08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

143. mál, fjárlög 1945

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Í þeim brtt., sem hér liggja fyrir við stjfrv., á ég aðeins fáeinar, er fara fram á aukin útgjöld, og mun ég nú gera lítils háttar grein fyrir þeim. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða almennt það frv., sem hér liggur fyrir, en mér virðist, að eftir þeim upphæðum og útgjöldum, sem þar eru áætluð, þá skipti ekki svo miklu máli, þótt þeim till., sem ég flyt, sé bætt við.

Vil ég fyrst minnast á brtt. mína á þskj. 612, XXI, en í henni er farið fram á fjárframlag til brúar á Djúpá í Fljótshverfi, að upphæð 185 þús. kr. Ég hef tvisvar áður hér á Alþ. flutt sams konar till. og farið fram á það við fjvn., að hún veitti fé til þessarar brúargerðar. Á þessi er mikið vatnsfall og mjög erfið yfirferðar og þess vegna hinn mesti farartálmi á aðalsamgönguleiðinni austanvert í Fljótshverfi og í Vestur-Skaftafellssýslu. Brú yfir Djúpá þyrfti ekki að vera mjög stór, og hefur vegamálastjóri gert teikningu af steinbrú yfir ána, en samkv. kostnaðaráætlun hans hef ég tekið upp áðurgreindar 185 þús. kr. Þetta er að vísu nokkuð há upphæð, en þegar tekið er tillit til þess, hversu framkvæmdir allar eru dýrar, bæði hvað vinnu og efni snertir, er þessi upphæð ekki eins gífurleg og hún kann í fljótu bragði að virðast, og enn fremur, þegar tekið ca. tillit til hinnar miklu þarfar, að brú þessi komi sem fyrst. Ef Djúpá verður brúuð, opnast þarna leið fyrir bifreiðar alla leið austur á Skeiðarársand, en eins og nú standa sakir, — þar sem áin er aldrei fær bifreiðum og oft algerlega ófær vegna vaxta í ánni, — eru þeir menn, sem búa í austanverðu Fljótshverfi, austan Djúpár, mjög einangraðir. Það er því hin mesta nauðsyn fyrir þessa menn og ekki síður fyrir allan almenning í landinu, að opnuð sé leið fyrir bifreiðar eins langt og unnt er austur á bóginn. Það eru að vísu ekki áætluð mikil fjárframlög í fjárl. til brúargerða að þessu sinni, en ég held, að brú yfir Djúpá eigi a.m.k. eins mikinn rétt á sér og þær brýr, sem fjvn. hefur tekið upp í till. sínar og liggja margar hverjar ekki eins í þjóðvegi og sú, er hér um ræðir. Vildi ég því mega vænta þess, að vegna hinnar brýnu nauðsynjar, bæði fyrir íbúa á þessum slóðum og alla, sem ferðast um þjóðvegina, — að Alþ. heimili fjárveitingu á fjárl. til brúarsmíði á Djúpá og samþ. till. mína. Brúarsmíði þessi hefur dregizt svo lengi, þótt undirbúningi sé lokið fyrir löngu; að mér virðist ekki vera verjandi að tefja framkvæmd þessa máls lengur, þar sem um jafnstórt vatnsfall er að ræða og þar að auki í þjóðbraut.

Þá hef ég flutt brtt. á þskj. 646, I við brtt. á. þskj. 626, I, 23, sem flutt er af hv. 2. þm. N.-M. (PZ) og hv. þm. Barð. (GJ), um læknisvitjanastyrk. Ég tel æskilegt, að læknisvitjanastyrkir verði aftur settir inn í fjárl., og ef horfið verður að ráði flm., tel ég fullkomlega réttmætt, að þeir hreppar í Skaftafellssýslum, sem áður höfðu þennan styrk, verði þar upp teknir. Hygg ég, að ekki sé neinn ágreiningur um þetta, ef læknisvitjanastyrkur verður ákveðinn í fjárl. eins og áður var, þar sem vitað er, að allir þeir hreppar, er hér um ræðir, eiga mjög erfiða læknissókn, og eru læknisvitjanir þar mjög kostnaðarsamar í hvert skipti. Að vísu er hér farið fram á lága upphæð, en mér er kunnugt um, að þessi styrkur kom að miklu liði, meðan hann var áður veittur. Hins vegar get ég orðið við tilmælum hv. 1. þm. Rang. um að taka þessa till. til baka til 3. umr., til þess að fjvn. geti tekið hana til athugunar, að því tilskildu, að flm. á þskj. 626 fallist á að taka brtt. sínar aftur til 3. umr. Teldi ég ekki nema eðlilegt, að málið yrði athugað nokkru betur, áður en það er ákveðið af n., þar sem hún hefur ekki fengizt við þessi mál nú.

Loks á ég brtt. á þskj. 612, XXXI, sem er námsstyrkur til Óskars Sveinssonar til fullnaðarnáms í garðyrkju við landbúnaðarháskólann í Ási í Noregi, að upphæð 3000 kr., en til vara 2500 kr. — Óskar Sveinsson fór utan vorið 1939, eftir eins vetrar nám á Hvanneyri, en hefur síðan stundað nám í Noregi. Óskar er maður efnalaus og foreldrar hans sömuleiðis, en hefur fengið nokkurn styrk úr Snorrasjóði og frá Búnaðarfélagi Íslands tvö síðastliðin ár, 2000 kr. frá hvoru. Árið 1941 var sótt um styrk fyrir hann til Menntamálaráðs, og hefur það verið ítrekað síðan, en Menntamálaráð hefur hins vegar ekki getað talið sig hafa afskipti af námsmönnum í Noregi, síðan hann var hertekinn. Er því ekki um aðra leið að ræða en leita á náðir hv. Alþ. til þess að styrkja þennan efnilega mann, sem stundar nám undir mjög erfiðum kringumstæðum. Fyrsta árið, sem Óskar dvaldist í Noregi, lauk hann prófi í garðrækt, en stundar nú fullnaðarnám í garðyrkju við landbúnaðarháskólann í Ási og bjóst við að vera þar tvö ár í viðbót, er síðast fréttist af honum, en það var samkv. bréfi, sem Vilhjálmur Finsen sendi utanrrn. hér í gegnum sendiráðið í Stokkhólmi haustið 1943. Í þessu bréfi var farið fram á, að þessum manni yrði veitt 1500 kr. lán, og voru gerðar ráðstafanir til þess, að það yrði hægt. Í þessu sama bréfi gat Vilhjálmur Finsen þess einnig, að Óskar væri mjög námssamur, og lét í ljós, að hann vonaði, að honum mætti auðnast að ljúka námi sínu. — Eins og kunnugt er hefur verið mjög erfitt að hafa samband við námsmenn í Noregi vegna styrjaldarinnar, og hefur verið mjög erfitt að veita þeim hjálp. Eina leiðin til þess hefur verið með aðstoð sendiráðsins í Stokkhólmi, en annars hafa þeir orðið að bjarga sér upp á eigin spýtur. Það er öllum kunnugt, að við höfum mikla þörf fyrir þá sérþekkingu, sem Óskar er að afla sér, og tel ég því mjög eðlilegt, að þessum manni, er stundar nám undir svo erfiðum kringumstæðum, sé veittur þessi styrkur til þess að komast yfir síðasta hjallann og létta undir með honum.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þessar brtt. mínar nánar og vænti þess, að hv. þm. líti á þær með skilningi, þar sem ekki er um svo veigamiklar upphæðir að ræða, að þær skipti nokkru máli samanborið við þær miklu upphæðir, sem áætlaðar eru á fjárl. nú.