09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í D-deild Alþingistíðinda. (6343)

64. mál, bændaskóli Suðurlands

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Hæstv. landbrh. hefur góðfúslega orðið við því að svara hér fyrirspurn þeirri, sem prentuð er á þskj. 137.

Það er nú langt síðan bændaskólal. var breytt með ákvörðun um, að bændaskóli skuli reistur á hinu mikla jarðræktar- og framleiðslusvæði Suðurlandsundirlendisins, þar sem þau l. eru frá því í júní 1942. Það eru því margir orðnir langeygðir eftir að sjá árangurinn af þeim l. og hvar skólanum verður ákvarðaður staður. Eins og l. bera með sér, er staðurinn ekki ákvarðaður í þeim, heldur skotið til þess úrskurðar, að landbúnaðarráðuneytið skuli ákveða skólastaðinn að fengnum till. frá Búnaðarfélagi Íslands. Þetta er ekki ennþá komið í dagsbirtuna, en ég geri ráð fyrir, að þótt þessi dráttur sé orðinn þetta langur, undir ýmsum kringumstæðum óeðlilega langur, þá munu liggja til þess orsakir, sem ég tel, að sé engan veginn sök landbrh. eða Búnaðarfélags Íslands. Það er kunnugt mál, þó að því hafi ekki verið hreyft opinberlega, að Búnaðarfélag Íslands valdi þrjá menn í n. til þess að gera till. fyrir sína hönd og jafnframt, að þegar hún tók til starfa, þá kom ágreiningur í ljós. Þessu starfi n. lauk svo með því, að ekki varð samkomulag um málið, og skilaði n. tveim nál., sem vísa sitt í hvora áttina. Það er að segja, n. klofnaði um þetta mál. Þetta hefur orðið til tafar málinu, því að hefði þessi undirbúningsn. orðið sammála og á eitt sátt, þá hefði málið verið miklu auðveldara til endanlegrar ákvörðunar fyrir ríkisstj.

Það er vitað mál og gerir ekkert til, þó að þess sé getið hér, að n. klofnaði á þann veg, að tveir nm. lögðu til að reisa búnaðarskólann í Skálholti í Árnessýslu, en þrír lögðu til, að hann yrði reistur í Kálfholti í Rangárvallasýslu. Ég ætla ekki — og það á ekki við — á nokkurn hátt að leggja dóm á réttmæti hvorrar till. um sig. Ég geri ráð fyrir, að hver hafi um það sínar skoðanir og bíði þar átekta. En eitt er víst — og ég legg áherzlu á það — að almenningur, sem á að þessu að búa, hefur áhuga á því, að þetta komist til frekari framgangs. Fólkið er farið að bíða eftir svari.

Ég veit nú til, að þessi klofna n. hefur nú skilað þessum álitum í hendur ráðuneytisins. En sem sagt, úr því að n. gat ekki orðið á eitt sátt, þá er afstaðan örðugri fyrir ráðuneytið og eðlilegra, að einhver dráttur hefur orðið á endanlegri niðurstöðu. Ég vil segja það sem þm. einnar þeirra sýslna, sem að skólanum eiga að búa, að ég veit það og vil, að ráðh. megi heyra það, að allir hinir víðsýnni menn þar eystra, a. m. k. þeir, sem ég þekki, eru ekki haldnir neinni þröngsýni eða hreppapólitík um það, hvar þessum skóla verði ákvarðaður staður. Sá áhugi, sem þeir menn hafa, er allur um það að ákvarða skólanum stað, hvort sem hann verður í Árnessýslu eða Rangárvallasýslu, því að frá sjónarmiði allra víðsýnna manna er það aukaatriði, en hitt aðalatriðið, að ákvörðunin komi og honum verði fenginn staður, sem samboðinn er honum og til framtíðar. Þetta eru þau atriði, sem allir víðsýnir menn leggja mesta áherzlu á.

Í l. er það tekið fram, að við staðarval skuli tekið tillit til þess, sem sérstaklega snertir jarðargróður og að hann komi að sem beztum notum. Á það er vitanlega lögð áherzla, að það verði fjölbreytt gæði, sem koma þar til greina, þ. e. a. s., að saman fari þar fjölbreytni og miklir jarðræktarmöguleikar. Það er þetta, sem fólkið leggur áherzlu á, og ég vænti, að hæstv. ríkisstj. sjái svo um, að þessum skilyrðum verði fullnægt, án tillits til þess, í hvaða sýslu skólinn verður. Fólk er farið að lengja eftir þessari ákvörðun, og til þess að afla skýrra upplýsinga um það, hvenær mætti vænta úrslita í þessu efni, gerði ég þessa fyrirspurn til hæstv. ráðh., og hefur hann góðfúslega lofað að svara henni hér.