08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

143. mál, fjárlög 1945

Páll Hermannsson:

Herra forseti. — Þm. hafa nú hér hina sömu sögu að segja, að jafnvel þó að þessi fjárl. þyki vera með háum útgjöldum, finnst þó flestum þeirra, að þeir þyrftu á meira fé að halda fyrir byggðarlög sín. — Ég er hér flm. að nokkrum brtt., sem ég mun ekki minnast á, vegna þess að það mun vera búið að tala fyrir þeim öllum af þeim, sem eru þar 1. flm.

En það er aðeins ein brtt., sem ég er 1. flm. að. Hún er á þskj. 612, XIII. tölul. Hún er um það að bæta við nýjum útgjöldum á fjárl. til brúar á Jökulsá í Fljótsdal, 250 þús. kr. Þetta er nú há upphæð, ég játa það. Upphæðirnar eru háar núna. — Þessi brú verður að teljast til stórbrúa, og þar af leiðandi verður hún dýr. Ég býst við, að hv. þm. sé það kunnugt, að hér hafa legið oftar en einu sinni fyrir hæstv. Alþ. bænaskrár eða undirskriftaskjöl um brúargerð í Fljótsdal. Hvað eftir annað hafa allir íbúar þeirrar sveitar sent óskir um það til hæstv. Alþ., að það vildi veita fé til þess að brúa stórárnar í Fljótsdal, og ber það nokkurn vott um, að fólkið finnur, hver þörfin er. Um þetta hafa líka verið ritaðar greinar í blöð oftar en einu sinni. Það má nú vel vera, að hv. alþm. muni ekki eftir þeim nú, en ég ætla, að í þeim greinum, a.m.k. sumum, hafi því verið gerð ýtarleg og glögg skil, hve nauðsynlegt er að brúa þessi vatnsföll.

Lagarfljót er á annað hundrað km á lengd í byggð. Á þessu stórvatni er ein brú, sem nú er réttra 40 ára gömul og þótti á sínum tíma eitt mesta mannvirki sinnar tegundar. Á þessum 40 árum hefur mikið verið bætt um samgöngur á þessu landi, en þetta stórvatn hefur samt setið við þessa einu brú. Þær ár, sem mynda Lagarfljót, eru tvær. Önnur þeirra er jökulvatn, Jökulsá í Fljótsdal, sem leggur til allt jökulvatnið í Lagarfljót, hin er í sömu sveit, heitir Kelduá, mikil bergvatnsá. Þessi vötn kljúfa því sveitina í þrennt. Ekki vil ég segja, að þau séu alltaf ófær árið um kring; þau eru oft á ís á vetrum og stundum reið á sumrum, en alltaf með áhættu, stundum ófær. Sjá allir, hvað þessi vötn hindra mikið allt samlíf og samgöngur þessarar sveitar. Allt verður að flytja á klökkum, og fénað verður að ferja til afréttar og frá, sömuleiðis sláturfé.

Það er langt síðan menn fundu, að þessi vötn áttu að vera brúuð, helzt fyrir löngu. Ég ætla, að það séu tíu ár eða þar um bil, síðan því var slegið föstu af vegamálastjóra, að fyrsta stórbrúin, sem gera ætti á þessu landi, væri brúin yfir Jökulsá á Fjöllum. Það var bent á svo margvísleg rök fyrir því, að hún ætti að koma á undan öllum öðrum stórbrúm, að það var eins og maður teldi ekki til neins að nefna fjárveitingu til annarra stórbrúa, fyrr en þessi brú væri komin. Fyrir allinörgum árum var stofnaður brúarsjóður, eins og hv. alþm. kannast við, og átti hann að vinna það hlutverk smátt og smátt að leggja fram fé í stórbrýr. Þessi sjóður er nú orðinn allstór, en þó er ég ekki viss um, að hann hrökkvi til mikils meira en að brúa Jökulsá á Fjöllum, líklega nálægt Grímsstöðum, en í brúarsjóðsl. er ákveðið, að sú brú verði fyrst. — Það dregst alltaf meira og meira að því, að þeim, sem fara með umboð fólksins, reynist ókleift að bíða endalaust eftir brúargerðum þar eystra. Hér við bætist, að þar hafa nú nýlega gerzt þeir atburðir, sem enn þá meir ýta undir þetta. Svo sem kunnugt er, hefur Alþingi á fyrri hluta þessa árs ákveðið að sameina í eitt tvö læknishéruð þar. Hefur það þær afleiðingar, að læknisbústaður, sem áður var í Fljótsdal, er nú fluttur þaðan. Kom þetta til greina, þegar læknisbústaðurinn í Fljótsdal brann, en þar hefur setið læknir a.m.k. það, sem af er þessari öld. Þetta hefur þær afleiðingar, að vegalengd fyrir íbúa Fljótsdals til læknisvitjunar lengist um 40 km, því að það eru um 40 km frá Brekku til Egilsstaða, þar sem læknisbústaðurinn er nú. Allir Fljótsdælingar, sem búa fyrir innan Brekku, þurfa því að sækja lækni 40 km lengra en áður var. Þó að læknirinn hafi verið búsettur í Fljótsdal fram að þessu, hafa þessi vötn oft torveldað svo mjög fyrir mönnum að vitja læknis, að ekki var þar á bætandi. Má þá nærri geta, hvernig aðstaðan verður til læknisvitjunar, þegar svona hefur verið farið að. Það hefur ekki þótt fært að komast hjá því að færa læknisbústaðinn þetta langt burt. Skal ég engan dóm leggja á, hvort þm. þeir, sem hafa umboð fyrir Fljótsdælinga, hafa unnið þar þarft verk eða óþarft, þegar þeir lögðu hönd að því, að sú breyt. yrði gerð á læknaskipuninni. Ég hélt þá, að þetta væri það eina, sem hægt væri að gera, og held það enn, þó að ég sé kannske ekki fyllilega dómbær á það. En hitt veit ég fyrir víst, að í Fljótsdal er ákaflega mikill sársauki vegna læknismissisins, eins og samgönguskilyrði eru þar. Það verður að líta svo á, að til þess að bæta Fljótsdælingum missi þess læknis, sem þeir áttu rétt á, sé ekki önnur leið en bættar samgöngur og bætt símakerfi. Ég geri ráð fyrir, að það ætti að geta komið íbúum Fljótsdals að einhverju liði, því að svo er þar ástatt um símasamband, að í sveitinni er ein landssímastöð og út frá henni eru tvö númer, læknisbústaðurinn gamli og Skriðuklaustur, og þurfa menn að fara yfir stórvötn til að komast í símasamband við lækninn. Það væri nokkurt gagn að því að fá síma, þó að fullnægjandi umbót fáist ekki, fyrr en brýrnar koma. — Ég skal geta þess, að á þessu ári hafa verið brúaðar tvær þverár í Fljótsdal. Var mikil bót að þeim brúm. Var það m.a. gert af því, að menn gerðu sér vonir um, að áfram yrði haldið og innan skamms kæmu brýr á stórvötnin, en þessar brýr á þverárnar voru nauðsynlegar vegna efnisflutnings, því að þær gátu hindrað flutninga eftir tiltölulega ófullkomnum akvegi, sem nú liggur alllangt inn í dalinn. Það var til álita um eitt skeið að brúa báðar árnar, Jökulsá og Kelduá; eftir að þær koma saman, en það hefur komið í ljós, að það er fullt eins dýrt, en á hinn bóginn er miklu gagnlegra að brúa báðar árnar til þess að komast líka í samband við byggðina, sem liggur á milli þeirra, enda er lítill vegalengdarmunur.

Nú förum við þm. N.-M. fram á að fá fjárveitingu í aðra brúna, þá dýrari, á stærra vatnið, Jökulsá. Er áætlað, að hún muni kosta 250 þús. kr. og á að vera bogabrú, 50 m löng, nokkurn veginn jafnlöng og brúin á Fnjóská og Grímsá á Völlum. Það verður ekki nema snertuspölur á milli hennar og fyrirhugaðrar brúar á hinni ánni, en við gerum enga till. um hana að þessu sinni, en ætlum að láta hana bíða, þó að það gæti orðið allmiklu ódýrara að brúa þær báðar samtímis vegna efnis, áhalda og þess háttar. — Ég held, að ekki þurfi að lýsa þessu nánar. Ég er viss um, að hv. þm. og frsm. er þörfin ljós. Ég játa, að það er svo ákaflega viða hér á landi, að mikil þörf er fyrir þess háttar framkvæmdir, en ég er ekki viss um, að víða sé hægt að benda á meiri ástæðu til að hrinda sams konar verki í framkvæmd en hér er um að ræða, ef á allt er litið.

Hv. frsm. gat um, að nú biði smíði á brúm, sem hefði átt að komast í framkvæmd á undanförnum árum. Hann benti á það, sem kann að vera rétt, að á árinu 1945 mundu kannske ekki verða föng á að hafa meiri framkvæmdir en í frv. hefði verið gert ráð fyrir. Ég vil trúa, að það geti verið rétt, en vel gæti ég þó hugsað mér, að á árinu 1945 takmarkaðist brúarsmíði engu síður af möguleikum á útvegun á efni en fjárveitingunum. Mér er sagt, að nú séu nálægt 20 brýr, sem búið er að veita fé til, en séu ógerðar. En jafnvel þó að svo sé, þá þætti okkur samt ákaflega mikilsvert að fá þessa brú tekna inn í fjárl., jafnvel þó að það kæmi fyrir, að hún yrði ekki gerð á næsta ári. Ég yrði að' líta svo á, að hún ætti að ganga á undan einhverjum þeim brúm, sem nú þegar hafa komizt inn í fjárl. En þó að það yrði ekki, þá er það vitað, að þegar fólk er búið að biða svona lengi, þegar það finnur svona ríka þörf og veit, hversu mikil sanngirni mælir með framkvæmd verksins, þá yrði það ákaflega mikil hugnun fyrir það að sjá, að framlag til verksins er ákveðið í fjárl., — þá getur tíminn farið að styttast, þar til hin langþráða framkvæmd kemst á. Ég held því, að jafnvel þó að fé yrði veitt til þessarar brúar, en hún ekki byggð, þá væri samt unnið gott verk, ef framlag til hennar yrði ákveðið í fjárl., af því að það gerði fólkið rólegra og færði því heim sanninn um, að því hefði ekki verið gleymt. Með tilliti til þess höfum við flm. flutt sem varatill., að hálfur kostnaður verði lagður fram á næsta ári. Við hugsum okkur, að ef ástæður yrðu til að framkvæma verkið, væri ef til vill hægt að útvega hinn helminginn í bili, en fyrir mér vakir líka, að það er nokkurs virði að sjá, að framkvæmdin er á næstu grösum.

Ég játa, að fjárl. eru há og útgjaldaliðir þar margir og stórir, og mér finnst það ekki óeðlilegt. Mér finnst það eðlileg afleiðing af þeirri þörf, sem nú er á miklum framkvæmdum, og þó að mér þyki þau há, þá hef ég samt ekki getað komizt hjá að flytja þessa till. Mér finnst, að þar hafi nauðsyn brotið lög að óska eftir þessari fjárveitingu, ef þess væri nokkur kostur að fá hana.