færeyinga. Þess vegna er þetta verulegt atriði. Ef ekki rætist úr í þessum efnum, getur það valdið mjög miklum truflunum í atvinnulífi okkar. Ég álít, að taka verði tillit til þessa nú, þegar verið er að ganga frá afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár.

Að vísu má segja, að hægt sé að verka fisk á annan hátt sem hæfa útflutningsvöru, t.d. með því að salta hann. En viðkomandi því kemur ýmislegt til greina. Ég veit ekki, hve miklar saltbirgðir eru til í landinu núna. Fiskifél. Íslands var falið að afla upplýsinga um það. Það telur þær nokkrar, en dreifðar um allt land, svo að við Faxaflóa er ekki nema sáralítið til af salti til þess að hlaupa með í skarðið, ef ekki rætist úr. Auk þess er það vitað, að ef salta ætti fiskinn, þá yki það mikið vinnu við hann. En mjög miklar líkur eru til þess, að hið endanlega verð, sem fæst fyrir hann, yrði lægra miðað við það, sem fengist fyrir hann, ef hann væri fluttur nýr á erlendan markað.

Enn hefur ekki tekizt að fá samninga um sölu á frystihúsafiski. Og mér er sagt, að ef um er að ræða að gera samninga um þennan fisk, muni það leiða til nokkurrar verðlækkunar. Verð ég að segja, að þetta er atriði, sem vert er að taka til athugunar nú við afgr. fjárl., sérstaklega varðandi áætlun tekna á næsta ári. Það er mjög hæpið, að frystihúsaeigendur, sem hafa komið upp frystihúsum á síðari árum, taki mikið af fiski í húsin, ef engin trygging er fyrir, hvað verðið muni verða. Enda geta þeir það ekki, ef verðið hefur lækkað svo mikið, að reksturinn getur ekki borið sig. Svo getur einnig farið, að olían, sem er stór liður í útgerðinni, hækki frá því, sem nú er. Og það hefur sín áhrif á afkomu þeirra manna, sem byggja afkomu sína á sjávarafla. Þetta allt er líklegt til að grípa inn í atvinnulíf okkar, ef ekki rætist úr. Þess vegna er ekki eingöngu hægt að miða tekjurnar í ár við það, sem þær hafa reynzt á næstu árum á undan.

Ég talaði áðan um, að aflinn á vertíðinni 1943 hefði verið 50 þús. tonn. Nú er vitað, að hann var meiri 1944, þótt engar skýrslur liggi fyrir um það. Svo framarlega sem ekki verður því meiri veiðarfæraskortur og miðin á Faxaflóa verða ekki lengi friðuð, þá verður aflinn á komandi vertíð enn þá meiri. (GJ: Hve mikið fer af honum í frystihús?) Það fer allmikið í frystihús. En á næstu árum fer það eftir því, hvað verðið verður. Ef verðið er þannig, að enginn þori að láta í frystihús, þá fer ekkert þangað. Verð á erlendum markaði er óráðin gáta, eins og er. Það er í þessu ljósi, sem ég hef brugðið hér upp, sem ég og hv. þm. Dal. ályktum, að tekjuáætlun sú, sem gerð hefur verið af stj., og brtt., sem gerðar voru af fjvn., geti teflt fjárhag ríkisins á næstu árum í tvísýnu.

Ég skal minnast á einstaka liði tekjuáætlunarinnar, sem mestu máli skipta. Þeir eru aðallega þrír, tekju- og eignarskatturinn, verðtollurinn og áfengisverzlunin. Ég vil benda á, að þótt engin breyt. verði til hins lakara, þá er teygjan sannarlega komin úr tekju- og eignarskattinum. Hann var áætlaður 24 millj. kr. í ár. Nú er það vitað, að alltaf verða einhver vanhöld við innheimtuna. Veit ég ekki, hvað það eru venjulega mörg prósent. En ég verð að segja það, að ef tekju- og eignarskatturinn er nú 221/2 millj. kr., þá er teygjan vissulega úr honum, þótt ástandið breytist ekki, hvað þá heldur, ef það, sem ég hef rakið, kemur til með að valda okkur auknum erfiðleikum á næstu árum.

Stríðsgróðaskattinn hefur n. hækkað nokkuð. Á s.l. ári reyndist hann 21/2 millj. kr. lægri en gert var ráð fyrir. Hann er nú ekki haldbetri en það. Nú er álitið, að afkoma stærri fyrirtækja sé betri en árið áður. Og það kann að vera um stærri skipin í flotanum. En þá kemur það til athugunar, hve miklar viðgerðir hefur þurft að gera á flotanum. Þær þurfa ekki að hafa verið miklar, svo að það fyrirtæki greiði engan stríðsgróðaskatt. Ég álít, að hækkun á þessum lið sé mjög hæpin, þótt sama ástand héldist.

Um verðtollinn er það að segja, að hann hefur farið yfir það, sem hann var áætlaður á undanförnum árum, upp í 28 millj. kr. Samkv. till. n. er gert ráð fyrir, að hann geti farið upp í 33 millj. kr. á þessu ári. Þetta er sá tollur, sem breyttar kringumstæður verka fljótt á til lækkunar. Ef t.d. farmgjöld lækkuðu eða breytt yrði um siglingaleiðir þannig, að vörur yrðu sóttar til annarra landa, þá kemur það fram sem lækkun á tollinum. Hæstv. fjmrh. minntist á það í umr. í gærkvöld, að e.t.v. yrðu þær vörur, sem verðtollur er greiddur af, keyptar á næsta ári í Bretlandi. Og þær mundu frekar verða sóttar þangað en til Ameríku. Ef við miðum við svipað vörumagn og svipað verð, þá leiðir þessi tilfærsla milli landa það af sér, að verðtollurinn lækkar. Eftir upplýsingum, sem Eimskipafélagið hefur gefið mér um farmgjöld, þá munu þau vera 100–150 % hærri frá Ameríku en Englandi. Þegar það er vitað, að tollurinn er einmitt reiknaður af fragtinni, þá mun þessi breyt. ein út af fyrir sig lækka verðtollinn. Mér virðist, að auk þeirrar óvissu, sem ríkir í atvinnulífi okkar á næsta ári og ef breytingar verða nú líka á innkaupum ýmissa verðtollsvara, þá mundi fara nokkur kúfur af verðtollinum. Ég bendi á þetta að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh. (GJ: Þá mundi þetta lækka vísitöluna og útgjöldin). Það kann að vera. En það kemur fram í ákaflega smækkaðri mynd, svo að það kemur ekki til með að vega upp á móti hinu.

N. hækkaði vörumagnstollinn um eina millj. kr., og álít ég, að það geti vel staðizt. Vörumagnsinnflutningur er miklu vissari tekjustofn en verðtollurinn, því að fjárvelta manna á meðal þarf að breytast mikið, án þess að mikið dragi úr eftirsókn eftir glingri og hvers konar vöru.

Þá er eftir einn ákaflega stór liður. Það er hagnaðurinn af áfengissölunni. Það er gert ráð fyrir, að hann geti farið upp í 27 millj. kr. á næsta ári samkv. útreikningi, sem skrifstofustj. í fjmrn. hefur gert, og byggir hann þar á óvenjulegum tekjuafgangi í ár. En hvað segja menn um þetta? Hvað getur það gengið lengi í svona litlu þjóðfélagi, að ríkið afli sér tekna með áfengissölu, sem gefur 27 millj. kr. í hagnað á ári? Hvað álíta menn, að draga megi frá í almennri afkomu og afköstum í landinu í sambandi við það, að landsfólkið fer svo að ráði sínu, að það skaffar ríkinu í áfengisnautn 27 millj. kr. á ári? Og ég vil benda á það, að þegar menn eru komnir út í öfgar á einhverju sviði, eins og hér er um að ræða, þá kemur afturkastið. Það getur komið eins og af sjálfu sér og allt í einu. Þetta er reynsla allra þjóða. Segjum, að á næsta ári verði straumhvörf í þessu landi. Hvaða þýðingu halda menn, að það hefði? Það fer ekki hjá því, að maður álykti, að mjög ógætilegt sé að byggja afkomu ríkissjóðs að mjög verulegu leyti á slíkum tekjum. Og meðan ekki tekst að sjá farborða sölu á flestum afurðum okkar, þá er þessi áætlun mjög óvarleg.

Grundvöllurinn undir því, að hér sé hægt að framleiða fisk til útflutnings, hann byggist á því, að hátt á annan tug millj. kr. er varið úr ríkissjóði til að halda niðri verðvísitölunni og kaupgjaldinu í landinu. Það sýnir, hvað við megum við litlum áföllum. Við eigum því að gjalda varhug við öllum breyt. á sviði atvinnulífsins, sem geta snúizt á öndverða sveif við hagsmuni okkar. Þetta mundi horfa allt öðruvísi við, ef aðstaða atvinnulífsins í landinu væri styrkari en hún er.

Ég vil taka það fram, að það, sem ég segi um atvinnuástand okkar, ber ekki að skilja sem ádeilu á nokkurn einstakan mann. Ef hér er um sök að ræða, þá hvílir hún á okkur öllum jafnt. Þetta hefur verið rás viðburðanna, sem ekki hefur verið hægt að sporna við.

Ég þykist þá hafa gert grein fyrir afstöðu okkar hv. þm. Dal., hvers vegna við höfðum þennan fyrirvara.

Um afgreiðslu fjárlaga í fjvn. ætla ég ekki að tala. Mér dettur ekki í hug að fara í því efni inn á svið okkar ágæta frsm. Hann hefur með mikilli röggsemi reifað mál n. og mun halda á málstað hennar með sama hætti.

Ég vil geta þess, að fjvn. hefur starfað að þessum málum í fullri samvinnu við ríkisstj. og það varð samkomulag milli n. og stj. um öll stærstu atriðin, hvort sem það var nú stj., sem átti frumkvæðið að þeim, eða n. Að vísu eru í niðurstöðu n. lækkaðar sumar till. sumra ráðh., en það hefur n. gert í fullu samkomulagi við viðkomandi ráðh. Ég vil beina því til einstakra þm., að jafnframt því; sem þeir beina tilmælum til fjvn., þá gera þeir það líka til ríkisstj. Ég geri ráð fyrir, að það samstarf, sem staðið hefur frá upphafi milli nefndarinnar og ríkisstjórnarinnar, haldist til lokaafgreiðslu fjárlaganna.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. sagði um losarabrag á afgr. fjárl. undanfarin tvö ár, vil ég taka það fram, að vel má vera, að það megi til sanns vegar færa. En ég vil benda á það, að í þessi tvö ár, sem hér um ræðir, var ástandið svo hér á Alþ.,fjvn. varð að bera ein hita og þunga af afgr. fjárl., því að þá sat ríkisstj. að völdum, sem tókst ekki að hafa það samstarf við Alþ., að það gæti leitt til sameiginl. afgr. fjárl. Og ég verð að segja það til hróss þeirri afgr. fjvn. og Alþ., að tekjurnar voru þá ekki einungis það varlega áætlaðar, að þær gætu mætt tugmilljónagreiðslum utan fjárl., heldur sköpuðu þær ríkissjóði tekjuafgang þar að auki. Við afgr. fjárl. fyrir næsta ár er þetta ástand breytt. Nú situr ríkisstj., sem hefur sterkan þingmeirihl. á bak við sig, og eitt aðalhlutverk hennar er eðlilega það að hafa forystu um afgreiðslu fjárl: Þess vegna er aðstaða fjvn. nú allt önnur en undanfarin tvö ár, þó að það sé að sjálfsögðu skylda fjvn. að veita ríkisstj. allan stuðning við fjárlagaafgreiðsluna, sem hún getur beztan í té látið. Og eins og getið er um í nál., þá hefur farið vel á með ríkisstj. og fjvn. á þeim tímum, sem ríkisstj. og fjvn. hafa starfað saman að undirbúningi þessara fjárl. — Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál. Ég vil aðeins geta um það í sambandi við það, sem rætt hefur verið hér um dýrtíðarráðstafanir, að bréf liggur fyrir hjá fjvn. frá fyrrv. atvmrh., þar sem hann sendir n. óskir frá SÍS og Garðari Gíslasyni um, að tveggja ára ull verði seld sem fyrst. En þetta munu vera einu ullarútflytjendur í landinu. Þetta bréf kom, skömmu áður en stjórnarskiptin urðu. Hefur n. skýrt fjmrh. frá þessu og mun ræða nánar við hann um, hvernig við þessum óskum verði snúizt. Það hefur í för með sér, eftir því sem fyrir liggur, allmikil útgjöld fyrir ríkissjóð, ef sala fer fram að óbreyttu verði frá því, sem það var, er síðast fréttist, en það er nú nokkuð langt síðan.

Að öðru leyti blanda ég mér ekki inn í þessar umr., og sem sagt þá var mitt eina erindi til þess að taka hér til máls að gera grein fyrir þeim fyrirvara, sem ég og hv. þm. Dal. stóðum að. Þykist ég hafa fært nokkur rök fyrir aðstöðu okkar og þeirri niðurstöðu; sem við höfum komizt að. Um önnur atriði hefur okkur ekki þótt nein ástæða til þess að bera fram fyrirvara. Eins og venja er og getið er um í nál., þá teljast það till., fjvn., sem meiri hl. stendur að, en eins og gerist og gengur., þá er nokkur skoðanamunur um nokkrar till.

í n., en það eru engin. afbrigði frá því, sem venjulega gerist.