09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í D-deild Alþingistíðinda. (6349)

65. mál, rafveitumál

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Þessi fyrirspurn til hæstv. ráðh. er að því leyti borin fram af mér í sama skyni og síðast rædda fyrirspurn (þ. e. fsp. um bændaskóla Suðurlands), að ég tel æskilegt að leita upplýsinga um viðhorfið þangað, sem helzt er að leita þeirra, þ. e. a. s. hjá ráðh. þeim, sem fer með rafveitumál. Ég skal hafa þessi orð mín ekki nema örfá, því að það er nóg að vísa til þess, sem lengi hefur búið í hugum fólksins og rætt hefur verið um manna á milli, að geta notað hinn mikla aflgjafa, Sogið, til að lýsa byggðunum í námunda virkjunarinnar. Þetta hefur allrækilega verið rannsakað af fagmönnum í því skyni, og er málið komið á þann rekspöl, að jafnframt því, sem kunnugt er, að á síðasta ári heimilaði ríkisstj…

Nú hefur maður heyrt utan að sér, en ekki þó með glöggum skilum, að af hálfu hæstv. stj. og trúnaðarmanna hennar hér heima og sendimanna í Ameríku sé verið að leitast fyrir um þetta. En þá er spurning mín: Hvað gengur því? Eru líkur til, að horfi vel og efni fáist og útflutningsleyfi? Fólk er spurult og vill sem von er vita, hverjar líkur séu fyrir, að þessu fáist framgengt og hvort þess megi vænta, áður en langt um líður, að það efni fáist, sem þetta byggðarlag þarf.

Ég vil svo láta máli mínu lokið, því að forsaga þessa máls er svo kunn, að ég tel, að ekki þurfi að ræða það frekar, áður en hæstv. ráðh. gerir svo vel að svara því, sem spurt er um.