07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í D-deild Alþingistíðinda. (6289)

55. mál, Þormóðsslysið

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson):

Eins og öllum þm. er kunnugt, skipaði ríkisstj. sérstakan sjódóm til að rannsaka Þormóðsslysið. Dómur þessi vann af mikilli elju og hafði lokið rannsókn sinni 3. ágúst sl. Þá var honum falið viðbótarverkefni, en aðalrannsókninni var lokið snemma í ágúst, eins og ég sagði, og sendi þá sjódómurinn rannsókn sína til atvmrn. ásamt sérstakri skýrslu. Þetta mál lá síðan í stjórnarráðinu til 19. febr., er send var út skýrsla til birtingar af stjórnarráðinu um þetta hörmulega slys.

Margir hafa litið svo á, að skýrsla sú, er stjórnarráðið lét birta, væri skýrsla sjódómsins sjálfs, en ég hef fengið upplýsingar um, að hún er að miklu leyti búin til í stjórnarráðinu sjálfu. Ég fékk viðtal við borgardómara, hr. Árna Tryggvason, sem er formaður sjódómsins, og spurði hann eftirfarandi spurninga:

1. Er skýrsla sú um Þormóðsslysið, sem birt hefur verið í blöðunum, skýrsla sjódómsins sjálfs?

2. Teljið þér, að öll aðalatriði úr skýrslu sjódómsins hafi komið fram í skýrslu ríkisstjórnar?

Fyrri spurningunni svaraði Árni Tryggvason á þessa leið: „Það er hluti úr henni og sums staðar vikið við.“ Seinni spurningunni svaraði hann þannig: „Það má um það deila. Ráðuneytið hefur dregið sínar ályktanir af rannsókn sjódómsins.“

Ofangreindar spurningar lagði ég síðan fyrir Hafstein Bergþórsson og Jón Axel Pétursson, sem báðir eiga sæti í sjódómnum. Hafsteinn Bergþórsson svaraði þannig: 1. „Ekki eins og hún var send frá okkur.“ 2. „Ekki fyllilega.“

Svör Jóns Axels Péturssonar voru þannig: 1. „Nei, það er hrafl úr henni.“ 2. „Nei, mjög veigamiklum atriðum er sleppt.“ Ég spurði hann þá, hvað hann teldi veigamest af því, sem vantaði í skýrslu dómsmrn. „Álit sérfræðinga um ástand skipsins,“ svaraði þá Jón Axel Pétursson.

Auk þessa upplýsti Hafsteinn Bergþórsson, að skoðanagerð hinna dómkvöddu manna hafi verið á þá leið, að Þormóður hafi ekki uppfyllt þær kröfur, sem gerðar eru um nýbyggingu fiskiskipa. Þetta var um 100 tonna skip, keypt frá Bretlandi 1939 á 400 £, eða um 8.800 kr., eftir því sem segir í skýrslu þeirri, er birt hefur verið. Til samanburðar á verðinu má geta þess, að rúmlestin kostar nú 10 til 11 þús. kr., þótt ekki sé með öllu við það miðandi. En auðsýnt er, að skipið hefur verið selt ódýrt. Eftir skýrslunni að dæma hefur skip þetta verið hér síðan í förum við land og milli landa í tvö ár samtals, og er í skýrslunni getið um, að leki hafi þrettán sinnum komið að því. Það fórst svo í fjórtánda skiptið.

Nú er það kunnugt af upplýsingum, er hér liggja fyrir, að sjódómnum var sérstaklega falið að rannsaka, í hvaða ástandi skipið hefði verið. Það hefur rekið flak, sem sannað þykir, að vera muni úr því, og eftir þeim upplýsingum, er það gefur, hafa kunnáttumenn gert uppdrátt að skipinu, eins og það sannast verið hafa eftir þessu rekaldi, og aðra teikningu, eins og skipið hefði átt að vera, ef það hefði uppfyllt þær kröfur, sem skipaskoðuninni hér ber að gera. Ég hef þessa uppdrætti fyrir framan mig, og bera þeir með sér eftirfarandi upplýsingar:

Byrðingur skipsins hefur verið úr 2 tommu borðum í stað 2¾.

Styrktarplankar voru 2½ tomma í stað 3½.

Kjölur var 10x12 tommur í stað 11¾x15¾.

Innri súð var úr 2 tommu borðum í stað 2¾.

Bil milli banda var 10½ tomma í stað 8.

Böndin voru 3½x3½ tomma í stað 5x5.

Um skýrslu þá, er birt var, hefur nokkuð verið rætt í blöðunum. Nú síðast ræðir Þjóðviljinn hana, sem er vinveittur hæstv. dómsmrh., eins og kunnugt er. Er blaðið með hugleiðingar í sambandi við hana og veltir því fyrir sér, hvort þetta muni skýrsla sjódómsins eða ekki, og virðist helzt hallast að því, að svo sé. Ég tel það nú aftur á móti sannað, að skýrsla þessi gefi ekki rétta hugmynd um sjódómsrannsóknina, og styðst þar við ummæli dómendanna. Er þetta því verr farið sem þetta mun alfyrsta rannsókn hér af þessu tagi, sem reynir að grafast fyrir hörmulegt slys. Ég tel vissulega illa farið að rýra gildi slíkrar rannsóknar með því að gefa almenningi villandi upplýsingar um niðurstöður hennar.

Nú er að vísu ekki hægt að fullyrða, að orsakir slyssins hafi verið þær, að skipið hafi ekki verið útbúið lögum samkvæmt. En margt bendir til þess, að svo hafi verið, m. a. það, að skipið virðist alltaf hafa verið að sökkva, síðan það kom til landsins.

Með því að nú er upplýst, að skýrsla sú, sem birt hefur verið, er ekki skýrsla sjódómsins og upplýsir ekki fyllilega, hvað rannsóknin leiddi í ljós, þá leyfi ég mér að skora á hæstv. dómsmrh. að birta skýrslu sjódómsins sjálfs eða senda blöðunum hana til birtingar. Það er hætt við, að menn verði tregir til að leggja verk í slíkar skýrslur í framtíðinni, ef á að gefa um þær rangar hugmyndir eða notfæra sér ekki þær niðurstöður, sem að gagni mættu koma. Öryggis vegna verður svo að krefjast þess, að það komi ekki fyrir, að skip, sem eru jafnlangt frá því að vera útbúin lögum samkvæmt og Þormóður virðist hafa verið, fái haffærisskírteini.

Ég vil svo að síðustu endurtaka, að ég skora mjög eindregið á hæstv. dómsmrh. að birta skýrslu sjódómsins í heild.