07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í D-deild Alþingistíðinda. (6290)

55. mál, Þormóðsslysið

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Skýrsla sú, er birt hefur verið og hv. fyrirspyrjandi talar um, var gerð í ráðun., en vitanlega hef ég ekki gert hana, til þess hefði ég engan tíma haft. Formanni sjódómsins, Árna Tryggvasyni, var sýnd skýrslan, svo að hann ætti þess kost að segja álit sitt um hana, hvort hún mætti vera þannig, og gerði hann aðeins litlar athugasemdir við hana, sem allar voru teknar til greina, eftir því sem ég bezt veit.

Ég get svarað áskorun hv. þm. Ísaf. á þá leið, að það er langt í frá, að ég hafi nokkuð á móti að birta skýrsluna í heild með leyfi sjódómsins, sem mun fást óefað, og atvmrn., sem fékk skýrsluna, því að undir það heyrir eftirlit með öryggi skipa. Það er svo langt frá, að ég hafi nokkuð á móti þessu, að ég vil gersamlega verða við því.

Mér hefur skilizt, að einkum þyki vanta álit þeirra sérfróðu manna, sem dómkvaddir voru til að athuga skipsrekaldið. Ég hygg, að það sé aðalatriðið, sem ber á milli, og e. t. v. greinargerðir skipaskoðunarstjóra og dómenda fyrir mismunandi skoðunum þeirra á styrkleika skipsins. Þetta ætla ég, að vanti einkum, og mun væntanlega bætt úr því bráðlega.

Ég þarf svo raunverulega ekki að hafa fleiri orð út af þessari fyrirspurn, því að auðvitað er ég ekki fær um að tala um styrkleika skipsins við hv. fyrirspyrjanda eða aðra fróða menn í þeim efnum.

Mig minnir, að allri rannsókninni væri lokið 5. nóv. s. l., þótt aðalrannsókninni væri lokið snemma í ágúst, eins og hv. þm. sagði.

Ég vænti þess svo, að hv. fyrirspyrjandi hafi fengið þau svör frá mér, sem hann kaus helzt að fá.