05.10.1944
Efri deild: 53. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í D-deild Alþingistíðinda. (6337)

60. mál, flugferðir milli Íslands og annarra landa

Fyrirspyrjandi (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Við hv. þm. Barð. höfum leyft okkur að bera fram þessa fyrirspurn í tilefni af þál., sem Alþ. samþ. 9. febr. árið 1943, en ekki 1942, eins og stendur í þskj.

Í áskorun Alþ. 9. febr. 1943 var bent á, að áskilið væri, að hæstv. ríkisstj. athugaði, hvort ekki væri gerlegt að útvega flugvélar frá Ameríku eða Bretlandi til að halda uppi flugsamgöngum við Ísland.

Það mun nú auðsætt, að helzta samgöngutæki framtíðarinnar og það, sem einkum mun annast fólksflutninga yfir Atlantshaf, eru flugvélar. Okkur Íslendingum mátti þegar vera ljós nauðsyn þess að hafa flugsamgöngur, þar sem erfiðleikar og hættur við flutninga sjóleiðis höfðu margfaldazt. Nú er að vísu versti tíminn liðinn hjá, og þótt flutningar sjóveginn fari ef til vill að verða auðveldari, þá mun brýn þörf fyrir flugvélar til að annast póst- og farþegaflutninga.

Nú er mér sagt, að búið sé að festa kaup á flugvél til millilandaflugs, enda þótt ég viti ekki sönnur á, að hún sé til þess ætluð. Ekki er mér kunnugt um, hvort ríkisstj. hefur staðið að þessum kaupum eða átt þar hlut að máli, en mér þykir líklegt, ef hún hefði lagt allt kapp á þetta mál í byrjun, að við hefðum ekki þurft að bíða svo lengi sem raun hefur á orðið.

Nú nýlega hefur verið rætt um póstsamgöngurnar og á hvern hátt það vandamál yrði leyst, en á því væri einnig ráðin bót, ef nefnd till. bæri árangur.

Nú er það auðvitað góðra gjalda vert, að herstjórnin hefur leyft að flytja sjúklinga og einstaka opinbera starfsmenn með herflugvélunum, en þó mun nokkuð á skorta, að allir hafi notið þess, sem þó munu hafa haft þess fulla þörf, því að eðlilega þurfa fleiri en opinberir starfsmenn að fara landa á milli. Ég lít svo á, að hafnbannið hafi verið sett vegna dvalar setuliðsins hér, og tel þess vegna, að það hefði átt að ráða bót á þessu, sem það og hefur gert að nokkru leyti, en ekki svo sem æskilegt hefði verið. Mér er og sagt, að stjórn setuliðsins hér muni hafa gert sitt bezta í þessu efni, en æðri stjórnarvöldum sé um að kenna.

Nú töldum við þó rétt að ýta við ríkisstj. og fá vitneskju um, hvað hún hefði gert í þessu máli, og vænti ég nú, að hún gefi skýrslu sína.