09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í D-deild Alþingistíðinda. (6344)

64. mál, bændaskóli Suðurlands

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Eins og fyrirspyrjandi tók fram, þá hefur gangur þessa máls verið sá, að n. var skipuð til þess að athuga um væntanlegan stað fyrir bændaskóla Suðurlands. En n. klofnaði.

Forsaga þessa máls er sú, að ríkisstj. fól Búnaðarfélagi Íslands að gera till. um skólastað, en stjórn Búnaðarfélagsins fól það aftur þrem mönnum, og tvo menn tilnefndi ríkisstj. sjálf. Þessi n. starfaði síðastliðið sumar og skilaði áliti stuttu fyrir síðustu áramót. En með því að n. klofnaði og eins stjórn Búnaðarfélagsins, eftir að hún hafði fengið álitið, í tvennt eða þrennt, þá hefur þetta orðið til þess, að ráðun. telur sig þurfa að gera enn nokkrar athuganir, áður en það tekur ákvörðun um það, hvar skólanum skuli valinn staður. Það var ætlun mín, að þessi athugun færi fram milli jóla og nýárs, en vegna þess að þá gerði snjókomu og snjóalög, þá tafðist málið, og það verður ekki hægt að gera þessar athuganir, fyrr en snjóa tekur aftur að leysa af Suðurlandsundirlendinu. En það er ætlun mín, að þá strax og hægt reynist skuli þessi athugun fara fram og ákvörðun um skólastað tekin. Að sjálfsögðu, þegar þar að kemur, mun verða reynt að taka þá ákvörðun með það fyrir augum, að sem beztur staður fáist fyrir þennan skóla, sem bændur á Suðurlandsundirlendinu sjálfsagt geta borið miklar vonir til. Sem sagt, þetta mál skal ekki dragast að óþörfu, eftir að snjóa leysir í vor.