08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

143. mál, fjárlög 1945

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég ætla að minnast á þær fáu brtt., sem ég flyt hér., ýmist einn eða sem meðflm: Er þá fyrst sú, er ég tel þýðingarmesta, en hún er á þskj. 646 og er við 22. gr. fjárl., það er heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa strandferðaskip af líkri gerð og Esja. Það munu flestir líta svo á, að heppilegt væri, að ríkið kæmi sér upp tveimur góðum og hraðskreiðum skipum til strandferða. Með því móti gætu strandferðir orðið tíðar og til mikilla bóta frá því, sem nú er, og gæti annað þeirra þá gengið frá Reykjavík austur um land og til baka, en samgöngubætur við Austurland eru mjög aðkallandi, eins og kunnugt er. Þótt eigi hafi verið tök á því að undanförnu að útvega skip í þessu skyni, gætu ástæður breytzt bráðlega svo, að það væri unnt fyrir ríkisstj. að kaupa slíkt skip, ef hún hefði heimild til þess frá Alþ. Margir munu því álíta, að heppilegt væri að setja slíka heimild fyrir ríkisstj. inn á fjárl., til þess að hún gæti útvegað slíkt skip, ef tækifæri byðist. — Það er tekið fram í till., að þetta skip skuli vera af líkri stærð og Esjan. Þetta ákvæði er sett með vilja. Nú situr á rökstólum n., sem hefur með höndum athugun á strandferðum, og er þess vænzt, að ríkisstj. ráðfæri sig við þá n., áður en ráðizt er í framkvæmdir í þessu efni. Það er þó ekki nauðsynlegt að binda sig við sérstaka stærð, þótt þetta sé tekið fram í till. En það er nauðsynlegt að hafa slíka heimild standandi í fjárl., ef heppilegt tækifæri býðst. Benda má á, að Esja var keypt samkv. sams konar heimild.

Næsta brtt. er á þskj. 612 og er líka við 22. gr. Flyt ég hana ásamt hv. 1. þm. S.-M. og hv. 2. þm. N.-M. Þessi till. fjallar um að kaupa af eigendum Egilsstaða á Völlum land undir væntanlegt sveitarþorp. Við álítum, að ekki megi dragast lengur að hugsa fyrir landi undir þorpið. Nú eru Egilsstaðir í einstaklingseign. Hugsazt gæti, að viðkomandi hreppur gæti eignazt land þetta, en hreppurinn, sem er Vallahreppur, er ekki sterkur fjárhagslega. Við teljum því heppilegra að athuga, hvort ekki væri hægt að komast að hagkvæmum kaupum, og grípa ekki til eignarnáms, ,fyrr en séð er, að heppileg kaup náist ekki.

Enn er brtt. á sama þskj. (612 X) um hækkun á fjárframlagi til Stöðvarfjarðar- og Berunesvegar. Þetta er smáupphæð. Hækkunin, sem við förum fram á, er 15 þús. kr. til Stöðvarfjarðarvegar og 10 þús. kr. til Berunesvegar. Ég skal taka það fram, að Stöðvarfjarðarveg á að tengja við Fáskrúðsfjarðarveg, og þegar Fáskrúðsfjarðarvegi er lokið, hefur Stöðvarfjörður fengið samband við Norðurlandsveginn. Um Berunesveginn er það að segja, að hann er kominn að Berunesi, og er ætlunin að halda áfram með hann inn byggðina, en lítið er hægt að hreyfa sig fyrir 10 þús. kr. Hins vegar er það hið mesta nauðsynjamál fyrir byggðina, að vegur verði lagður um hana.

Þá er brtt. á sama þskj., XVIII, við 13. gr. A, III 2. Það er lítið fé ætlað til brúagerða, og af því tekur Ölfusárbrúin eina millj. og aðar brýr 1/2 millj. kr. Ég held, að varla sé hægt að komast af með eins lága upphæð og áætlað er, og höfum við hv. 1. þm. S.–M. leyft okkur að taka Geitdalsá og Múlaá í Skriðdal hér upp. — Múlaá kemur úr Skriðdal, en Geitdalsá úr Geitdal, sem skerst út úr Skriðdalnum, svo að í rauninni er um sömu ána að ræða. En heppilegra er að hafa brýrnar tvær. Bæði er það hið mesta hagræði fyrir byggðina, og þegar utar kemur og þær hafa sameinazt, verður brúarstæðið breiðara: Þessar ár kljúfa byggðina og torvelda mjög aðflutninga, ekki sízt bílflutninga til býlanna handan þeirra. — Þriðja áin, sem við höfum tekið upp, er Hofsá í Álftafirði. Hún er hið mesta forað. Við förum fram á 100 þús. kr. til brúargerðar yfir þá á, og sé það fyrsta greiðsla. Hafsá klýfur byggðina og er ill yfirferðar. Bílvegurinn endar við ána, og er hún varla nokkurn tíma bílfær. Þegar brú er komin á Hofsá í Álftafirði og Jökulsá í Lóni, verður bílfært að Höfn í Hornafirði. Væri því mikil samgöngubót að því, að þetta kæmist í framkvæmd.

Þá flytjum við hv. 1. þm. S.-M. brtt. við 13. gr. A, VII 1, og er það XXIII. brtt. á þskj. 612. Við leggjum til, að liðurinn orðist svo: Tillag til akfærra sýsluvega kr. 135000,00, þar af til vegar í Breiðdalsvík kr. 15000.00.

Í Breiðdalsvík á að fara að leggja í bryggjugerð, sem Alþ. ætlar að stuðla að. Bryggjan verður nokkuð frá verzlunarstaðnum, og getur vegurinn frá bryggjunni að verzlunarstaðnum ekki talizt til þjóðvega. Vegamálastjóri taldi eðlilegast, að þetta yrði sýsluvegur og sýslan kostaði hann að hálfu. Hins vegar er það ekki stór hreppur, sem hlut á að máli, og yrði erfitt fyrir hann að standa undir þessum kostnaði. Ég vil mjög eindregið fara fram á það við hv. fjvn., að hún mæli með þessari till.

Á þskj. 626, V eru nokkrar till., sem ég flyt fyrir hönd hv. þm. N.--Þ. (GG), sem er forfallaður, eins og allir hv. þm. vita. Þær eru .allar smáar, en mundu vel þegnar samt sem áður, ef þær næðu fram að ganga.

Er þar fyrst Víknavegur: a) Í Svalbarðshreppi kr. 10000,00; b) Í Presthólahreppi kr. 10000,00. Gert er ráð fyrir því, að þessi vegur liggi frá Þórshöfn til Raufarhafnar til þess að tengja saman þessa staði og sveitir á milli. Þessi vegur liggur illa fyrir botni Þistilfjarðar. Til hans hefur ekki verið veitt fé fram að þessu, en það er mjög aðkallandi, að byrjað verði á þessári vegagerð. Með þessu vegakerfi mundu fleiri bæir komast í samband, annars vegar við Raufarhöfn og hins vegar við Þórshöfn. Það er svo smátt skorið í þessu sambandi, að ég ber eiginlega kinnroða fyrir það samanborið við aðrar till., sem hér liggja fyrir. Það er stungið hér upp á, að byrjað verði með 10 þús. kr. handa hvorum þeirra um sig, þ.e.a.s., að veittar verði 10 þús. kr. í veginn innan við Þórshöfn og 10 þús. kr. í veginn innan við Raufarhöfn.

Þá er b-liður, Svínadalsvegur. Þessi vegur liggur upp frá Ásbyrgi, upp með Jökulsá að vestan og upp á móts við Dettifoss og yrði að mestu ferðamannavegur. Mér er kunnugt um, að ferðamenn hafa geysimikinn áhuga á þessum vegi. Ef hann yrði lagður, mundi hægt að komast á bifreið upp með ánni, og þá gætu menn séð með lítilli fyrirhöfn þau náttúruundur, sem þar eru upp með ánni, Hljóðakletta, sem nú er erfitt að komast að nema þá að leggja á sig langt ferðalag á hestum. Og þá gætu menn séð Dettifoss réttum megin frá, því að það ber öllum saman um, að hann sé ekki nema svipur hjá sjón austan megin frá, hjá því sem vestan megin frá. — Þetta yrði sem sagt ferðamannavegur, og má vel vera, að þessi brtt. hefði betur átt heima á fjallvegalið. Væri ég fús til að taka hana aftur og bera hana fram við þann lið, ef hv. fjvn. vildi sinna þessu máli.

Það mælir líka með þessari brtt., að í Kelduhverfinu hafa menn orðið fyrir þungum búsifjum af völdum mæðiveiki, og hafa menn þar orðið þess vegna að stunda vinnu fjarri heimilum sínum. Gæti það greitt fyrir þeim, ef vegafjárveitingarnar væru hækkaðar á þessu svæði.

Þá er það 2. tölul. á þessu þskj., Langanesvegur. Þar er farið fram á, að fjárhæðin verði hækkuð úr 25 þús. kr. upp í 40 þús., kr. Þessi vegur á að ná út á Langanes, út að Skálum, og tengja þennan veg við þjóðvegakerfið. Ég fyrir mitt leyti mæli mjög með því, að hv. Alþ. fallist á þessa hækkun, eins og hér er farið fram á.

Þá er 3. tölul. við þessa brtt., Sandá í Öxarfirði, fyrri greiðsla, 25 þús. kr. Þessi á er nokkuð verulegur farartálmi, en brúargerð ódýr á hana. Það er gert ráð fyrir, að brúin kosti 50 þús. kr., en til þess að ofbjóða engum er hér farið fram á, að upphæðinni verði skipt í tvennt, 25 þús. kr. í hvort skipti. Ég vona, að hv. þm. geti fallizt á að veita þetta fé. Þetta er kvísl úr Jökulsá í Öxarfirði, og sker hún sundur byggðina þarna og gerir það að verkum, að töluvert mikill hluti þeirrar sveitar, sem þarna á hlut að máli, getur ekki notfært sér, svo að í lagi sé, bifreiðar til flutninga eða önnur nýtízku tæki.

Að lokum er hér 8. brtt. á þskj. 626, sem ég flyt eingöngu fyrir hönd hv. þm. N.-Þ. og er um það, að 10 þús. kr. séu veittar til lendingarbóta á Kópaskeri. Þetta er aðeins til þess að minna á þetta. Þetta hefur kannske ekki verið lagt fyrir hv. fjvn., af því að þetta mál var dálítið seint athugað. En eftir því sem mér er sagt, er þetta það, sem vantar á það fé, sem veitt var til bryggju þar og nú er búið að byggja, og er þetta því síðasta greiðsla.

Ég vona, að hv. fjvn. taki málið til athugunar fyrir atkvgr. og sjái sér fært að mæla með því. Nú vil ég minnast nokkrum orðum á fjárl. að gefnu tilefni.

Ég gat ekki verið hér á fundi, sem haldinn var í gærkvöld. Ég var algerlega forfallaður og heyrði því ekki þær umr., sem fóru fram þá. En mér er skýrt frá því, að hæstv. fjmrh. hafi við þær umr. látið þess getið, að ríkisstj. mundi verða að afgr. fjárl. ríkisins á þá lund, að gert væri ráð fyrir tekjuhalla, sem yrði jafnaður með lántöku. (Fjmrh.: Ég tók það fram sem möguleika.) Það hefur ekki heldur verið gefin nein yfirlýsing um þetta efni, og skal ég ekki kappræða það að þessu sinni, því að það kemur í ljós við 3. umr. fjárl. um meðferð tekjuöflunarmála, hvernig þetta verður allt í pottinn búið frá hendi hæstv. ríkisstj. En ég vildi þó að þessu tilefni enn einu sinni minna á það, að ég tel það með öllu óverjandi, eins og nú er ástatt, að afgr. fjárl. með tekjuhalla. Það er nú öllum ljóst, að allar okkar afurðir hafa verið seldar við hæsta stríðsverði og margföldu verði nú um nokkurn tíma móts við það, sem hægt var að fá fyrir þær fyrir stríð. Auk þess hefur verið í landinu fjölmennt setulið útlendra hermanna, sem haldið hefur hér til með miklum kostnaði, svo að kveða mun svo rammt að eyðslu setuliðsins til ýmissa hluta, að mér skilst, að gjaldeyrir frá því verði að vísu nokkru lægri en útflutningur landsmanna eða nokkuð á annað hundrað millj. kr. Á þessu er tekjuáætlun fjárl. reist. Í þeim áætlunum er gert ráð fyrir, að tekjur landsmanna haldist jafnmiklar og þær hafa verið og peningaveltan og peningaflóðið haldi sem sagt áfram svipað og það hefur verið, og með því móti eru tekjurnar áætlaðar, að mér skilst, rúmar 100 millj. kr. Nú skilst mér, hvað sem við kann að taka á næstu árum, að ómögulegt sé að gera ráð fyrir öðru en menn hugsi til hins lakara í þessum efnum. Við vonum og gerum ráð fyrir, að herinn fari úr landinu og þessar miklu innborganir frá hernum hverfi og þjóðin verði aftur frjáls og hafi eingöngu tekjur af útflutningi sínum. Auk þess verðum við að gera ráð fyrir, að svo takist til, að verðlag á útflutningsvörum fari lækkandi, því að jafnvel þótt okkur takist, sem við vonum allir, að ná samningum um verzlunina, meðan á stríðinu stendur, má ekki gera ráð fyrir, að verðlag haldist það sama eftir stríðslok og það er nú. Hér verður því vafalaust að gera ráð fyrir, að breytingar eigi sér stað og verð útflutningsvörunnar fari lækkandi. Og jafnvel þó að framleiðslan verði eitthvað aukin, kemur sú framleiðsla varla svo fljótt, að útflutningur fari samt ekki minnkandi. Þá má líka gera ráð fyrir því, að tekjur frá herliðinu og setuliðsvinna hverfi, svo að ekki má reikna slíkar tekjur með. Og ef erfitt er nú að ráða við afgr. fjárl. og afla þeirra tekna, sem þarf, svo að fullur jöfnuður eigi sér stað, þá verður það harla erfitt á alla lund á næstu árum. Ég tel það þess vegna með öllu óverjandi, — og menn verða að reyna að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það, — að fjárl. verði afgr. með tekjuhalla og farið verði að taka lán á næsta ári til þess að borga útgjöld ríkisins, sem ráðgerð eru á fjárl. og með sérstökum lögum.

Í þessum útgjöldum er í raun og veru ekki neitt sérstakt, sem gefur arð. Það má skipta þeim i þrennt þannig: Útgjöld til ríkiskostnaðar, útgjöld til þess að halda dýrtíðinni í skefjum, til þess að atvinnuvegirnir verði ekki strax reknir með tapi. Í þriðja lagi eru verklegar framkvæmdir, sem ekki eru arðberandi. — Mér virðist augljóst mál, að ef menn geta ekki greitt gjöld með öllum þeim hlaupatekjum þjóðarinnar nú, þá verði fjárl. óviðráðanleg með öllu eftir stríð, þegar fer að halla undan fæti í þessum efnum frá því, sem nú er. Ég get ekki séð, hvernig menn hugsa sér, að á næstu árum verði hægt að standa undir öllum þeim gjöldum og framkvæmdum, sem þurfa að vera miklar og þyrftu helzt að aukast, þegar öll setuliðsvinna hverfur, og hafa auk þess afgang til þess að borga skuldir frá góðæristímanum. Það er alveg auðséð, að fjárhag ríkisins er stefnt í voða, ef taka þarf nú upp þá aðferð að afgr. fjárl. með tekjuhalla. Ég vil því mjög eindregið benda á þetta, áður en endanleg afgreiðsla málanna verður afráðin. Ég fer ekki út í að ræða það nánar, þar sem hæstv. ráðh. hefur minnzt á þetta sem möguleika, er rétt væri að athuga nánar.