05.10.1944
Efri deild: 53. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í D-deild Alþingistíðinda. (6338)

60. mál, flugferðir milli Íslands og annarra landa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég er á sama máli og fyrirspyrjendur um nauðsyn flugsamgangna, meðan á stríðinu stóð. Þegar eftir að þáltill. kom fram, var rætt við ríkisstjórnir beggja nefndra landa og þess farið á leit, að Íslendingar gætu fengið far milli landa. En þrátt fyrir að við bárum fram hin sömu rök og nú voru greind fengum við þau svör, að slíkt væri ekki hægt vegna takmarkaðs flugvélakosts. Síðar, þegar aðstaðan breyttist og flugvélaframleiðslan jókst, var aftur rætt um þetta, en við fengum enn hin sömu svör. Þó skal þess getið, að allmargir hafa verið fluttir í flugvélum hersins. En allir samningar hér að lútandi hafa borið neikvæðan árangur.

Viðvíkjandi kaupum á flugvélum til landsins er því til að svara, að tekizt hefur, sem kunnugt er, að fá nokkrar smávélar, en stórar hafa ekki fengizt til skamms tíma. En nú hefur tekizt að festa kaup á vél til millilandaflugs, sem rúmar 24 farþega, og hefur ríkisstj. látið flugfélaginu í té þá aðstoð, er þurfti til þessara kaupa.

Það skal loks upplýst, að á allan hátt hefur verið reynt að fá frekari lausn á þessu máli, en án árangurs. Ég legg ekki dóm á, hvort unnt hefði verið með einhverjum ráðum að ná frekari árangri, slíkt er og verður álitamál, þótt ég telji það mjög vafasamt.