29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í D-deild Alþingistíðinda. (6301)

108. mál, Hellisheiði og Svínahraun

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Sú fyrirspurn, sem hér er borin upp, er, eins og hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir, í tilefni af þál., sem samþ. var á Alþ. 2. nóv. 1943 og hljóðar eins og hann las upp. Strax og þessi þál. hafði borizt ráðuneytinu, var hún send til vegamálastjóra með fyrirlagi um að láta gera það, sem í þál. felst, svo fljótt sem við yrði komið. Í tilefni af því, að þessi fyrirspurn hefur verið borin fram, hefur ráðuneytið fengið upplýst hjá vegamálastjóra, að athugunum í þessu máli, á steinsteyptum vegi og breyttu vegarstæði yfir Hellisheiði og Svínahraun, er nú alllangt komið ásamt ýmsum undirbúningi til að leggja veginn. Það er komið nokkuð langt að vinna að þessum mælingum, en áætlanir ekki fullgerðar. Ég vil geta þess, að önnur þál., sem hér liggur fyrir og gerð var á Alþ. 10. marz 1943, er um svipað efni, en miklu víðtækari, og væri því ekki óeðlilegt, að þessi þál. væri að nokkru leyti til athugunar hjá þeirri n., sem skipuð var með þeirri þál. Með þessu vildi ég hafa skýrt, hvar máli því er komið, sem nú er spurt um.