29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í D-deild Alþingistíðinda. (6314)

133. mál, veðurfregnir

Fyrirspyrjandi (Pétur Ottesen):

Á öndverðu þessu ári, 17. febr. s. l., var samþ. hér á Alþ. svo hljóðandi þál.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að freista þess að fá því til vegar komið, að veðurstofan fái aðstöðu til að láta landsmönnum í té veðurfregnir og veðurspár, er að haldi megi koma.“

Ástæðan til þess, að þessi þál. var borin fram og samþ., var sú, að um nokkurt árabil hafði veðurstofan búið við þær aðstæður, að hún hafði verið svipt aðstöðu til að afla veðurfregna frá Noregi, Bretlandseyjum, austurströnd Ameríku og Grænlandi. Einnig var henni fyrirmunað að fá nokkrar fregnir frá skipum á hafinu milli Ameríku og Bretlandseyja. En af veðurfregnum frá þessum slóðum hafði veðurstofan að mestu dregið ályktanir sínar um veðurútlit hér.

Einu heimildirnar, sem veðurstofan hefur síðan haft við að styðjast, hafa verið fregnir frá stöðvum hér á landi. En svo takmörkuð vitneskja hrekkur skammt til að draga af þær ályktanir, sem að verulegu gagni mega koma.

Íslendingar hafa af þessum sökum verið sviptir því öryggi, sem veðurstofan getur veitt, ef starfsemi hennar væri ekki hneppt í dróma.

Samfara þessu hefur mjög verið takmarkað, að hve miklu leyti veðurstofunni er leyft að birta veðurspár sínar almenningi. Landinu er skipt í 8 svæði, og má birta veðurspá hvers svæðis um sig innan takmarka þess, en ekki annars staðar. Veðurspárnar berast símleiðis þangað frá veðurstofunni. Fyrir skip og útilegubáta er þetta vitanlega mjög slæmt, og veðurfregnir koma nú almennt að litlum notum.

Jafnframt er kunnugt, að erlendu hernaðaryfirvöldin hér hafa mjög fullkomnar veðurfregnir og styðjast við fréttir frá öllum þeim stöðum, sem veðurstofan hafði áður sambönd við. Í höndum sérfræðinga þeirra liggur sú þekking, sem miklum hluta landsmanna er brýn nauðsyn, en hernaðarvöldin hafa svipt okkur. Þess vegna fólst í þál. áskorun til ríkisstj. um að reyna að fá framgengt annaðhvort því, að veðurstofan fengi sömu aðstöðu og hún hafði áður til að afla veðurfregna, eða að hernaðaryfirvöldin hér létu veðurfræðinga sína, er hér starfa, láta veðurstofunni í té alla vitneskju, sem varðað getur veðurútlit við Ísland, jafnóðum og hún berst þeim í hendur, — í öðru lagi, að rýmkað yrði um útsending veðurspánna.

Ég hef borið fram þessa fyrirspurn til að gefa ráðh. tækifæri til að skýra frá, hvað gert hefur verið í þessum málum, sem miklu skipta allan þorra þjóðarinnar. Nú virðist siglingahættu hafa verið bægt frá höfunum kringum Ísland, svo að hernaðarviðhorf málsins sé breytt, og þola þá aðgerðir af okkar hálfu ekki bið, ef unnt væri að koma þessu í betra horf.